Að rækta sinn innri mann

Það ert fimmtudagskvöldið 10. maí og árstíminn er bæði aðdáunarverður og spennandi. Við Valdís vorum á leið heim frá Blomsterland í Marieberg nokkru eftir hádegi í dag og töluðum þá um að mikið væri farið að grænka en samt væri það bara að byrja. Eik og lind eru rétt að byrja en ösp og askur eru ekki komin af stað. Svo eru lauf trjáa ennþá bara í hálfri stærð eða minna, þau eru ekki búin að fá á sig hinn virkilega græna lit og vöxtur sjálfra trjánna er ekki byrjaður. Já, það er mikið í gangi. Bæði eplatrén sem ég fékk í afmælisgjöf frá vinnufélögunum í Vornesi eru að rembast við að blómgast þó að það sé ekki frekar reiknað með því fyrsta árið. Eldri eplatré hjá okkur eru líka að blómgast og bæði plómutrén okkar líka. Það eru því líkur á einhverjum ávöxtum á Sólvöllum í sumar og haust.

En hvað vorum við að gera í Blomsterland í dag? Jú, við vorum að kaupa ræktaðar jarðarberjaplöntur, ein sex stykki. Þau skulu í mold á morgun. Fyrir síðustu helgi gróðursetti ég tólf jarðarberjaplöntur og þá á ég við ber sem eru svipuð íslensku, viltu jarðarberjunum sem hér heita smultron. Við hugsuðum okkur að þessi ber skyldu verða eins náttúrulega gróðursett og hægt væri, enda er þegar svolítið af þeim hingað og þangað fremst í skóginum. Svo gróðursetti ég þau bara í skógarbotninn án þess að bæta jarðveginn. Svo fórum við í Marieberg í innkaupaferð í gær og meðan Valdís var að gera matarinnkaupin kom ég við í Blomsterland í nokkurs konar undirbúningsferð fyrir ræktuðu jarðarberjakaupin. Þá talaði ég um þetta með smultron, hvernig ég hefði gróðursett þau.

Það var hjálpleg kona þarna í útideildinni sem virtist vita mjög vel hvað hún var að tala um. Hún teygði sig eftir einni smultronplöntu, dró hana upp úr bakkanum, sýndi mér rótina og sagði svo: Þú ert enga stund að taka plönturnar upp aftur og setja svolítið af gróðursetningarmold í kringum ræturnar. Þú ættir að gera það og þá verður þetta mikið betra hjá þér. Hún sagði þetta greinilega með góðri samvisku og af sannri afhjálpsemi. Ég hikaði aðeins og þótti heldur miður, en sagði svo að það hefði verið gott að hún benti mér á þetta og ég reyndi að láta sem svo að það væri ekkert mál fyrir mig að framkvæma gróðursetninguna aftur. Samt skal ég viðurkenna að mér fannst svolítið sem hún hefði bætt á mig verki.

Svo þegar við Valdís komum heim í gær dreif ég mig í regnbuxurnar þar sem það var drjúg rigning. Ég tók upp allar smultronplönturnar, stækkaði holurnar og bætti jörðina með rúmlega hálfri fötu gróðursetningarmold fyrir hverja plöntu. Það tók ekki svo langan tíma og nú veit ég að þetta er vel gert. Það er hægt að fá góð ráð í þessari verslun og þá sérstaklega á þeim tíma vorsins sem mest er selt af plöntum. Konan sem ráðlagði mér þetta með smultronplönturnar var samt ekki sú sama og ráðlagði mér fyrir tveimur árum að pissa á trjáplönturnar sem mér þætti vænst um og ég vildi sjá vaxa hratt fyrstu árin. Svoleiðis ætla ég þó ekki að gera með jarðaberjaplönturnar.

Ég talaði um rigningu. Í gær, daginn sem ég tók upp allar smultronplönturnar og gróðursetti á ný, rigndi hressilega allan daginn fram á kvöld, og upp úr hádegi í dag fór svo að rigna aftur. Jörð er nú vel blaut og akrar á sléttlendi standa sumstaðar undir vatni sem er jú full mikið af því góða. Þetta herti mjög á öllum gróðri og kannski sérstaklega grasgróðri. Því fór Valdís af stað með sláttuvélina þegar við komum heim úr jarðaberjainnkaupunum í dag og sló alveg fram í rigningu. Ég fór hins vegar með greinaklippur, hæla, litla sleggju og snæri út í skóg til að aðstoða góða kunningja þar sem áttu við tilvistarerfiðleika að stríða.

Á þessum myndum má sjá svolítið hvað gróður er kominn langt þó að alparósin sem Valdís er þarna að slá í kringum sé græn allt árið. Það eru mörg hundruð blómknappar að búa sig undir blómgun á henni þessari.

Á vilta bláberjalynginu er þvílík mergð af sætukoppum að ef ekki kemur frostnótt hér eftir, þá verður mjög góð bláberjauppskera. Sama er að segja um nokkra keypta bláberjarunna sem við eigum. Mikil verður velsældin á Sólvöllum þegar líða fer á sumar og að hausti. Ber í sultu, ávextir í sultu og pæj, ber á brauð og ber með rjómaís á kvöldin. Bláber eru líka alveg frábær í tyrkjajógúrt, einnig í skyri sem er orðin vinsæl söluvara hér.

Eftir tal um sprettu og ræktun lít ég á vísdómsorð þessa dags í Kyrrð dagsins, en þar stendur nokkuð um ræktun og ég get lofað að ég var búinn að skrifa allt ofanritað áður en ég las þessi vísdómsorð.

Sönn fegurð verður að spretta,
hana verður að rækta innan frá.

Þetta sagði Ralph W. Trine, en hann var uppi frá 1866 til 1958. Hann var hámenntaður maður, fæddur i Illinois, og var heimspekingur, kennari, og afkastamikill rithöfundur. Blaðamaður var hann líka og hann byggði sér einfalt hús í furuskógarkanti þar sem hann gat verið samvistum við náttúruna. Hann hafði áhrif á margt af sínu samtíðarfólki og sagt er að oft sé fólk að lesa bækur án þess að vita að það sé að lesa efni þar sem kenningar tengdar þessum manni fylli síður bókanna. En hvað um það, þessi sannleikur hefur oft komið upp áður og þetta er bara enn ein áminningin um að svona er það bara. Þó að ég kaupi gula fjöður í hattinn minn á morgun breytir það ekki mínum innri manni. Ég var hins vegar á AA fundi í Fjugesta í gærkvöldi og sagði þar sannleikann um sjálfan mig án þess að reyna nokkuð að fegra hann. Þá var ég að rækta minn innri mann.

Þessum degi lauk með 15 stiga hita á miðnætti. Það verður spennandi að líta út á morgun.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0