Tímamót á ný

Eftirfarandi birti ég á tímamótadegi í janúar í fyrra. Ég birti það aftur nú af sama tilefni, lítið breytt en aðlagað að janúar á nýju ári.


Þann 17. janúar 2012 voru 21 ár síðan Kuwaitstríðið byrjade, sama dag byrjaði gos í Heklu og hún tengdamóðir mín varð 82 ára. Og að lokum -Ólafur Noregskonungur dó. Það var líka þennan dag sem ég vaknaði á Hótel Sögu og byrjaði daginn á því að fá mér koniak. Um tveimur tímum síðar brustu síðustu máttarstoðir lífs míns, bikarinn var fullur og það rann yfir barmana. Með grátstafinn í kverkunum hringdi ég inn á Vog og sagðist hafa gefist upp. Léttirinn var ólýsanlegur.

Þennan dag komu í heimsókn til mín á Sögu þær Rósa dóttir mín og Svandís Svavarsdóttir. Þær komu til að sýna mér samkennd og gleðjast með mér yfir löngu tímabærri ákvörðun. Það dró líka úr skömminni sem er rótgróin í lífi alkohólistans. Þessi heimsókn var afgerandi því að með henni fékk ég mikilvæga staðfestingu á því að ég væri að gera alveg hárrétt og þó að ég væri viss um að svo væri, þá þurfti ég að verða ennþá vissari. Einum eða tveimur dögum seinna fór ég til Vestmannaeyja þar sem ég fékk að dvelja hjá Valgerði dóttur minni og fjölskyldu þangað til ég fékk að komast inn á Vog. Ég þorði ekki heim þar sem ég var hræddur um að ef ég næði úr mér timburmönnunum og færi að vinna, að ég tæki þá til baka mikilvægustu ákvörðun lífs míns. Það mátti bara ekki ske.

Í Vestmannaeyjum sat ég gjarnan við norðurgluggann á daginn meðan ég var einn heima, horfði á eldana í Heklu í fjarlægð og velti fyrir mér örlögum lífs míns. 25. janúar flaug ég með lítilli flugvél frá Eyjum og fór beint frá Reykjavíkurflugvelli inn á Vog ásamt AA manni í Reykjavík og Rósu dóttur minni. Við biðum nokkra stund í rúmgóðu andyrrinu þangað til hjúkrunarfræðingur kom og tók á móti mér. Ég var mikið hugsi, hræddur og leiður. Fram í andyrrið heyrðist kliður frá þeim innrituðu. Ég horfði mikið á þröskuldinn sem ég vissi að ég mundi bráðlega ganga yfir og hugsaði: Þegar ég stíg yfir þennan þröskuld geng ég yfir landamærin til nýja óþekkta landsins sem ég þrái svo mikið og hafði lengi þráð.

Á náttborðinu mínu lá í janúar í fyrra sænsk bók sem ég leit í flest kvöld og hún heitir á íslensku Lyklar hjartans. Bókmerkið sem ég notaði í þessa bók er mynd af mér tekin nokkrum árum áður en ég gekk yfir þröskuldinn til móts við nýja landið. Flest kvöld sem ég leit í þessa bók leit ég einnig á myndina og mig rak eiginlega í rogastans og ég hugsaði: Hvar er hann staddur þessi maður, hver er hann, hvað leynist bakvið þetta tekna, raunalega andlit og þessi líflausu augu? Myndin var tekin á þeim árum sem ég á mörgum erfiðum dögum huggaði mig við það að sólin mundi samt koma upp á morgun líka, hvernig sem allt gengi í dag, og ég mundi þrátt fyrir allt lifa af til að vera með um það.

Dvölin í fimm og hálfa viku hjá SÁÁ var mikið sorgartímabil. Hver verður ekki sorgmæddur sem áttar sig á því upp úr miðjum aldri að honum hafi mistekist að lifa lífinu sem honum var gefið og ekki heldur tekist að nýta þá hæfileika sem fylgdu gjöfinni? Nýja landið reyndist gott land -nýtt líf. En það tekur tíma í þessu sambandi að verða fullorðinn maður upp úr miðjum aldri en mér tókst alla vega að verða fullorðnari. Stall af stalli, heiðarbrún af heiðarbún hélt ég áfram móti markmiðinu og víðsýnið jókst við hverja bungu sem ég hafði að baki. Ég er ennþá á þessari leið og vona að mér takist að halda því áfram til míns síðasta dags. Þegar ég staldra við í dag og lít yfir leiðina sem ég hef að baki er útsýnið bjart og gott. Maðurinn á myndinni á bókmerkinu hefur fengið nýja ásýnd og hann má aldrei, aldrei byrja að þræða slóðina til baka.

