Ég talaði við betri helminginn

Þegar allt gengur sem best, vinnu- og sköpunargleðin er í hámarki, þá er kominn kvöldmatur. Svo, þar sem ég er ellilífeyrisþegi og dagarnir eru rétt að að lyfta sér frá svartasta skammdeginu, kemur eiginlega ekki til greina að vinna við smíðar heima hjá sér eftir kvöldmat. Þó hef ég gert það stöku sinnum síðustu tíu dagana. Ég talaði um sköpunargleði og það er einhvern veginn þannig að það sannast, næstum eftir hvern einasta dag, að allt sem við höfum veri að gera hér heima hefur verið hárrétt hugsað frá byrjun.

Þegar svona gengur vil ég alls ekki verða fyrir neinum truflunum. Í þau fáu skipti sem síminn hefur hringt síðustu dagana hef ég sagt um leið og fyrsta hringingin heyrist að ég voni að það sé ekki Ove. Og það hefur heldur ekki verið Ove -fyrr en í gærmorgun. Þá lágum við enn í rúminu og vorum að tala saman. Þá hringdi farsíminn minn. Ég var ekki með gleraugun á mér þegar ég tók símann og sá því ekki hver var að hringja. Svo opnaði ég símann og sagði: Guðjón. Það var Ove! Geturðu komið og unnið dagvinnu á morgun, spurði hann. Bíddu, sagði ég.

Svo stakk ég símanum undir rassinn á mér svo að hann heyrði ekki hvað okkur fór á milli og sagði Valdísi um hvað málið snerist. Já, viltu ekki bara gera það, sagði hún svona ofur eðlilega. Ég tók símann til baka og sagði Ove eð ég væri búinn að tala við betri helminginn og ég mundi koma. Þetta gerði að verkum að mér lá mikið meira á að koma hlutum í verk allan gærdaginn en dagana þar á undan. Ég mundi missa úr heilan dag við gerefti og dyraáfellur, smíðar og málningu.

Ég lagði óvenju snemma af stað til Vorness í morgun og hugsaði einmitt um það að daginn væri ekki merkjanlega tekinn að lengja á morgnana. Samt vissi ég að dagurinn í dag er um 40 mínútum lengri en styttsti dagurinn um vetrarsólhvörfin. Ennþá er þó breytingin minni á morgnana. Þegar ég ók niður malarveginn hérna næst Sólvöllum hugsaði ég til sjónvarpasfréttar frá í gær um slys á vegum þar sem ekið er á dýr, sérstaklega elgi. Talað var um að þau slys væru mun fleiri en fram kæmi almennt.

Í fréttinni voru sýndar nokkrar myndir þar sem afleiðingarnar höfðu orðið mjög alvarlegar. Þá höfðu elgirnir lent með afturhlutann langt inn í bílinn og framfætur og höfuð stóðu út um framrúðuna. Ég ók því rólega og reyndar fannst mér sem óvenju margir gerðu það. Nokkrum sinnum fór ég út á bílastæði til að hleypa þeim framúr sem virtust hafa einhverju mjög áríðandi að sinna og fóru því geyst. Sumir eru víst ákaflega mikilvægir og ekkert má hefta þeirra för og hugsanlega eru það þeir sem fá elginn lengst inn í bílinn. Eftir það liggur þeim ekki á þar sem ferðirnar verða ekki fleiri.

Í desember vann ég mikið, einnig um hátíðarnar, og þá var sérstakt helgarálag. Þetta fæ ég útborgað í dágóðri upphæð í janúar sem gerir það að verkum að ég fæ mjög lítinn ellilífeyri allt næsta ár. Ég vil samt taka það fram að ég fæ góðan lífeyrissjóð og ber að vera þakklátur fyrir það. Með aðstoð hjálplegrar konu hjá Tryggingsastofnun reyndi ég að reikna út ellilífeyrinn fyrir næsta ár og hann virðist ekki verða meiri en svo að í dag vann ég fyrir tveggja mánaða ellilífeyrisgreiðslum. Því má reikna með að ég vinni eitthvað á þessu ári og fái þá margfalt meiri tekjur en það sem ég mundi fá frá Tryggingarstofnun. En ég má bara alls ekki vinna í desember í ár því að þá fæ ég lítinn sem engan ellilífeyri næsta ár heldur.

Við Valdís höfum talað um það að ég geti unnið svolítið fram í september í ár, en svo verður vinnuferli mínum að fara að ljúka. Ég verð þó að segja það að koma á þennan vinnustað og hitta þessa skjólstæðinga sem raða sér í kringum mig til að bjóða mig velkominn, það er umbun sem ekkert kemur launagreiðslum við. Sumarið 1993 þegar ég vann á Vogi var ég spurður af kunningja sem ég hitti fyrir norðan hvort ég væri nógu munnhvatur til að vinna við þetta. Það fjallar ekki um að vera munnhvatur, það fjallar í fyrsta lagi um að vera manneskja sem lætur þó alls ekki hvað sem er viðgangast.

Klukkan tifar og þar sem ég þarf minn átta tíma svefn í nótt líka verð ég að setja punktinn yfir iið, annars verður ekki smíðað og málað mikið á morgun. Við ætlum líka að bregða okkur í bíó seinni partinn og sjá Stig Helmer. Myndirnar hans eru svo saklausar og bláeygar. Hann þarf engan að drepa eða láta blóð renna til að hafa ofan af fyrir fólki. Valdís viðraði ullarfeldina okkar í þokkalegum vindi í dag þannig að það verður hreinn unaður að leggja sig eftir útaf burst og piss. Góða nótt.


Kommentarer
Auja

Blessaður vinur er vinnumaðurinn að vinna helgina 3-5 febrúar, ef svo er þá bara hittum við frúna sjáumst vonandi

2012-01-14 @ 00:12:53
Guðjón

Ég bara ætla að láta þig vita það að ef þið ætlið að koma í heimsókn þessa daga, þá verð ég heima. Þá sleppi ég frekaer vinnu. Verið svo velkomin.



Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2012-01-14 @ 00:20:01
URL: http://gudjon.blogg.se/
Auja

frábært þá látum við vita af okkkur gistum hjá Evu og Sven

2012-01-14 @ 22:53:52


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0