Krafteverkið heldur áfram

Áður en það fór að skyggja að ráði horfði ég út um gluggann hér móti austri þar sem ég sit núna og þá datt mér þetta í hug; já kraftaverkið heldur áfram. Við Valdís töluðum um það á leiðinni heim frá söngæfingunni hennar um hádegið í dag að þetta væri óumdeilanlega stórkostlegasti tími ársins. Samt gátum við minnst margra vetrarstunda þegar allt var þakið jöfnum hreinum snjó, greinar barrtrjánna svignuðu undan byrðinni, hrímfrostið gerði hvert og eitt lauftré að silfruðu listaverki, að þá var allt umhverfið eitt stórt undur sem virtist hreinlega af öðrum heimi. Þá getur maður spurt sig hvort sé fallegra, veturinn eða vorið. Svo kemur vorið og þá hefur það alla vega vinninginn.

Já, þannig var nú það. Nú er orðið dimmt úti og gluggatjöldin dregin niður og vorið hafði sem sagt vinninginn. Lífið fylgir líka vorinu meira. Að vísu getur pörun byrjað meðan snjóalögin hylja jörð, en hreiður, ungar og búamstur fylgir vorinu. Blómin, laufgunin og vöxturinn fylgir líka vorinu og svo sumrinu, og meira að segja broddgölturinn sem bardúsaði eitthvað við fætur mér um daginn fer á kreik með vorinu, einnig slangan sem dustaði til bláberjalynginu á flotta sínum hér um daginn. Flugan sem settist á andlit mitt og hendur áðan þegar ég byrjaði að skrifa tilheyrir þessu líka. Hún olli því að flugnaspaðinn var dreginn upp úr skúffu. Hún var ein á ferð og hélt að mér líkaði svona vel við hana þegar ég var að slá til hendinni til að verð af með hana og það var eins og henni fyndist það gaman. Ég veit svo sem ekki hvort okkar hafði meiri rétt til lífsins en flugan er alla vega ekki lengur í tölu lifenda.

Rétt um dimmumótin fór ég í síðustu gönguna um skóginn. Þá varð ég þess var að hin sex sentimetra löngu beykibrum voru orðin græn í blá endann, þann sem vísar frá trénu. Ég var eiginlega orðinn hissa á því hvað þau voru orðin stór og stinn án þess að springa út, en nú gátu þau greinilega ekki haldið í sér lengur, jafnvel þó að þau kannski vildu stríða mér. Þetta er nýr áfangi í laufguninni og kemur á þeim tíma sem bækur gera ráð fyrir, en ég hef lesið mig til um það að beyki laufgist í myrjun maí. Svo fer eikin bráðlega af stað og þá fer af stað stór áfangi þar sem svo margar eikur eru í skóginum okkar. Síðar byrjar öspin og að síðustu askurinn. Með öðrum orðum; kraftaverkið er bara á bernskuskeiði ennþá.

Ég sagði í bloggi í gærkvöldi að ég ætlaði að ganga frá DVD spilaranum við sjónvarpið. Það gerði ég líka og kom þá tilheyrandi leiðslum í réttan farveg, leiðslum sem voru búnar að vera utanáliggjandi æði lengi og óttalega leiðnlegar fyrir augað. Svo þegar við litum á þetta að verki loknu, þá var munurinn svo ótrúlega mikill og svo er eins og eitthvað sé komið í lag og nú getum við farið að horfa á myndir sem við veljum. Annars horfi ég sára lítið á sjónvarp. Það eru nokkur álíka atriði eftir innanhúss en alls ekki mörg. Sólvallahúsið er orðið í býsna góðu standi. Annars var ég líka að gera eitt og annað klárt úti og líka að vökva nýjar gróðursetningar. Ótrúlegt hvað mér getur fundist ég vera mikilvæur þegar ég er að vökva. Valdís tók hins vegar að sér að setja í töskur fyrir ferð til höfuðstaðarins. Það fer best á því þar sem ég gleymi helmingnum.

Nú, eins og svo mörg, mörg kvöld áður, er kyrrðin alger. Valdís les bók fyrir aftan mig og ég finn fyrir löngun til að fara undir ullarfeldinn minn líka. En þó að bókin Kyrrð dagsins sé hér eina 25 sentimetra frá vinstri hendi minni, þá var ég ekki búinn að taka eftir vísdómsorðum dagsins. Það var ekki fyrr en Valdís benti mér á þau að ég sá hversu ótrúlega vel þau eiga við árstíðina og þá stemmingu sem fyllir herbergið í kvöldkyrrðinni.

Engan asa,
engar áhyggjur,
þú ert aðeins í stuttri heimsókn.
Stansaðu,
njóttu þess að finna blómin anga.

Svo mælti Walter nokkur Hagen sem uppi var 1892 til 1969. Ég hef ekki lesið um þennan mann og mun ekki gera á þessu kvöldi. Það er orðið of áliðið til þess. Okkur Valdísi fannst báðum að þessi orð séu allrar athygli verð.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0