Lífið á Sólvöllum

Þvílíkur dagur sem við höfum haft í dag. Hitamælirinn á borðinu fyrir framan mig stóð í 23 gráðum þegar ég settist við bloggið rúmlega hálf átta. Ég trúði því ekki og fór því út í bíl, setti hann í gang og leit á mælirinn þar. Hann sýndi líka 23 stig svo að ég ók smá spöl og þá fór hann í 24 stig. Ég varð því að leggja niður allar grunsemdir og bara trúa því að það séu svona frábærir sumardagar um þessar mundir. Því er líka spáð áfram út mánuðinn. Var það ekki Freyr sem heyrði grasið vaxa og ég held bara að ég heyri vaxtarnið í skóginum. Vöxturinn þar er alla vega orðinn mikill og þið megið bara ekki segja frá því, en ég er búinn að fara út með tommustokk og mæla vaxtarsprotana á beyki sem ég horfi á héðan út um gluggann. Það hefur þegar breikkað um tæplega hálfan meter. Um hæðina veit ég ekki. Það er erfiðara fyrir mig að komast upp í toppinn til að mæla hann en að mæla hliðargreinarnar.

Við fórum ekki snemma út í morgun þrátt fyrir að dagurinn byrjaði með miklu sólskini og blíðu. En þegar við fórum út gengum við til þeirra verka sem við höfðum valið okkur þegar í gærkvöld. Valdís dró í gang sláttuvélina og byrjaði að slá það sem eftir var af lóðinni bakvið húsið. Ég dró hins vegar í gang motororfið sem nú var vopnað með sagarblaði og svo réðist ég á mikið af hindberjarunnum, reyniviðarplöntum og alls konar skógargróðri sem óx í flækju í þremur flekkjum úti í skógarjaðrinum. Eftir að hafa slaktað þessu í grófum dráttum lagði ég orfið til hliðar og tíndi saman sprekin sem nú lágu í óreglulegum haugum og raðaði þeim í bingi sem ég ætla að fjarlægja á morgun. Valdís var líka búin að slá og sýslaði við hitt og þetta.

Allt í einu kallaði Valdís og bað mig að koma að hestkastaníunni sem við gróðursettum fyrir nokkrum árum. Áður en ég komst alla leið til hennar sagði hún í gleðitón að það væru komin blóm á hana. Við keyptum kastaníuna í gróðrarstöð í Örebro sem rúmlega mannhæðar háa plöntu fyrir kannski sex árum. Það þurfti að panta hana frá gróðrsrstöð í öðru héraði. Þegar við gengum með hana út þaðan horfðu margir á eftir okkur því að kastanían var mjög falleg planta. Einhverjum varð að orði að mikið væri hún fín þessi. Ég hafði lesið það um kastaníur að þær yrðu ekki kynþroska fyrr en eftir all nokkur ár og bæru því ekki blóm lengi vel. Valdís hafði leitað blómanna á hverju vori og nú loksins sáust fyrstu blómklasarnir. Valdís var sæl með þetta. Svo kom pósturinn og með honum kom bréf sem gerði það að verkum að við þurftum til Fjugesta.

Valdís gengur ekki heil til skógar. Það er reynsla okkar að heilsugæslan segist takast á við krabbamein en ekki að fólk deyji úr krabbameini. En svo er það staðreynd að það lifa ekki allir af en reyndar mjög margir. Sumir eru haldnir þessum sjúkdómi þegar þeir koma í meðferð til Vornes og eru þá venjulega búnir að ganga með hann mjög lengi. Þeirra von er kannski ekki sérstaklega stór. Þar fyrir utan vitum við Valdís bara um einn mann hér í Svíþjóð sem hefur dáið úr krabbameini á síðustu árum og það er pabbi ungu nágrannakonu okkar hér sunnan við. Síðan vitum við um marga sem hafa læknast eða alla vega fengið sumarauka á ævi sína svo árum skiptir.

Ferðin til Fjugesta tengdist undirbúningi þeirrar meðferðar sem stendur fyrir dyrum. Valdís er dugleg og segist vera undir það búin að hún lendi í erfiðleikum en þá muni hún takast á við það. Ég hef verið spurður hvort hún sé eins dugleg og hún láti af sjálf. Það var nefnilega þess vegna sem blómin á kastaníunni glöddu mig. Væri hún í öðrum heimi af kvíða hefði hún alls ekki tekið eftir þessum blómum sem eru í meira en þriggja metra hæð. Ég var alls ekki farin að taka eftir þeim. Svo sofum við á nóttunni og það er góðs viti. Það er hreinlega undirstaða þess að lífið geti verið í jafnvægi. Það er svo spurning hvort eigi að blogga um sjúkdóma en málið var að fólk vissi þegar að eitthvað var að og ef ég ekki gerði það gat ég ekki bloggað lengur. Þá hefði allt mitt blogg orðið eintóm lygi.