Á mörgum sumarmorgnum þegar sólin kemur upp í austri hríslast hún fagurlega gegnum skóginn utan við gluggann sem ég sit við á þessu augnabliki sem ég er að skrifa. Ég hef janúarkvöldið handan við gluggarúðuna. Ég er hættur að sækja traust í það að sólin muni koma upp á morgun líka hvernig sem á stendur. Ég get hins vegar dáðst að fegurðinni þessa sumarmorgna og notið þess að vera til, og ég get skynjað í vetrarmyrkrinu að ljósið finnist þar líka þrátt fyrir allt. Meira að segja þó að ég sé orðinn sextíu og níu ára get ég óskað mér þess á kvöldin að nóttin líði fljótt því að það verði svo gaman á morgun. Á þann hátt get ég séð ljós í myrkrinu og þá er myrkrið alls ekki svart.

Frammi í stofu situr konan sem hefur fylgt mér í fimmtíu og eitt ár. Hún er annars vegar að sauma í dúk og hins vegar að fylgjast með sjónvarpinu. Haustið 1993 var ég upphringdur af manni sem vissi að ég væri að leita að vinnu og hann gekk beint til verks og spurði: Guðjón, geturðu hugsað þér að flytja til Svíþjóðar og vinna þar? Ég leit á snöggt á konuna mína og sagði að maðurinn hefði spurt hvort við vildum flytja til Svíþjóðar til að vinna. Ég varð yfir mig undrandi en hugsaði ekki "nei". Ég sá á viðbrögðum hennar að hún hugsaði heldur ekki "nei". Það var ekki svo algengt að svona tilboð bara dyttu niður úr loftinu, og fyrir fólk sem var að verða fimmtíu og tveggja ára eins og við vorum þá, var það ennþá óalgengara. Og það var alveg öruggt að við mundum aldrei fá svona tilboð oftar. Það var útilokað að neita þessu.

Landið nýja kom í tvennum skilningi, í myndmálinu og í raunveruleikanum. Við erum stödd í öðru landi sem er aukavinningur fyrir að hafa gefist upp fyrir ofuraflinu fyrir tuttugu og einu ári, voga að taka góða ákvörðun og framkvæmd hana.

Guð, gefðu mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því
sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.


Kommentarer
Þórlaug

Sæll Guðjón.



Þið gerðuð rétt á þessum tíma að flytja til Svíþjóðar. Þið eruð líka svo heppin að Rósa og Pétur búa þar með litla gullmolann ykkar hann nafna þinn. Auðvitað eruð þið langt frá Valgerði og hennar fjölskyldu en......

Af eigin reynslu veit ég að það er erfitt að rífa sig upp og byrja upp á nýtt en það gefur manni alltaf eitthvað til baka og eykur víðsýni og bætir í reynslubankann.



Bestu kveðjur til ykkar beggja. Ég var farin að sakna blogganna þinna, mér fannst svo langt frá því síðasta.



Þórlaug

2012-01-25 @ 11:48:37
Guðjón

Sæl Þórlaug



Þakka þér fyrir þennan kommentar. Ég verð nú eiginlega að blogga um þetta, flutninginn til Svíþjóðar, og er ég þó búinn að gera það tvisvar áður held ég. En það koma alltaf ný sjónarmið og raunveruleikar inn í málið eftir því sem árin líða.



Þó skrýtið sé frá að segja var ellilífeyrisþeginn ég svo upptekinn við heimavinnu að ég hreinlega gaf mér ekki tíma til að blogga um skeið.



Með bestu kveðju til ykkar hjóna frá Valdísi og Guðjóni

2012-01-25 @ 23:28:16
URL: http://gudjon.blogg.se/
Auja

Virkilega vel sagt frá,góður penni Guðjón! Hlökkum til að "koma heim" og hitta ykkur um mánaðarmótin

2012-01-27 @ 14:14:41
Guðjón

Og það verður svo gaman að hitta ykkur og velkomin eru þið. Þið þekkið ekki Sólvelli lengur utan það að Þórir ratar um skóginn.

2012-01-27 @ 16:17:19
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0