Heimsókn til Valdísar -og mín líka

Í gærmorgun þegar ég tók fyrstu umferðina um húsið til að kíkja út um gluggana til að sjá vorið á nýjum morgni sátu tveir ungir svartþrestir utan við gluggann þar sem Valdís situr með handavinnuna sína. Þeir bara sátu þarna og það var eins og þeir biðu eftir einhverju. Ég kallaði því til Valdísar og sagði henni að hún hefði fengið heimsókn. Hún kom og þegar hún hafði horft á þrastarungana í svo sem hálfa mínútu, þá virtist erindi þeirra lokið og þeir tríttluðu burt. Og talandi um þrastarungana, þá er það svo að Valdís talar oft við maríuerlurnar þegar hún er eitthvað að bardúsa úti. Svo trítla þær í kringum hana og plokka einhverja fæðu úr grassverðinum sem ekki sést með mannlegu auga. Í gærmorgun þegar við vorum að boðra morgunverð kom maríuerla að glugganum sem er yfir borðsendanum, stoppaði þar í loftinu með tíðu vængjataki eins og þyrla við björgunarstörf, og virtist horfa inn. Svo töluðu þær saman, Valdís og maríuerlan, og þegar þær voru búnar að ræða málið flaug hún til bús og barna.

En ég svo sem fæ mínar heimsóknir líka. Í fyrradag var ég á leiðinni til að vatna trjám og fór með garðkönnu yfir brú sem gerð er úr fjórum battingum. Þegar ég var á brúnni heyrði ég kunnuglegt hljóð nokkra metra frá mér. Það var allt í lagi þar sem það var í hæfilegri fjarlægð. En hvort var það snákur eða höggormur sem var þarna á ferð? Ég sá aldrei hausinn þegar hann hvarf í lyngið þannig að ég var ekki viss, en taldi þó að þetta væri snákur eftir litnum á afturhlutanum að dæma. Svo reyndi ég bara að trúa því að þetta hefði verið snákur því að það er þægilegra að hitta þá en höggorma. Síðan losaði ég könnuna og sótti aðra. Þegar ég var á sama stað, á sama enda á brúnni, með könnuna fulla af vatni, skrjáfaði aftur í lynginu og nú alveg við fæturna á mér. Þá bakkaði ég dálítið rösklega verð ég að viðurkenna. En það sem skeði var að vatn hafði gusast úr garðkönnunni og við það skrjáfaði í lynginu og það var bara svo líkt flóttahljóði slöngunnar.

Eftir að skyggja tók gekk ég svo út i skógarjaðarinn og stóð þar og bara lifði með kyrrðinni. En heyrðu! Ég var ekki einn! En það var bara hann Broddi sem snuddaði við fætur mér og meðan ég stóð kyrr var honum sama um mig. Þetta hefur oft skeð og það er nú ansi nærri því að ég hoppi upp við svona skemmtileg tækifæri. En Broddi er ósköp skemmtilegur og ómögulegt að vilja honum illa. Sumir segja líka að broddgeltir éti slöngur, en það er hins vegar vitað að slöngur éta mýs.

Síðustu daga hefur í sjónvarpi verið talað um skaðlega eyðingu á gömlum skógum. Það er ótrúlegt en sjálfsagt satt að á einu gömlu tré getur verið samfélag allt að 1500 tegunda örvera, skordýra og fugla og einhvers sem ég kann ekki að nefna.

Í raun veit ég ekki hvers vegna ég hef skrifað þetta en það var þetta með fuglana sem fékk mig til að byrja. Svo kom ýmislegt annað af sjálfsdáðum eins og svo oft. Í dag hefur verið mjög ljúfur snemmsumardagur og svo er bara að sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Góðar stundir.


Kommentarer
Rósa

greinar um málið:

http://www.dn.se/kultur-noje/sveriges-nya-miljonprogram

http://www.dn.se/kultur-noje/lagen-ar-en-rokrida

2012-05-01 @ 22:51:35
Guðjón

Takk fyrir það, þetta er örugglega mjög forvitnilegt.

2012-05-01 @ 23:12:19
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0