Ég slapp

Mikið var gott að vera kominn heim frá vinnunni í dag. Klukkan var á þriðja tímanum þegar ég burstaði snjóinn af bílnum og lagði af stað heim. Það var öðru vísi að þessu sinni -og hvers vegna? Jú, vinnutímabili sem ég var ögn smeikur við var á enda. Nú sit ég hér við tölvuna og veit að ég get sofið hversu lengi sem ég vil í fyrramálið og þegar ég fer á fætur á morgun þarf ég ekki að hugsa um að það sé vinna aftur hinn daginn eða svo. Ja -þvílíkur munaður! Ég sagði í bloggi þann 29. ágúst: "Ég get það -en ég er ekki gríðarlega spenntur yfir því að gera það -en ég ætla samt að vinna næstum fulla vinnu síðustu fjóra mánuði ársins."

Og ég gerði það. Nú á nýársdag er þetta timabil liðið. Það var ýmislegt við þetta sem dró úr mér og gerði mig hikandi við ákvarðanatökuna. Ég segi stundum að ég finni mig ekki ári eldri en 35 ára, en þrátt fyrir það "veit" ég að það stenst ekki. Frá 1. september þegar þetta tímabil byrjaði og næstum því þangað til því lauk lagðist skammdegið yfir með einhverra mínútna hraða dag hvern. Miðað við síðastliðna tvo vetur gat ég reiknað með töluverðri ófærð og hálku. Á þessu tímabili er líka veiðitímabilið sem veldur því að elgir, dádýr og villisvín eru á mikilli hreyfingu. Ég gat stillt möguleikunum upp móti þeirri áhættu sem það hefur í för með sér að aka 80 km til og frá vinnu á sjötugasta aldursári. Það er engin tilviljun að Svíar segja mjög oft þegar lagt er í ferðalag; aktu varlega.

Það var í byrjun 1996 sem ég byrjaði að vinna fulla vinnu í Vornesi. Fyrsta árið bjuggum við í Falun og ég fór á milli um helgar, um  240 km leið. Það voru talsverðir kuldar þennan vetur. Eitt sinn þegar ég var að leggja af stað heim sagði hann Hans þáverandi vinnufélagi við mig að ég skyldi nú fara virkilega varlega þar sem fréttir hefðu verið sagðar í útvarpi um að mjög hált væri á vegum í Dölunum. Einnig að þar hefðu orðið alvarleg umferðarslys, meðal annars banaslys. Það var þegar ég lagði af stað í þetta skipti sem ég hugsaði um það í fullri alvöru að það væri alls ekki hættulaust að sækja vinnu langar leiðir.

Þegar ég nálgaðist suðurhluta Dalanna, á frekar mjóum vegi, mætti ég nokkrum vörubílum í röð og allir voru þeir með langa aftanívagna. Vegurinn var allur ísi lagður og ísagnir þeyttust undan þessari vörubílalest og lentu á framrúðunni hjá mér. Ég þorði ekki einu sinni að rétta fram fingurna til að setja rúðuþurrkurnar á vegna þess að ég var svo upptekinn við að halda mig á veginum, að halda jöfnum hraða og reyna að sjá hvítu strikin hægra megin á veginum. Þetta var nú sú ferðin sem reyndi mest á mig það árið.

Eitt sinn sátum við saman ég og hann Håkan, líka þáverandi vinnufélagi minn. Við töluðum einmitt um dýr á vegunum, þetta sem ég nefndi áðan. Hann sagðist hafa lent í því að keyra á nokkur dádýr og hann sagði ennfremur að enginn sem æki mikið kæmist undan því að keyra á dýr einhvern tíma á ævinni. Ég man svo vel að ég hugsaði þá að ég mundi ekki vilja lenda í því. En málið er bara það að þessi dýr eru allt í einu þarna við annað hvort framhornið á bílnum, hversu vel sem maður reynir að taka eftir þeim, og svo er um tvennt að ræða; það skeður eða skeður ekki. Þau hafa nokkrum sinnum verið við annað hvort framhornið hjá mér en ég hef alltaf sloppið.

Það voru margar svona pælingar sem ég gekk í gegnum áður en ég tók mína ákvörðun nú síðsumars. "Þú verður að ráða" sagði Valdís "en við verðum meira leið á hvort öðru ef þú verður alltaf heima" sagði hún ennfremur. Þyki hverjum það sem þykja vill en ég er líka sammála þessu. Ég sagði líka í blogginu mínu þann 29. ágúst: Ef ég vinn þessa fjóra mánuði get ég kannski stuðlað að því að "barn fái heim pabba eða mömmu, að kona fái heim manninn sinn, eða maður konuna sína". Svo var þessi vinna auðvitað góð fyrir fjárhag okkar eftir að hafa breytt Sólvöllum úr einföldum sumarbúatað í nútíma einbýlishús.

Og nú á nýársdag er þessu lokið. Það lætur kannski einkennilega að lesa það en mér finnst ég hafa verið betur í stakk búinn til þessarar vinnu á þessu tímabili en nokkru sinni fyrr. Ég hef oft verið þreyttur en ánægður með sjálfan mig. Ég hef verið of mikið að heiman miðað við aldur og það hefur verið gott að koma heim. Ég endurtek að það var alveg sérstaklega gott að koma heim í dag. Allar ferðir gengu slysalaust og það er mikill léttir. Ég slapp!

Ég hef hitt margt athyglisvert fólk og það virðast margir vera þakklátir yfir að hafa hitt mig. Ég reyndar veit það. Þegar ég ólst upp var sveitin mín afskekkt. Svo hitti ég hér fólk úr stærri borgum og bæjum, fólk sem gæti verið barnabörnin mín, og það fer vel á með okkur. Ég hitti læknirinn og rektorinn, kaupmanninn og listamanninn og það fer vel á með okkur. Ég er á því sviði ríkari en ég var áður. Það voru löng hlé á vinnu minni næstu fjörgur árin á undan og ég er viss um að það gerði að verkum að ég var betur í stakk búinn að vera í fullri vinnu núna en ég hef verið áður. Gömul reynsla hefur fengið tíma til að setjast að í mér og gera mig hæfari til starfsins.

Ég verð örugglega aldrei beðinn að vinna svona aftur en það er vel mögulegt að ég verði beðinn að vinna eitthvað. Að vinna svo sem fjóra eða sex daga í mánuði enn um sinn væri allt önnur saga. Ef maður á mínum aldri getur gert gagn er það bara af því góða. Svo getum við Valdís tekið marga stundina þar á milli og gert góða hluti. Við töluðum um það síðast í gær að við þyrftum að fara að koma okkur í kynni við eitthvað af félögum ellilífeyrisþega.

Áð á útiveitingastað í Stokkhólmi síðastliðið sumar þegar Valgerður var í heimsókn.



Konan sem hefur verið gift mér í 50 ár


Leitaðu félagi,
við veginn,
leitaðu langt handan við stjörnublikið.
En mundu að takmarkið sem þú leitar,
finnst einfaldlega innra með sjálfum þér.
JW


Kommentarer
Þórlaug

Takk fyrir þetta blogg Guðjón og þessar fínu myndir af ykkur.

Til hamingju með að vera kominn heim til Valdísar heilu og höldnu, ég veit að hún er fegin að þú ert hættur að vinna svona mikið.



Bestu kveðjur til Valdísar,



Þórlaug

2012-01-01 @ 23:42:33
Guðjón

Takk Þórlaug, fín orð, og þú hefur rétt fyrir þér varðandi Valdísi.



Kveðja til ykkar beggja frá Valdísi og Guðjóni

2012-01-02 @ 00:00:51
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0