Stig Helmer

Blað er brotið í sögu síðustu sex ára okkar Valdísar. Við fórum í bíó. Það er alveg að verða eitt ár síðan við keyptum núverandi bíl okkar og þessum bíl fylgdi eitt og annað. Tryggingin var frí fyrsta árið, enginn skattur í fimm ár, við fengum með honum i-Pad, málband  og tvo bíómiða. Þetta fengum við vegna þess að við keyptum bílinn svo fljótt eftir að þessi bíltýpa kom á markað og eiginlega var það svo að við bara biðum eftir að hann kæmi.

Á miðnætti komandi hefðu bíómiðarnir runnið út. Þess vegna vorum við í bíó einmitt í dag. Við sáum myndina Saga Stígs Helmers. Stíg Helmer er kvikmyndapersóna í mörgum myndum sem hafa gengið í fjölda ára. Stíg er maður bláeygur og virðist kannski svolítið einfaldur en þó er hann eiginlega aldrei plataður til óbóta. Svo hefur hann þann góða eiginleika að hitta fallegar konur sem dá þessa eiginleika hans og myndunum lýkur gjarnan á því að Stíg kyssir þessar konur á sinn sakleysislega hátt og svo virðast þær bara vera konurnar hans -alsælar. Það rennur aldrei blóð eða mannvonska í myndum Stígs Helmers.

Myndin í dag gekk út á það að Stíg hitti fallega stúlku á unglingsárum og þau urðu ástfangin. Þeim var síðan stíað sundur af foreldrum og fleirum sem komu við sögu. Fjörutíu og níu árum siðar, þegar Stíg er maður kominn á efri ár og farinn að taka lífinu með ró, tekur hann og norski vinur hans sem alltaf fylgir honum gegnum myndirnar að leita að þessari konu. Norski vinurinn finnur hana að lokum og stefnir til fundar með þeim á veitignahúsi án þess að Stíg viti. Svo verða fagnaðarfundir og myndin endar ekki óvænt þar sem Stíg kyssir þessa gömlu kærustu sína á kinnina og svo er ekki annað að skilja en lífið blasi við þeim. Hvað eru nokkur ár á milli vina?

Já, svona var myndin sem við Valdís fórum að horfa á, einn af stærri menningarviðburðum hjá okkur á þessu ári, og okkur fannst það hin besta tilbreyting í erli daganna. Mér finnst hálfpartinn að við Stíg eigum nokkuð sameiginlegt og það er þessi einfeldni. Ég tel mig ekki líða skaða af henni frekar en Stíg. Í myndinni kunni Stíg utanað allar járnbrautaráætlanir í Svíþjóð þar sem ég kann ekki eina einustu. Með þessa sakleysismynd í huga ætla ég að leggja mig snemma og verða vel úthvíldur snemma að morgni. Draumar mínir munu ekki verða mér erfiðir í nótt.

Sýnishorn úr mynd dagsins


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0