Ég veit því að vöxturinn er gríðarlega mikill

Alveg byrjaði þessi dagur yndislega. Við slóruðum lengi í morgun, lögðum góða rækt við ellilífeyrisþegann í okkur og horfðum meðal annars dálítið á sjónvarp. Þar var afar áhugavert viðtal við Desmond Tutu og það fór bara ekki á milli mála að þar var talað við vísan mann. Ég verð að viðurkenna að ég man bara svo lítið af samtalinu, enda var eins og viðmælandinn gerð ráð fyrir því þar sem hann benti eins og svo oft áður á að það mætti sjá viðtalið seinna á netinu. En! -mér fannst hann koma því óvenju vel á framfæri og eiginlega hvetja til að sjá viðtalið aftur.

Hann ræddi mjög svo alverleg mál þessi maður en var þó léttur í lund og hló oft. Ég held að hann hafi hlegið mest þegar hann sagði að á sínum tíma hefði Margaret Thatcher kallað Nelson Mandela hryðjuverkamann. Svo breyttir eru tímarnir sagði Desmond Tutu að menn sögðu svona hluti þá, fyrir svo löngu síðan. Hann skýrði það ekki frekar enda eiginlega óþarft. Ef ég skil eitthvað rétt í dag eru það í fyrsta lagi einræðisherrar í gömlum einræðisríkjum sem segja svona. Þeir kalla lýðræðissinnaða frelsisleiðtoga hryðjuverkamenn og vita sjálfir að þeir eru að ljúga. Þeim er bara orðið svo í blóð borið að halda að þeir eigi rétt á því að eigna sér heilar þjóðir.

Það voru líka sagðar fréttir í morgun og þar var sagt frá sænskum dýragarði sem settur var í gjaldþrot. Þar voru nokkrir krókódílar og það eitt virtist liggja fyrir að lóga þeim. Það þótti þó ekki nógu gott þar sem talið er að þessi tegund krókódíla sé í útrýmingrhættu. En viti menn; pólskur dýragarður ákvað að taka við þeim og þar með var það ákveðið. Það voru miklar serímoníur við flutningana og starfmenn dýragarðsins sýndu hugdirfsku sína við að koma krókódílunum í þar tilgerð búr. Lögregla þurfti að hafa umsjón með þessu og gefa út viðeigandi pappíra.

Þegar allt var klárt kvöddu menn og lögreglumaður tók í hendina á forstöðumanni flutningsins og sagði "Sjáumst síðar, krókódíll", eða öllu heldur See you later, aligater . Kannski var það sniðugt og það fékk mig alla vega til að fara út á netið og hlusta á þetta gamla lag. Þá sá ég einnig marga gamla kunningja sem voru í góðu gildi í útvarpi og hjá danshljómsveitum fyrir 50 og 60 árum og þaðan af meira. Það væri ekki vitlaust að taka stundir til að hlusta á þetta. Það komu líka upp í huga mér nöfn eins og Stebbi Jóns og Berti og fleiri flytjendur þessa tíma.

Já, svona geta ellilífeyrisþegar dinglað sér einn laugardagsmorgun. En ég gleymdi því ekki þrátt fyrir allt að ég hafði tekið ákvörðun í gærkvöldi. Ég ætlaði loksins að láta verða af því að skipta yfir á sumardekk. Þetta lítur ekki eins illa út og ætla mætti í fljótu bragði, utan að það er alveg hund leiðinlegt að skipta um hjól undir bílum. Ég er með ónegld vetrardekk og hef verið það í mörg ár og farnast vel. Það eru þrjár ástæður fyrir að ég dreg svo lengi að skipta yfir á sumardekk og þær eru eftirfarandi: Það er hundleiðinlegt að skipta um hjól undir bílum, ónegldu vetrarhjólin eru mun hljóðlátari en sumarhjólin og vetrarhjólin spara mikið eldsneyti.

Trúi þeir sem trúa vilja en svona er þetta bara og það segir að ég er með mjög góð vetrardekk. Nú er sem sagt búið að skipta um hjól undir bílnum og það hafði líka sínar afleiðingar. Ég blóðgaði mig, ég komst í þungt skap og eftir á var ég alveg ruglaður í því hvað ég ætlaði að gera eftir hjólaskiptin. Ég var lengi að komast í gang aftur og gerði það eiginlega ekki fyrr en eftir eftirmiðdagskaffið sem Valdís bauð upp á. En þá byrjaði líka að rjúka heldur betur úr skósólum mínum og nú að kvöldi er ég eiginlega aftur í þeirri stemmingu sem ég var í þegar ég var að hlusta á Desmond Tutu í morgun.

