Óttalega mikill munur

Ég sá mér skylt að senda út skýrslu dagsins og í því skyni hafa verið teknar nokkrar myndir til að auðvelda þá skýrslugerð.


Ég hefði getað náð þessari mynd betri með því að draga niður gardínurnar en þá hefði heldur ekki orðið neitt útsýni. En alla vega, áfellur setti ég á marga glugga í fyrrahaust og að taka þessa mynd var til að sýna hvernig gluggi án gerefta lítur út. Þetta er nú hún Valdís búin að búa við í fjóra mánuði. Þar sem ég get ekki þagað yfir svo miklu er ég auðvitað búinn að segja frá því að uppsetning gereftanna er búinn að vera í undirbúningi í tvo daga. Í morgun byrjaði ég svo á því að bera inn eldivið fyrir næstu daga og svo fórum við út með ullarfeldina okkar til viðrunar. Þar á eftir sneri ég mér að uppsetningunni á gereftunum. Sú vinna byrjaði með hverri ferðinni á fætur annarri út í geymslu til að sækja verkfæri og annað sem til þurfti. Nú er það líka tilbúið til áframhaldandi vinnu, vel geymt í verkfæraskúffu með haldi, skúffu sem Valdís keypti handa mér svo að mér gengi betur að halda utan um og hafa með mér verkfæri til ákveðinna verka. En þetta með gereftin er nefnilega saga til næsta bæjar og það kemur fram á næstu mynd.


Þegar búið er að setja gerefti á glugga og sparsla yfir nagla verður útlit hans svona. Það er mikil breyting frá fyrri mynd. Áður en ég byrjaði gekk ég frá glugganum til að virða hann fyrir mér án gerefta, og svo þegar ég var búinn gekk ég aftur aðeins frá glugganum til að sjá muninn. Þetta geri ég til að gleðjast yfir vel unnu verki. Það kostar ekkert að gleðjast yfir því sem verið er að gera og er gott fyrir sálarlífið. Sama gerði ég líka við næsta glugga en svo verða ekki fleiri gluggar gereftaðir fyrr en á morgun. Þá vona ég að ég geti glaðst yfir nokkrum gluggum. Annars förum við inn í Marieberg á morgun, meðal annars til að kaupa efni í sólbekkina. Þá verður enn ein breytingin þegar þeir koma. Svona er lífið; fullt af skemmtilegheitum að gleðjast yfir. Það er nú ein af dyggðunum að vera ekki fúll við verkin sín.


Ég má til með að sýna þverskurð af gerefti. Hér kalla menn þetta antikgerefti og svona nota þeir sem eru "snobbaðir". :) Það eru antikhurðir hjá okkur og þá verður líka að fylgja þeim eftir með gereftunum. Þau eru all nokkuð dýrari en þegar við gerum svo mikið sjálf, ja, því ekki að kosta svolitlu til.


Einhver gerði grín að mér fyrir að vera að slípa eftir grunnmálninguna, en með því að slípa milli umferða verður bara meira gaman að þessu eftir á þó að ég, í hreinskilni sagt, njóti þess ekki beinlínis að slípa meðan það stendur yfir. Þá er bara að hugsa um eitthvað skemmtilegt á meðan. Svona skítavinnu verður að framkvæma úti þó að hiti sé um frostmark.


Svo lagði ég nýja herbergið undir mig og lagði plast á allt sem þarf að fara vel með. Það er gaman að mála og enn meira gaman þegar slípað er á milli umferða. Það má sjá að það ægir mörgu saman þarna inni í nýja herberginu okkar eins og stendur. Það er til dæmis örbylgjuofn upp á rúminu og þessi örbylgjuofn er á lausu ef einhver nennir að koma og sækja hann.

Svo las ég um það í íslenskum fréttum í dag að gert væri ráð fyrir að um 30 % íbúðarhúsa á íslandi séu mygluð, bara rétt eins og í nágrannalöndunum sagði einnig í fréttinni. Þess vegna birti ég hér myndir sem ég birti líka í haust.


Svona loftræsting er til að forðast myglu í þaki sem er einangrað upp á milli sperra. Eitt gat upp við mæni á hverju sperrubili og svo er látið rifa á milli niður við þakfótinn. Pottþétt aðferð.


Þessir ventlar sem eru svo settir yfir götin heita myglustopp og nafnið er engin tilviljun. Nú andar þakið og andrúmsloftið í húsinu verður dásamlegt eins og það er á Sólvöllum.

Því ekki að kosta svolitlu til sagði ég áðan. En ef ég ber hurðirnar okkar á Sólvöllum saman við lökkuðu eikarhurðirnar sem eru í íbúðum á Íslandi, þá fölna nú flottheitin okkar. Nú er ég búinn að segja ýtarlega frá miklu en eitt verður leyndarmál okkar Valdísar. Hvað skyldi það nú vera? Jú, góði kvöldmaturinn sem Valdís bar fram meðan ég endaði við gerefti á glugga númer tvö, það er okkar leyndarmál í dag. Ég á að vera upp úr því vaxinn að bulla um hvað sem er -eða hvað?


Kommentarer
Anonym

Það er kraftur í honum mági mínum.

2012-01-07 @ 00:22:03


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0