Lýsandi stjarna í norðri

Í gær nefndi ég ferð upp í Dali árið 1996. Í dag var svo endursýnd sjónvarpsmessa frá Falun, bæ sem er jú í sænsku Dölunum þar sem við Valdís bjuggum í eitt og hálft ár. Eitt og hálft ár þar á undan bjuggum við í Svärdsjö (Sverdsjö) sem er eina 27 km norðnorðaustan við Falun. Svärdsjö er lítill indæll bær með um 1300 íbúa en Falun hefur hins vegar um 37000 íbúa. Falun og Svärdsjö tilheyra sama sveitarfélagi. Við Valdís vorum orðin vel kunnug Falun innan við fluttum þangað.

En svo þetta með messuna. Þegar við heyrðum Dalamálið sem fólkið í messunni talaði, þá var því ekki að neita að Dalirnir og Falun urðu afar nærri í stofunni hér heima. Þessi mállýska dró okkur, ég held okkur bæði, langleiðina upp í Falun. Falun var mér kær bær sem ég vildi aldrei yfirgefa. Ég vissi að útsýnið frá stofuglugganum okkar þar uppfrá var útsýni sem við fengjum aldrei aftur séð frá stofuglugganum okkar. Stöðuvatnið Runn með öllum sínum skógi vöxnu eyjum og annesjum, já, svoleiðis lagað finnst ekki hvar sem er í jarðríki. Það er fallegt útsýni á Sólvöllum, mjög falleg, en frá stofuglugganum okkar í Falun -ég fyllist bara helgidómi við að skrifa þetta.

Falun hafði líka þann stórkostlega eiginleika að þó að ég væri einhvers staðar einn á ferð þar fannst mér sem ég væri aldrei einn. Koparnáman í Falun er eitt ótrúlegt fyrirbæri. Vitað er að alla vega fyrir árið 900 var þegar farið að vinna kopar í þessari námu, jafnvel kringum árið 700. Fólkið þarna uppi er sérstakt. Um viðkvæmari mál segir það kannski ekki svo mikið en ef Dalafólkið lofar einhverju verður það loforð ekki svikið. Það sleit í hjartað í mér að þurfa að yfirgefa Falun. Ef ég segi alveg eins og er, þá hvarflaði stundum að mér að ég vildi ekki fá vinnu ef ekki upp í Dölum.

En svo var mér boðin vinna í Vornesi og atvinnuleysistryggingar stungu ávísun í umslag og fulltrúinn minn þar sagði að ef ég tæki þessari vinnu væri ávísunin mín. Hún mundi bara geyma hana þangað til hún vissi hvað ég gerði. Ef við vildum flytja nær þessari vinnu mundu tryggingarnar líka borga flutninginn. Svo fór ég að vinna í Vornesi og nokkru síðar fékk ég umslagið frá atvinnuleysistryggingunum og í því var ávísun að jafnvirði 100 000 kr íslenskar á þeim tíma. Það var góð upphæð. Ári síðar fluttum við til Örebro til að búa nær Vornesi og þá sendu atvinuleysistryggingarnar tvo menn á vörubíl til að flytja búslóðina til Örebro og við borguðum ekki krónu. En þrátt fyrir allt hélt Falun áfram að vera sem lýsandi stjarna í norðri og ljós þessarar stjörnu er gott ljós enn í dag.

Hún Susanna Hentze, þessi indæli vinnufélagi í Svartnesi í Dölunum, býr núna í íbúð sem er hinu megin við vegginn að íbúðinni sem við Valdís bjuggum í. Hefðum við búið áfram í þeirri íbúð gætum við hellt kaffi í bollan hjá henni Súsönnu bara svona yfir handriðið. Magnað ekki satt. Við erum alltaf velkomin til Súsönnu til að rifja upp minningar frá Falun og til að halda við sársaukanum eftir flutninginn þaðan. :)

Um tíma var ég draghaltur á tímabilinu sem við bjuggum í Falun. Eitt sinn þegar ég var á gönguferð varð ég svo slæmur að ég velti fyrir mér hvernig ég kæmist heim. Ég hallaði mér upp að tré til að hvíla mig. Ung kona sem gekk hjá stopaði og horfði á mig en ég sagði henni að það væri í lagi með mig. Svo kom maður og ég sagði honum áður en hann stoppaði að þetta væri í lagi. Þetta var Dalafólkið. Ég var þá kominn langleiðina heim og komst þangað að lokum. Þetta setti engan skugga á minningar mínar um stjörnuna í norðri.

Ég gæti skrifað mikið meira um þetta en læt þetta nægja en að lokum þetta: Ég kom upphaflega með lest til Falun um miðjan febrúar 1994, hræddur en ákveðinn í að gefa mig ekki. Þetta var einkennileg reynsla. Mér fannst sem ég væri kunnugur þarna. Runni og Bjarni Steingrímsson tóku á móti mér á járnbrautarstöðinni í Falun og eftir kaffi heima hjá þeim fóru þeir með mig upp í Svartnes. Einnig í Svartnesi fannst mér sem ég væri kunnugur þar. Og ég sem hafði gælt svo mikið og lengi við að koma upp skógi var nú mitt inn í skóginum. Ég get lofað ykkur öllum að upp í Dölum eru víðáttumiklir skógar.

Hér með ætla ég að fara fram til Valdísar og vera kannski svolítið skemmtilegur.


Þessi mynd er frá koparnámunni í Falun. Þessi yfirborðsmynd sem sýnir jú gríðarlegan gíg er aðeins brot af námunni, það mesta er neðanjarðar.

Þessi mynd er tekin frá vefmyndavél og sýnir fáeinar af þessum eyjum sem ég talaði um í blogginu. Ég hefði viljað finna betri mynd en ef ég ætla að taka tíma í það verð ég ekki skemmtilegur við Valdísi í kvöld.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0