Valdís var með mér þegar ég skipti um hjólin og hún þvoði felgurnar þannig að nú eru vetrarhjólin komin í geymslu ungu nágranna sem hafa þrískiptan dekkarekka í geymslunni sinni. Á hægri enda rekkans eru dekkin undan rauða bílnum þeirra, á miðjunni eru hjólin undan ljósgráa bílnum þeirra og til vinstri er hvítur miði og á honum stendur stórum, skýrum stöfum: GUDJON. Þar eru dekkin okkar.

Eftir hjólaskiptin fór Valdís inn og bakaði tvær hrístertur, eitt form af hjónabandssælu og steikti svo kótilettur í helgarmatinn. Svona fer hún hamförum stundum þessi kona og þá rýkur líka undan skósólunum hennar. Smá tíma gaf hún sér til að lesa dagblaðið í góða stólnum á nýja útivistarsvæðinu. Ég hins vegar breytti mótororfinu úr sög í gríðarlega mikilvirkt sláttutæki og hóf að snyrta skógarbotninn næst húsinu. Þegar ég er þannig í návist við skóginn kemur svo mikið upp. Til dæmis að eiginlega ætti þetta tré nú að fara, já og hitt þarna líka, eða að það þurfi að hlúa að þessu trénu og hinu og svo framvegis.

Seinni partinn í dag horfði Valdís svolitla stund út í skóg og sagði að hann væri orðinn ótrúlega fallegur. Vel hirtur skógur, laufsklógur í fyrsta lagi, það er búin að vera stefnan í níu ár á Sólvöllum. Umhverfi sem gott er að vera í, þar sem hægt er að hafa fallega náttúru fyrir augað, laufþyt og fuglahljóð fyrir eyrað, gróðrar- og blómaylm fyrir lyktarskynið og friðsæld fyrir sálina. Það síðastnefnda er auðvitað það mikilvægasta af þessu öllu en hin hjálpa til með að ná þeim árangri.


*


Ég hef sagt að beyki sleppi ekki sólinni niður til jarðar. Hér er gott dæmi um laufskipan beykis. Þetta er bara ein grein og þar er mikið af blöðum sem eru lögð skipulega út til að beisla sólarsjósið. Þegar tréð svo verður stórt og svona laufþekjur eru orðnar í mörgum hæðum, þá sleppur ekki mikið gegnum það neðsta. Makalaus er náttúran.

 

Hvað í ósköpunum er nú þetta? Jú, þetta eru vaxtarsprotar á beyki. Þeir eru ótrúlega viðkvæmir vaxtasprotarnir á tré sem getur orðið 45 metra hátt. Það sem ég er að segja við þessar myndir er ég búinn að segja oft áður, en ég hef nú aldrei notað myndir við það fyrr held ég. Vaxtarsprotarnir eru ljósgrænir, algerlega jurtkenndir og eru líkir þessu græna sem getur lekið úr nefinu á kvefuðum börnum. Svo þegar liður á sumarið og sérstaklega að hausti, þá rétta þessir hangandi, viðkvæmu þræðir úr sér og taka stefnuna upp og út á við. Þá fyrst er hægt að sjá hvað tréð hefur stækkað undir vaxtatímanum. Hins vegar, þar sem ég er skógardellumaður, þá leyfi ég mér að mæla vöxtinn við og við og ég veit að vöxturinn í ár er gríðarlega mikill.

Þegar ég segi skógardellumaður, þá er ég að gera svolítið grín að sjálfum mér. Ég hef einfaldlega haft áhuga á skógi svo gott sem alla ævi og það er það sem málið snýst um.

 

Með tæplega hálfu höfðinu hef ég fylgst með talningunni frá söngvakeppninni. Ég vil bara segja það að þessi Marokkóættaða kona sem er fædd í Svíþjóð, uppalinn í Svíþjóð, sem hefur gengið í sænska skóla og þar með talinn tónlistarskóla og alls staðar fengið á sig gott orð, hún er verðugur fulltrúi þessa lands. Svo má heldur ekki gleyma því heldur að hún er klók.

 

Ps. Gaukurinn hefur af og til í dag sent út ástaróðinn sinn. Hann virðist vera að þreytast en ég bara vona að honum vegni vel. Hann er ekki alltaf aðlaðandi í háttum en hans einfalda o-ú er notalegt hljóð.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0