Leikhúsferð

Ég hef alveg örugglega sagt það áður að þó að ég mundi ekki vilja eiga heima í Stokkhólmi, þá finnst mér gaman að skreppa þangað. Það þarf ekki að gera svo merkilega hluti. Bara hitta fólkið okkar þar, labba svolítið um, taka neðanjarðarlest, taka ferju milli staða á sólríkum degi og ekki er þá vera að hafa vel útilátinn íspinna til að gæða sér á. Við Valdís fórum til Stokkhólms eftir hádegi á föstudaginn var og svo heim aftur í gær, mánudag. Í þessari ferð fórum við líka í leikhús þannig að það var lagt meira í þessa ferð en í mörg önnur skipti.

Á laugardaginn fórum í Konunglega skrúðgarðinn til að skoða japönsku kirsuberjatrén sem enn voru þá í blóma, en þó farin að láta nokkuð á sjá eins og sjá á myndinni fyrir ofan. Við stöndum þar í mottu af bleikum krónublöðum sem fallin eru af trjánum, enda er farið að sjá til himins gegnum krónurnar, en mér skilst að það sé á mörkunum þegar dýrðin er sem mest.

Barnabarnið Hannes Guðjón var mjög rannsóknarglaður þarna í garðinum og fótalúinn var hann alls ekki. Á þessari mynd er hann að leggja af stað í eina hringferðina enn og fer rösklega fram.

Hér er hann að koma til baka og virðist vera að skima eftir vinnubrögðunum hellulagningamannanna, hvort samskeytin séu sómasamlega úr garði gerð.

Svo fengum við okkur að borða þarna í skrúðgarðinum og þegar Hannes fór að brölta á herðum mömmu sinnar var bara ekki hægt annað en taka mynd af litla manninum sem annars var ósköp skemmtilegur við borðið. Kannski var þetta bara sýningaratriði hjá honum.

Það er mikið Hannes á þessum myndum en málið var bara að hann var með á hverri einustu mynd sem við tókum í ferðinni. Þegar ég var búinn að velja þær myndir sem ég ætlaði að nota, þá tók ég eftir þessari og fannst ég ekki geta sleppt henni. Hann er tveggja ára og átta mánaða og mikið er hann glaður ná þessari mynd. Reyndar er hann 98 % glaður þessi drengur. Ég velti fyrir mér hvort ég gæti hafa verið svona glaður á hans aldri en mun aldrei komast að niðurstöðu um það. Hins vegar er nokkuð öruggt að það var engin blaðra til að gleðjast yfir á þeim árum á Kálfafelli.

Þegar ég kom í fyrsta skipti á ævinni niður í neðanjarðarlestarkerfi, en það var í Stokkhólmi 1994, þá hafði ég á orði hvar suður væri. Ég var víst að reyna að vera sniðugur. Ég verð gersamlega sneyddur allri tilfinningu fyrir áttum þarna niðri og reikna með að svo séu allir. Rósa og Pétur leiddu mig þá að svona hring þar sem áttirnar eru gefnar upp og ég held að ég hafi þá sagt að mér liði mikið betur fyrst ég gæti séð þetta. Síðan hefur oft verðið gengið að svona hringjum í Stokkhómsferðum til að tala um þetta. Svo var líka i þetta skipti þegar við Hannes stilltum okkur upp við þennan hring, einhverja tugi metra niður í berggrunninum undir Stokkhólmi.

Þegar heim var komið eftir bæjarrölt var gott að setjast á hné ömmu og líta á barnaefni. Hann reyndi ekki að klifra upp á herðar henni. Það er gott að kunna sér hóf.

Já, við fórum í leikhús og fyrirsögnin er Leikhúsferð. Ég á eftir að fara nokkrum orðum um það, en það læt ég bíða þar til síðar. Hins vegar vil ég segja frá nokkru sem ég upplifði á leiðinni heim. Við fengum okkur að borða á stað nokkrum eina 50 kílómetra austan við Sólvelli svo að við þyrftum ekki að byrja á matargerð þegar heim kæmi. Stuttu eftir að okkur bar þar að garði kom full rúta af ellilífeyrisþegum sem fengu sér líka að borða þarna.

Síðan komu lítið eldri hjón með ungan mannn í hjólastól. Hann var trúlega rétt um þrítugt og algerlega bundinn stólnum. Hann var líka mjög fatlaður á höndum og fingrum og gat ekki skorið matinn sinn. Hann sat næstum beint á móti mér, ekki svo langt í burtu. Meðan hann beið eftir að fylgdarfólk hans kæmi með matinn sögðu nokkrir ellilífeyrisþegar á næsta borði eitthvað sem vakti hlátur. Hann komst ekki hjá því að heyra það og fór líka að skellihlæja og hann hló innilega. Svo kom maturinn hans á borðið og þegar búið var að brytja matinn gat hann borðað hjálparlaust. Hann virtist njóta þess að borða og spjalla við ferðafelaga sína.

Mér varð hugsað að ég gæti gengið þarna inn, farið á snyrtinguna og pissað hjálparlaust, þvegið mér um hendurnar, skoðað matinn og valið sjálfur, borgað fyrir mig, farið að því borði sem mér bara datt í hug og borðað án aðstoðar. Þetta er bara smá brot af þeim mismun sem við búum við, ég og þessi maður. Var hann kanski glaðari en ég? Hann vakti margar hugsanir hjá mér þessi maður og ég átti erfitt með að setja mig í spor hans. Mikið má ég vera þakklátur fyrir það sem ég hef.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0