Helgin 12. og 13. maí 2012

Þegar ég ók til Vornes skömmu fyrir hádegi í gær til að vinna fannst mér sem ég væri að gera einhverja vitleysu. Þá hafði ég ekki verið þar í sjö vikur og mér fannst sem ég væri alveg dottinn út úr öllu sem þar er gert. Þegar ég kom á staðinn losnaði ég ekki við þessa tilfinningu alveg strax og eiginlega ekki fyrr en ég sat grúppu með ellefu manns klukkan hálf fjögur. Þá var mér ljóst að ég hafði ekkert breytst og allt virkaði eins og best gerðist áður. Þegar ég svo vaknaði klukkan rúmlega fimm í morgun eftir rúmlega fimm stunda svefn fékk ég á tilfinninguna að nú fjallaði það bara um að þrauka fram að hádegi þegar ég yrði leystur af af manninum sem ég leysti af í gær.

Svo fór ég á stjá til að opna hurðir hingað og þangað og veðrið var eins og það getur fallegast orðið snemmsumars í þessu landi. Ég mætti einum og öðrum sjúklingi hingað og þangað á þessari hringferð minni og ég var samstundis búinn að gleyma því sem mér datt í hug fyrr um morguninn, þessu með að þrauka. Klukkan ellefu var allri grúppustarfssemi lokið og mér fannst sem ég hefði verið að upplifa minn besta dag í Vornesi í þau rúmlega 16 ár sem ég hef verið heitbundinn þeim stað. Þegar ég fæ á tilfinninguna að stór meirihluti, eða flestir sjúklinganna séu að gera sitt allra besta til að ná nýjum tökum á lífi sínu, þá smitast ég af einhverju sem erfitt er að lýsa. Ég veit líka að heima bíður fjöldi barna, eiginmenn og eiginkonur, foreldrar og systkini, vinir, vinnufélagar og verkstjórar, sem eiga þá ósk heitasta að fá heim manneskjuna sem varð fórnarlamb alkohólismans, fá hana heim sem nýja manneskju og heilbrigðari en jafnvel nokkru sinni fyrr. Þetta gengur oft eftir og það verður bara að viðurkennast að það er stórkostlegt að taka þátt í því.


*


Seinni partinn í gær hringdi ég heim og Valdís hafði fréttir að færa. Hún hafði brugðið sér út, tekið sláttuvélina út úr geymslu og slegið á annað þúsund fermetra. Ja, hérnana hér! Ég heyrði vel á henni að hún var ánægð með framlag sitt til dagsins og ég gat bara dáðst að henni. Að halda svo heim á leið um hádegi í dag var frábært. Að geta fylgst með landinu klæðast sumrinu á allri þessari leið var auðvitað alveg stórkostlegt og ég hlakkaði til að koma heim, fá mér eitthvað með Valdísi og líta svo á framfarir vorsins heima. Ég reyndar fór mjög snögga ferði út í skóginn og umhverfis húsið áður en ég kom inn, hreinlega vegna þess að ég var svo forvitinn um hvernig gengi að ég gat ekki á mér setið.

Svo fórum við Valdís til Mullhyttan sem er eina 25 km til vesturs frá Sóvlöllum. Þar átti Hafðu það gott kórinn hennar Valdísar að syngja fyrir fjöldasöng, en það er í fyrsta skipti sem það er gert á þeim stað. Fjöldasöngur virðist vera bráð smitandi hér í landi þessi árin og nú hefur Mullhyttan orðið fyrir barðinu á smituninni. Ekki dreif fólkið beinlínis að til að taka þátt í söngnum, enda gæti ég trúað að margur hafi verið smá feiminn við að koma og syngja út á götu framan við hús áhugasamrar konu sem hratt þessu af stað. En kórinn hélt sínu striki, söng sín lög og svo héldum við Valdís heim á ný og dáðumst að grænkandi ökrum og laufríkum skógum.


*

 

Það sem fyrir augun bar þegar ég kom heim úr vinnunni var til dæmis þetta. Plómutré sem við gróðursettum í fyrra eftir að hérarnir átu það sem fyrir var, það ætlar að skila ávöxtum í ár. Þau eru falleg blómin á ávaxtatrjánum.

 

Hér er blómaklasi á gömlu plómutré sem er búið að skila okkur mörgum plómum, mörgum munnbitanum beint af trénu og enn eru til sultukrukkur niðurn í kjallara frá í fyrra. Þetta tré er orðið lúið og spurning hvort við verðum ekki að yngja það upp að vori.

 

Hér er eplatré frá í fyrra og það rembist eins og rjúpan við staurinn við að opna blómhnappana og vonandi tekst því. Það blómgast seinna en plómutrén.

 

En þessi gríslingur sem er afmælisgjöf frá Vornesi og gróðursett fyrir þremur vikum ætlar líka að bera blóm og kannski verða á því einhver epli þegar líður á sumar.

 

Þetta er ekki ávaxtatré, þetta er lítill heggur sem er að komast í fullan skrúða. Þegar við keyptum Sólvelli var hér einn heggur en hann hallaði svo mikið að hann var mikið fremur lýti en prýði. Hann var því felldur fyrir nokkrum árum en afkomendur hans eru margir og fá ekki allir að komast á legg. Klippurnar sjá fyrir því. Undir heggnum eru skógarsóleyjar sem nú eru á undanhaldi þar sem tími þeirra er að verða liðinn.

 

*

 

Svo er hér nokkuð af allt öðrum toga. Þetta er hluti af kórnum í Mullhyttan í dag og Valdís er þarna baka til fyrir miðri mynd. Hún segir að kórsöngur sé læknandi. Það fer ekki milli mála að meðlimir þessa kórs njóta þess að syngja og stóri maðurinn á bláu skyrtunni er eitthvað besta dæmið sem ég hef séð um það að söngurinn lyftir í hæðir. Það gekk ekki að ná mynd á réttu augnabliki, en andartaki eftir að ég tók myndina var þessi gríðarlega stóri og herðabreiði öldungur kominn upp á tærnar á öðrum fæti en hinum sveiflaði hann í takt við lagið, og handleggnum sveiflaði hann beint upp til að fylgja eftir lokatóninum í hressilegri sveiflu. Myndina tók ég á miðlungs góðan farsíma og eins og ég sagði, ég náði myndinni ekki á því augnabliki sem til stóð.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0