Hann biðlaði sem aldrei fyrr

Gaukurinn sem biðlaði svo ákaft í gærkvöldi hefur varla fengið sína æðstu drauma uppfyllta í nótt því að í morgun var hann enn að biðla. Auðvitað heldur hann áfram meðan honum er ekki svarað þar sem enginn er til að halla sér upp að, enginn til að smákela með og enginn til að gleðjast með við sólaruppkomuna. Einhvern tíma fyrir hádegi hætti hann, en hvort hin heittelskaða kom vitum við ekki.

Hitinn var um 30 stig mestan hluta dagsins og það var logn. Þá var gott að fá heimsókn og setjast í skuggann og hafa það náðugt. Annelie kom í heimsókn. Annelie er besta vinkona Valdísar hér í landi ef skyldmenni og fjölskylda er frátalin og hefur svo verið síðan 1997. Hvað aldur áhrærir gæti hún verið dóttir okkar og væri þá sú næst elsta. Þær eru afskaplega tryggar hvor annarri þessar konur.

Við skruppum á heilsugæsluna í Fjugesta í dag og þá tók ég mynd af þessu beykitré sem er handan götunnar á móti heilsugæslunni. Myndin er ekki góð enda ekki besti tími dags til að taka myndir um hádegi á miklum sólskinsdegi. En hvað um það, undir þessu beykitré er botngróður mátulegur þar sem beyki hleypir ekki sólargeislunum niður á skógarbotninn. Laufblöðunum er raðað þannig upp að þau taka móti þeirri sól sem stendur til boða og skilja ekkert eftir handa þeim sem neðstir eru.

Þessi rapsakur sem næstum engan endi virðist hafa varð á vegi okkar og auðvitað tókum við mynd af honum fyrst við vorum líka í þeim erindagjörðum í dag. Af hverjum hektara rapsakurs fást einir 2500 lítrar af raps matarolíu sem einnig má nota í díslelolíu. Ekki veit ég hvort rapsolía er notuð á Íslandi en hún er alltaf til í ísskápnum á Sólvöllum. Sú er ekki notuð á bílinn.

Þetta tré var við veginn og auðvitað kom upp hugmyndin að svona tré þyrftum við að fá. Þetta er ekkert ávaxtatré en við vitum reyndar ekki hvað það heitir, en fallegt er það samt.

Þetta tré er nú bara hjá næst næsta nágranna. Í miðbænum í Fjugesta eru líka nokkur svona tré hlið við hlið og þau eru talsvert mikið stærri og afar falleg. Ég gekk þar að Lionsmanni sem var að selja hlutaveltumiða á litlu torgi og spurði hvað þessi tré hétu. Hann vissi það ekki betur en ég og þá varð ég ögn hissa. En svona er það. Hlutaveltuvinningurinn sem var í boði var bátur og ef maður er bátaáhugamaður, hvað ætli maður sé þá að velta blómstrandi trjám fyrir sér. Ég er með skógardellu og hef ekki hundsvit á bátum.



Það er svo best að enda þessa ferð út í skógi á Sólvöllum. Þarna var rót sem ég rak tærnar svo oft í að ég fór þangað með mold í gær til að hylja hana. Svo eftir heimkomuna í dag fór ég í stutta eftirlitsferð gegnum skóginn og þegar ég koma að þessari mold lá þar kopareðla og sólaði sig. Kopareðlur eiga ekkert skylt við slöngur og eru spakar og sauðmeinlausar. Það eru margir og ólíkir ábúar á skikanum okkar.

Að lokum er hér nokkuð til umhugsunar: "Sá sem er ánægður með sinn hlut er hamingjusamur þrátt fyrir fátækt, sá sem er óánægður harmar hlutskipti sitt, þótt ríkur sé." Svo segir kínverskt spakmæli og svona er það einfaldlega.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0