Örtröð í Marieberg

Það var nú meiri urmullinn af fólki og bílum í höfuðstöðvum Mammons í Örebro, Marieberg, í dag. Mér fannst sem það væri eiginlega ekki hægt að aka eftir umferðareglum, heldur væri nauðsynlegt að ná augnsambandi við bílstjórann í næsta bíl ef vel ætti að fara. Bílastæðunum þarna má næstum líkja við flugvelli að stærð og þegar ég var búinn að aka spölkorn á þennan hátt var ég kominn að lítilli endurvinnslustöð sem þarna er. Ég tók fyrsta dallinn út úr bílnum, þann með plastinu, og horfði á einn gáminn til að fullvissa mig um að það væri gámurinn fyrir plast. Jú, það var hann og hann var sneisa fullur framan frá séð.

Þá birtist mannvera, yngri kona með fötu í hendi, og sagði glaðlega; það er nóg pláss hér bakvið. Já, einmitt, þannig er það gjarnan. Hún gat alveg látið það vera en að hún gerði þetta voru þægileg mannleg samskipti. Svo fór ég á bakvið og tæmdi dallinn þar sem nóg var plássið og þegar ég kom fram fyrir hann að bílnum aftur var ég orðinn einn við gámana. Fjórir dallar að losa með fjórum tegundum og mér finnst svo notalegt að það er hægt að gera þetta á þann besta hátt sem völ er á.

Meðan ég dundaði við þetta var Valdís í matvöruversluninni. Það er notalegra fyrir hana að vera ein þar vegna þess að ég á vanda til að fara í búðarfýlu. Ég vil bara hafa miða með því sem þarfa að kaupa og kaupa það og svo er verslunarferðinni lokið. En Valdís vill fara þetta í rólegheitum og sjá eitt og annað sem finnst á hillunum. Vissulega hefur hún oft fundið það sem við vissum ekki áður að væri til. Svo kannski kaupir hún það og í sumum tilfellum er það ómissandi á eftir. Frá endurvinnslustöðinni fór ég í byggingarvöruverslunina K-rauta og í svoleiðis búðum er ég öllu rólegri og skoða þá gjarnan hvað finnst og hvernig best væri að leysa eitt og annað sem ég þarf að gera heima. Ég er sem sagt mikið hlutdrægur á þessu sviði. Kannski er ég bara sérvitringur.

Í K-rauta hitti ég mann sem hefur áður hjálpað mér og spurði hann eftir þykktum á MDF plötum sem ég hugsa mér að nota í sólbekki hér á Sólvöllum. Þykktin sem ég vildi fá er bara seld eftir pöntunum og er þá svíndýr. Þá var bara um að ræða 22 mm þykktina sem þeir selja af lager og setja svo breiðari álímingu á framkantinn. Við skeggræddum þetta og vorum sammála. Svo spurði ég hvað kostaði að fá svona plötu sagaða í sex renninga.

Hann stóð þarna rólega með hendur fyrir aftan bak og sagði að fyrsta sagarfarið kostaði 18 krónur og svo færi það eftir tíma. Svo hálf glotti hann. Hann hefur nefnilega sagað fyrir mig áður og svo sagt að hann bjóði upp á sögunina. Ég fann á öllu að hann vissi að ég myndi eftir þessu og einnig að ég vissi að hann tæki ekkert fyrir það núna heldur. Þegar ég sagðist ekki taka plötuna núna vegna þess að ég væri ekki með kerruna sagði hann að það væru jú mikið betra að geta tekið það með sér heim sem maður keypti í verslunarferðum. Hann var önnur manneskjan sem gaman var að hitta í Marieberg þennan dag. Hann var sniðugur þegar hann sagði hlutina.

Svo þegar ég fór frá K-rauta tók við þessi gríðarlega umferð á verslunarsvæðunum og umferðarreglan "náðu augnsambandi" tók gildi á ný. Ekki voru allir tibúnir til að nota þessa reglu, heldur tóku sér rétt, en yfir höfuð var fólk tillitssamt og viðmótsgott. Ég reyndi að vera það líka. Einu sinni hef ég þó hagað mér illa þarna.

Við Valdís vorum á leiðinni út í bíl og það var alger mannþröng á stæðinu þegar við nálguðumst bílinn. Einn var að reyna að bakka út úr stæði og annar beið eftir því að komast inn í stæði þar við hliðina. Allir sýndu aðgát og tillitssemi en allt í einu flautaði bíll fyrir aftan okkur inn í mannmergðinni. Ég ætlaði að líta við en áður en mér tókst það tók ég eftir bílstuðara við kálfann á mér og það var greinilega sá sem flautaði. Án þess að líta við sýndi ég fingurinn og það er ekki gert bara sí svona hér. Augnabliki síðar komst þessi bíll áfram og miðaldra, stressuð, svarthærð kona renndi niður hliðarrúðunni og kallaði mig kalldjöful. Þar fékk ég fyrir ferðina! Það sem hún gerði, að reyna að flauta sig áfram í mannhafi, var fyrir mér algerlega óhugsandi að gera og því gerði ég sem ég gerði. Ég get svo sem ekki sagt að ég hafi legið andvaka út af þessu atviki.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0