Hvað sé ég við daginn í dag?

Ég var á leiðinni frá Örebro eftir að hafa skilið Valdísi eftir á sjúkrahúsinu og mér lá ekkert á. Ég skimaði kringum mig, hleypti tveimur bílum fram úr á heppilegum stað, og gat ekki annað en fyllst aðdáun. Mér var ljóst að þetta land skartaði sínu fegursta. Ekki því fegursta nokkru sinni, heldur því fegursta sem er daglegt brauð á hinum bestu dögum hvers sumars. Sólskinið og kyrrðin í veðrinu, grænir akrar og grænkandi akrar, trjágróður við vegi, heimili og svo skógurinn sjálfur.

Ég var frjáls sem fuglinn að vissu leyti en ekki að því leyti til að Valdís var í undurbúningsathugunum fyrir krabbameinsmeðferð og ég vissi að aðstæður hennar voru ekki svo auðveldar. Þessar athuganir voru ekki bara að láta mæla blóðþrýsting eða púls, þær gengu út á að blása hvað eftir annað eiginlega meira en mögulegt er að gera og að láta dæla í sig geislavirkum efnum vegna sneiðmyndatöku. Ég vissi að henni þótti þetta alls ekki gaman en hún gekk samt fram til bardagans eins og konu af víkingaættum er lagið. Ég fékk ekki að vera viðstaddur þannig að mér fannst mikið betra að fara heim en að vera á röltinu í Örebro.

Ég sagði í fyrradag að sumarið hefði komið á réttum tíma fyrir okkur. Þvílík gjöf sem öllum ber að þakka. Nágranni okkar sem er á okkar aldri var að vinna með skóflu heima hjá sér þegar ég kom heim úr Örebroferðinni. Ég stoppaði þar og við tókum spjall saman. Hann sagði það vera merkilegt hvað maður væri aðfinnslusamur því að nú fyndist honum of heitt. Samt vildi hann alls ekki líta þannig á það en verkið var honum dálítið erfitt og svitinn bogaði af honum. Við urðum sammála um að það yrði makalaust notalegt fyrir hann að fá sér stórt glas af köldu safti þegar hann væri búinn með moksturinn og svo mundi hann eiga góðar minningar um þennan góðviðrisdag. Þannig er það.

Mér finnst að ég þoli hitann betur en margir aðrir og ég get unnið með skóflu og haka þó að hitinn nálgist 30 stig. Ég verð að vísu afar blautur og háll á hörund en einmitt þá kemst ég í jafnvægi. Og jafnvel þó að það geti sótst erfitt verða minningarnar um góðviðrisdaginn góðar og fallegar. Svo kom ég heim að lokum og skimaði á gróðurinn sem við erum búin að hafa áhrif á síðastliðin átta ár. Ég ætlaði að ljúka ákveðnum verkum áður en ég sækti Valdísi aftur á sjúkrahúsið, en ég féll fyrir því að gera svolitla úttekt á skógargróðrinum okkar. Tré sem við höfðum gróðursett eða frelsað með grisjum voru nú farin að ná upp á miðja stofna bjarkanna sem bera krónuna hátt uppi þar sem þær lifðu allt of lengi í þéttum skógi. Svo þéttur var skógurinn eina 30 metra suðaustan við húsið að meðal ratvís maður gat villst þar. Þar er nú vaxandi fallegur trjágróður með hæfilegu millibili og fallegum krónum sem ná allt niður undir jörð. Ég varð hugfanginn og gleymdi mér.

Nú er farið að skyggja örlítið og ég sé að þessum gróðri líður vel þarna. Sérðu björkina þarna hjá bláberjabekknum spurði Valdís mig um daginn. Já, ég sá hana. Hún þarf að fara sagði Valdís. Ég varð næstum hissa þar sem hún hefur haldið vörn fyrir bjarkirnbar þegar ég hef reynt að segja í samningatón að ein eða önnur eik þurfi meira pláss. Svo spurði ég hana hvers vegna björkin ætti að fara. Jú, hún skyggði á svo fallegan hlyn sem var bakvið hana séð út um glugga sem Valdís situr oft við. Þar að auki er króna hennar langt ofan við miðjan stofn. Jú, það er ekki spurning að nú er þessi björk búin að gera sitt og í haust eða vetur verður hún að eldiviði sem notaður verður í kamínuna veturinn 2014 til 2015. Framsíðan á skóginum okkar er orðin ótrúlega falleg og hlynir sem hafa gott pláss eru mjög fallegir.

Svo fékk ég mér léttan hádegisvarð og lagði aftur af stað til að sækja Valdísi. Þegar ég kom á sjúkrahúsið var hún komin fram á biðstofu og tilbúin til heimferðar. Ég sá á henni að þessir fjórir klukkutímar á sjúkrahúsinu höfðu ekki verið til neinnar skemmtunar. Við lögðum af stað og keyptum hamborgara í poka svo að ekki þyrfti að fara í neina matargerð þegar heim kæmi. Ég valdi barnahamborgara eins og Hannes fékk að borða um síðustu helgi, en Valdís fékk sér annan öllu stærri þar sem hún hafði ekki borðað í eina átján tíma. Smám saman fannst mér hún verða mun hressari en hún var í gær og í morgun. Leiðinlegu sjúkrahússtússi var lokið að sinni.

Vísdómsorðingærdagsins í bókinni Kyrrð dagsins eru eftirfarandi: "Hamingjan læðist inn um dyr sem þú vissir ekki að þú hefðir skilið eftir opnar." Svo sagði Johan nokkur Barrymore sem uppi var 1882 til 1942. Ég held að það liggi mikið í þessu þó að það sé kannski ekki alveg borðliggjandi á okkar bæ sem stendur. En viti menn; ég las þetta fyrir Valdísi rétt í þessu og þá sagði hún: Ooooo. Hún sagði svo vegna þess að henni fannst þetta vera góð vísdómsorð. Þá er það bara svo. Valdís er búin að hvíla sig eftir heimkomuna og ég held að hún sé ekki geislavirk lengur. Svo er hún búin að horfa á fréttir og sjónvarpsþátt sem hún vill ekki missa af.

Ég var á vappi með skurðgröfumanni hér úti um átta leytið og svo settumst við vestan við húsið í kvöldsólinni við borðið á nýju stéttinni sem ég lauk við um helgina. Þar drukkum við kolsýrt vatn með bragði af granatepli. Ég varð svolítið hissa á því að hann bara sat og sat og við spjölluðum. Svo sagði hann: Mikið er fínt hérna.

Nú er mál að við leggjum okkur. Valdís ætlar nefnilega á kóræfingu á morgun og þá förum við fyrr á fætur. Sko hana! Hún var að tilkynna mér þetta og mér þótti það ekki leitt, jafnvel þó að við þurfum að fara aðeins fyrr á fætur.


Kommentarer
Þórlaug

Hún er seig fiskimannsdóttir úr Hrísey.



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2012-05-23 @ 23:39:58
Valgerður

Dugleg þið.

VG

2012-05-24 @ 10:10:48
Björkin.

Takk fyrir góðan pistil mágur minn.

2012-05-24 @ 15:03:19
Jenný

Gangi ykkur vel elskurnar ! Viltu knúsa Valdísi frá okkur Víði,kveðja Didda

2012-05-24 @ 20:45:02


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0