Fjölskyldan okkar í Stokkhólmi var hér um helgina og þar með auðvitað minnsta barnabarnið. Hann Hannes Guðjón er mikið glaður lítill maður og þar með mikill gleðigjafi. Mikið var gott að þau komu. Ég ætlaði mér að vera búinn að blogga svolítið um þessa heimsókn en það hefur ekki komist í verk. Í kolli mér finnst líka óskrifað blogg um leikhúsferð okkar Valdísar til Stokkhólms þann 5. maí. Þetta og margt annað er óskrifað en það kemur að því. Valgerður og Guðdís voru á Majorka í síðustu viku og stóðu þar á sömu dómkirkjutröppum og ég stóð á árið 1960. Hálf öld og rúmlega það reiknast mér. Mér var lofað mynd af þessari kirkju og háum tröppunum.

Klukkan er nú orðin hálf tíu og kvöldkyrrðin er sest að í skóginum fyrir utan gluggann sem ég sit við og aðeins farið að húma þar lengst úti. Hitinn er kominn niður í 19 stig. Svo kyrrt er þarna úti að það bærist ekki lauf utan í hæstu toppunum sem eru 20 og allt að 30 metra háir. Það sést líka vel að við unnum gott verk í dag. Þegar við komum frá Fjugesta fór ég aftur af stað með mótororfið til að ljúka endanlega þessu hreinsunarstarfi mínu. Svo ætla ég að vinna að þessu á morgun líka en Valdís fer hins vegar í mánaðarlegan hádegisverð með fjórum vinkonum sínum. Ég er mikið feginn því. Þannig er það á þessum bæ um þessar mundir og undurfallegt sumarið kom á hárréttum tíma fyrir okkur.


*


Hér er kastaníutréð okkar og eitt af blómunum sem Valdís tók eftir í dag sést nánast ekki á myndinni nema bara af því að ég veit hvar það er. Það er aðeins ofan við miðju og aðeins til vinstri. Blómaklasar kasatníutrjánna eru kertalaga og mjög fallegir. Alparósin sem er hægra megin við kastaníutréð hefur aldrei þrifist hér og hún verður fjarlægð -trúlega á morgun. Það tilheyrir gróðrarsnyrtingunni.

Hér er svo alvöru hestkastanía sem ég tók ófrjálsri hendi á netinu. Ljósmyndarinn heitir Anna-Lena Anderberg. Hestkastaníur verða mjög stór tré og þegar við völdum trénu okkar stað var alls ekki á áætlun um að bæta við húsið í átt að henni. Það eru kannski alls ekki svo mörg ár þangað til hún verður komin inn yfir húsið og þá er aldrei að vita hvað gert verður við hana.

Svo er bara rétt að láta vita að þessi blóm eru verðandi epli. Hunangsfluga var að störfum þegar ég tók myndina áðan en hún vildi alls ekki sitja fyrir.


Kommentarer
Þórlaug

Sæll Guðjón.



Viltu bera Valdísi mínar bestu kveðjur og óskir í meðferðinni sem er framundan, hún á eftir að reka vágestinn burt. Vonandi fáum við að fylgjast með hérna á blogginu. Þið eruð dugleg og sterk og haldið ykkar striki í fallega húsinu ykkar með þetta frábæra umhverfi sem þið eigið.



Kærar kveðjur,



Þórlaug

2012-05-21 @ 22:53:04
Guðjón

Við þökkum bæði fyrir hlýlegu orðin þín Þórlaug.



Með bestu kveðju til ykkar beggja frá Valdísi og Guðjóni

2012-05-21 @ 23:05:46
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

pabbi það er nauðsynlegt að þú bloggir um það sem þið eruð að fást við svo að ættingjar og vinir sem ekki eru í Svíþjóð geti á einhvern hátt fyrlgst með. Þið yrður vitlaus ef það ætti að endurtaka allt í síma til allra sem til ykkar hringja annars. Barnabörn í Noregi og á Íslandi þurfa líka að geta fylgst með. Myndina eða myndir sendi ég svo sem og póstkortið sem óvart kom með til Íslands.

Valgerður

2012-05-22 @ 10:14:52
Björkin.

Takk fyrir gott og fallegt blogg elsku mágur minn.

2012-05-22 @ 14:41:53


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0