Loksins kom rigningin

Það eru framleidd og seld tæki til að slíta upp fífla og það er hægt að kaupa fíflaeitur. Ég tók meira að segja þátt í því í Hrísey að úða eitri á fífla. Svo virtist lengi vel sem ekkert ætlaði að ske, en allt í einu; allir fíflar horfnir. Þá hélt ég að eitrið hefði virkað, en ég þurfti að verða 20 árum eldri áður en ég áttaði mig á því að þá voru líka allir hinir fíflarnir horfnir, líka þeir sem ekki voru úðaðir með eitri. Þeirra tími kemur og fer og svo verður allt eins og engir fíflar hefðu nokkru sinni verið á túninu, lóðinni eða fallega balanum einhvers staðar.

Þannig er það líka með gamla túnið á myndinni. Það er búið að vera gult og fallegt, næstum alþakið fíflum í marga daga eða vikur. Nú eru biðukollurnar eftir og eftir nokkra daga verður þetta eins og aldrei hafi vaxið fíflar þar. Svo taka önnur blóm yfir. Í júlílok kemur svo Arnold og slær þetta gamla tún en hirðir ekki grasið. Svæði sem eru hirt á þennan hátt eru kölluð engi, blómaengi. Útsýnið til vesturs frá okkur er yfir þetta blómaengi. Meira að segja Evrópusambandið borgar Arnold fyrir að slá þetta engi og fleiri engi og heitir það að viðhalda opnu landslagi. Ef ekki mundi þetta gamla tún verða skógi vaxið og við Valdís missa útsýnið til vesturs. Þessi mynd var tekin fyrir rigningu.

Og ef Arnold kæmi ekki að slá gamla túnið vestan við okkur, þá gæti engið orðið svona eftir all mörg ár. Að vísu talsvert mörg. Þá sæjum við ekki langt í þá áttina heldur. Þessi mynd var tekin fremst í skóginum hjá okkur í kvöld eftir rigningu. Fyrir miðri mynd beyki og svo allt mögulegt, meira að segja tré sem þurfa að fara næsta vetur. Það virðist vera gott samkomulag þarna.

Hér er kannski ekki alveg jafn gott samkomulag. Það er nefnilega áltrappa þarna sem endurspeglar sólinni og á ekki heima í þessu umhverfi. Við vorum að binda upp tré sem heitir grátbjörk og má segja að þessi björk lúti höfði og bogni þannig í eina átt en getur orðið mjög breið. Grátbjörkin verður sem sagt ekki hátt tré en hægt er að binda hana upp til að breyta vextinum og fá hana til að verða hærri. Því finnst trappan þarna. Svo lengra til vinstri er einn jarðaberjadallurinn hennar Valdísar og það er allt annað mál. Valtarinn er þarna líka, aðeins hérna meginn við jarðaberjadallinn, og hefur verið í nokkra daga eftir smá lagfæringu í skóginum. Hann er öllu skárri en trappan finnst mér.

Það er ekki alltaf létt að vera unglingur. Þessi hlynur, sem einmitt er unglingur, hefur vaxið 48 sentimetra á þessu vori og svo þegar hann fékk rigninguna á stóru blöðin sín, þá bara gat hann ekki haldið höfði legnur, hann varð svo þreyttur. En þegar þornar á ný mun hann reisa sig og í haust verður hann orðinn miklu stæltari og verður þá teinbeinn eins og hlynir vilja helst af öllu vera.

Hér eru tvær eikur sem eru eina fimmtán metra frá baðglugganum. Þær eru tré sem voru frelsuð úr viðjum óræktar hér í skóginum, óræktar sem ég hef svo oft talað um, og nú eru þær búnar að þakka afar vel fyrir sig og eru ekki lengur brennimerktar erfiðri aðbúð. Valdís byrjar oft daginn með að líta út um baðgluggann á þessar eikur og fleiri tré sem sjást þaðan, en eikurnar eru í fyrirrúmi og skapa oft einhverja umræðu.

Á öllum myndunum utan þá fyrstu lýsir sólin upp flekki eða stofna einhvers staðar í bakgrunninum. Það er oft mikið fallegt eftir regn. Annars er jú alltaf fallegt á Sólvöllum.


Kommentarer
Grátbjörkin

Flott nafn.Mikið eru þetta flottar myndir mágur.Glæsilegur skógurinn.Kveðja.



2012-06-02 @ 01:13:36


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0