Samtíningur á sumardegi

Ég var að kíkja á tíu daga spána og hún er góð. Á þriðjudaginn kemur á að kólna og þann dag allan á að rigna og svo á að hlýna aftur. Það er nefnilega alveg nákvæmlega svona sem það á að vera, samspil jarðar og veðurfars. Það fer að verða þurrt hvað úr hverju. Víða hefur verið 28 og 29 stiga hiti í landinu í dag sagði veðurkonan í kvöldspá sjónvarpsins, og það er einmitt þannig sem það hefur verið hér í dag. Við bókstaflega veltum okkur upp úr góðaveðrinu þessa dagana og gróðurinn gerir það líka.

Í gær sagði ég að það hefði verið hægt að villast hérna skammt bakvið húsið þegar við komum fyrst til Sólvalla. Mér datt í hug að þetta liti ekki sennilega út og því leitaði ég uppi mynd sem getur útskýrt þetta. Þarna sjáum við stofn af eik sem er 15 metra á bakvið húsið og við hliðina á henni er stubbur frá birkitré. Hann var svo nálægt eikinni sem myndin sýnir. Ég man vel þegar ég fann þessa eik að það voru fleiri tré sem hrjáðu hana. Það var auðvitað bráðnauðsynlegt að grisja kringum eikina svo að henni færi að líða betur og henni fór að líða betur. Núna er hún líklega upp undir 15 metra glæsilegt tré. Við erum búin að framkvæma mikið af svona vinnu og hún hefur skilað miklum árangri. Þegar tré standa svona nálægt hvert öðru á stóru svæði er hægt að villast. Í gær tók ég mér sleggju í hönd og sló burtu fúinn birkibútinn og nú er fínt í kringum eikina.

Tími heggsins er liðinn og tími sírenunnar er tekin við. Það þýðir að vikan milli heggs og sírenu er líka liðin. Ég veit að margir íslendingar eru með sírenur þannig að þá veit fólk líka hversu ríkulega og notalega hún ilmar. Mér dettur oft í hug að það sé hægt að taka þennan ilm milli handa sér og bera hann inn. En þó að svo sé ekki er loftið kringum sírenurnar bókastaflega mettað af ilmi þeirra.

Já, það var ýmislegt sem ég talaði um í gær og í fyrradag. Meðal annars um hestkastaníuna sem Valdís sá að blómstraði í fyrsta skipðti á ævi sinni og það gladdi Valdísi mjög. Hún sem var búin að bíða eftir þessu eins og barn eftir jólapakka. Nú fór ég upp á stól í dag við hliðina á kastaníunni til að ná mynd af blómaklasanum. Þeir eru einir fimm svona að þessu sinni en ef kastanían verður gömul verða mörg hundruð eða þúsund klasar á henni.

Ég var við svolitla innivinnu í dag en þó sífellt að rása út og inn í góða veðrinu. Ég sat við skrifborð með blöð í hönd þegar ég heyrði sláttuvélina dregna í gang. Ekki gerir hún það að sjálfu sér þannig að það var ekki um marga að ræða. Valdís sá einhverja toppa á lóðinni og réðist á þá og snyrti. Hún var líka á söngæfingu í morgun og hún þvoði tvær vélar og hengdi út. Svo útbjó hún kvöldmat úr nautahakki þannig að ekki hefur hún setið auðum höndum. Mér fór að finnast sem ég væri ónytjungur. En hún er rösk þannig að hún hefur líka fengið sínar rólegu stundir og nýja hellulagða útuvistarsvæðið er gott svæði þar sem eftirsóknarvert er að vera. Hann staðfesti það líka gröfumaðurinn í gær.

Gæðum lífsins er misskipt. Meðan við Valdís biðum á biðstofu sjúkrahússins í gær fór ekki á milli mála að margir voru hljóðir, tveir voru skelfingu lostnir og ungur maður og unglingur grétu. Ég fylgdist með Valdísi og hún virtist í jafnvægi þó að ég sæi eftir að við komum heim að hún varð öll önnur þegar rannsóknum dagsins var lokið. Svo bauka ég allt mögulegt og finnst það gaman. Til dæmis að jafna undir gangstéttarhellur og raða þeim svo niður og líka að borða mat úti við borðið sem stendur á þessum hellum. Á milli vinnutarna í dag sat Valdís við þetta borð og það fannst mér líka gaman. Ég ætla ekki að fara að telja upp allt sem mér finnst gaman og stundum dettur mér í hug að ég sé einfeldningur að geta haft gaman af svo mörgum einföldum hlutum. Ég las hér um daginn að Norman Vincent Peale sem uppi var frá 1898 til 1993 hefði sagt eftirfrandi: "Hamingjan hlotnast þeim sem sér ævintýrin í hverdagslífinu; hefur barnshjarta og einfalda sál." Æi, ég bara vona að ég sé svona yndislegur einfeldningur.

Svo þegar þær Maria læknir og Valdís verða búnar að vinna að því að Valdís fái betri heilsu, þá verður verðmætamatið ennþá einfaldara og smáhlutirnir dýrmætari en nokkru sinni fyrr.

Að lokum aðeins meira um stéttina sem búin er að fylla margar línur í bloggunum mínum. Stokkhólmsfjölskyldan var mér til hjálpar og þarna sjáum við hluta af Rósu þar sem hún leikur víbrator og pressar sand. Eitthvað fannst víst Hannesi sandjöfnunin skrýtin hjá mér því hann greip til skóflunnar og hjálpaði afa sínum að greiða úr því.

Skófluna sem Hannes notar þarna átti áður Kristinn heitnn sonur okkar. Þessi skófla féll eitt sinn fyrir borð á Hríseyjarferjunni við bryggju á Árskógssdandi. Reyndar sökk hún sem gerði mig svolítið undrandi. All löngu síðar sáu ferjumenn hana og fiskuðu hana upp. Hún komst því aftur til skila sem okkur þótti talsvert undrunarefni og hún er tryggur förunautur okkar enn í dag.

Gaukurinn er nærstaddur og á þessu kvöldi heyri ég og hann segir sleitulaust o-ú. Líklega er hann einmana þessa stundina og vonast eftir að sæt kærasta leiti á hljóðið.


Kommentarer
Björkin.

Mikil er fegurðin á Sólvöllum mín kæru.

2012-05-25 @ 12:03:55


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0