Þar liggja mörkin skaltu vita

Það er merkilegt hvað ég er búinn að sofa gríðarlega mikið síðan ég hætti að vinna. Í morgun var ég þó heldur frárri á fætur og dreif af eina límingu þar sem ég er að smíða sólbekki. Svo var morgunverður. Þar sem ég er nú á þessum góða aldri sem ég tel mig vera, vil ég taka því rólega á morgnana og þá á ég ekki bara við að ég megi sofa alveg endalaust. Ég vil taka tvo tíma í morgunverð, lesa svolítið blöð, alla vega fyrirsagnir, setjast í góðan stól og teygja svo úr mér, já bara almennt að hafa það huggulegt.

Svo hef ég verið að uppgötva eitt um mig upp á síðkastið. Ég er orðinn meiri síðdegismaður en ég var áður. Ég var að tala um þetta við Valdísi í dag og talaði um að skýringin væri kannski sú að ég hef unnið mikið kvöld í Vornesi allra síðustu árin og þar með fært til þann tíma dagsins sem ég einbeiti mér mest. Já, Valdís féllst nú á að þetta gæti væntanlega staðist. Annars ætla ég ekki að eyða miklum tíma í að grafa í þetta. Það þjáir mig alls ekki, heldur finnst mér þessir morgnar afar notalegir.

Í gær fórum við Valdís inn í Örebro. Hún var eftir í Marieberg til að búðarrölta svolítið en ég fór i byggingarvöruverslunina þar sem við erum í stórum dráttum búin að kaupa efni í eitt einbýlishús. Ég var með blað með ótal málum af áfellum á þrjár dyr og sólbekki undir þrettán glugga. Ég spurði hvort þeir vildu hjálpa mér með að saga þetta í grófum dráttum þar sem sögin mín væri með of litlu borði til að ráða við það. Já, það var nú ekki málið. Svo sögðuðu þeir þrjár plötur í 23 renninga af ólíkum breiddum og þeir gerðu þetta með svo góðu geði og án kostnaðar að ég varð næstum klökkur þegar ég sagði þeim að það væri alveg frábært að leita til þeirra. Það væri þess vegna sem ég kæmi alltaf þangað á endanum. Nú get ég fínsniðið þessa renninga á söginni okkar.

Mér datt í hug um helgina að láta gera þetta í annarri verslun en þetta var eiginlega of mikið til að ég teldi að ég fengi sömu hjálpsemi þar. Það er líka svo að þegar ég er vanur að fá alltaf góðar móttökur á einum stað, þá finnst mér það vera svolítið að halda framhjá að leita annað. Það sama var þegar ég hætti að hitta Carl-Henrik á Volvóbílasölunni og fór að hitta Nicklas hjá Ford að mér fannst ég vera að halda framhjá Carl-Henrik. Það fór nú samt fljótt af og auðvitað man Carl-Henrik ekki hið minnsta eftir að ég hafi einhvern tíma komið þangað. Þó veit ég að hann mundi þekkja mig ef ég kæmi þangað á morgun.

Annars veit ég ekki hvers vegna í ósköpunum ég er að tala um þetta. Eftir heimkomuna í gær með efnið byrjaði ég að smíða sólbekki og ákveðin líming var það fyrsta sem ég gerði í morgun. Svo seftir hafragrautinn minn með rúsínunum tók ég smá hlé og fékk mér svo einhverja hveitibollu með osti. Þar með var eins og ég hefði fengið eitthvað þungt í magann, nokkuð sem bara hélt sig þar og gerði mér erfitt fyrir. Ég reyndi samt að láta það ekki á mig fá og hélt mínu striki. Svo eftir kvöldmatinn gekk ég að krananum og fékk mér þrjú glös af vatni og í þessu vatni leyndist nýtt líf.

Það er einkennilegt með mann á mínum aldri sem ráðlegg öðrum að drekka vatn við vanlíðan og svo plata ég sjálfan mig á sama fyrirbæri. Það er ekki ósjaldan þegar ég hef verið að vinna kvöld að fólk hefur komið til mín og sagt að það sé svo undarlegt, að hjartað slái svo einkennilega, að það sé svo skrýtið í brjóstholinu eða eitthvað þvíumlíkt sem erfitt er að lýsa. Þá verð ég mjög spakur og tala eins og vís maður og segi: Taktu þetta glas og farðu svo að krananum og drekktu þrjú glös af vatni. Svo skulum við tala saman. Aumingjans manneskjan gerir þetta, horfir á mig sem skrýtinn Íslending og setst að lokum fyrir framan mig eftir vatnsdrykkjuna. Svo tölum við um börnin þeirra, systkinin, fallega landið sem við búum í eða eitthvað sem drifir huganum. Eftir einar 20 mínútur hefur manneskjan fengið lífskraftinn á ný. En hvað það er gaman að þessu og svo renn ég á hálkunni sjáfur og skil ekki neitt. Jú, reyndar gerið ég það oftast nær.

Það er orðið áliðið eftir einn dag með líma, mæla, saga, hefla, pússa og máta. Það er svo gaman að máta því að þá sjáum við hvað það verður mikil breyting. Valdís tók sig til og hnoðaði í soðiðbrauð og steikti. Eitthvað var soðiðbrauðsgerð til umræðu um daginn á blogginu og er það kannski svo að þetta þekkist bara á Norðurlandi? En alla vega, soðiðbrauð er ósætt brauð, þunnt, tekur ekki svo mikið pláss í maga og er mjög gott með osti sem viðbót við morgunverð eða með síðdegiskaffinu. Auðvitað má smyrja með fleiru en osti og það má meira að segja nota á það sultu. En þá tístir hláturinn í baðvigtinni og hún vonast til að komast yfir 100 kg strikið. En það skal ég ekki láta eftir henni, þar liggja mörkin!


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0