Allt í einu virðist það mesta vera orðið einfaldara

Það kom fram hér á netinu um daginn að Valdís gengi undir læknisrannsókn og þá er kannski best að segja aðeins frá því hvernig það mál stendur. Við vorum á háskólasjúkrahúsinu í Örebro í dag þar sem Valdís var í viðtali og þá var ekki lengur um að ræða ólíkar röntgenmyndatökur, þá var komið að því að fara að gera eitthvað. Það var læknir sem tók á móti okkur, kona sem virtist vera sú kærleiksfyllsta manneskja sem fyrirfinnst undir sólinni um þessar mundir. Hún útskýrði, sýndi myndir, spurði Valdísi spjörunum úr og sagði að það yrði ekki sagt neitt "líklega ekki" eða "kannski", það yrði ekkert sagt fyrr en hægt væri að segja já eða nei. Svo yfirgaf ég stofuna og hún gerði einhverjar athuganir á Valdísi og svo var hún send í blóðprufutöku og hjartalínurit hjá annarri konu sem mér skildist að hafi líka verði þessi umhyggjusama og kærleiksfulla manneskjan sem læknirinn var. Síðan á Valdís að koma aftur á þriðjudaginn kemur til frekari athugana.

Að eitthvað er farið að segja og gera breytti öllu í dag. Móttökurnar voru líka dásamlega góðar. Við vorum ekkert of lystug í morgun og um hádegið áður en við lögðum af stað, en eftir þetta gengum við greiðum skrefum á kaffiteríuna á jarðhæð hússins sem við vorum í, og fengum okkur kaffi og smurt brauð. Svo var málið hvort við hefðum nokkra matarlyst áður en ég færi á AA fund klukkan sjö, en okkur þótti samt rétt að borða. Svo þegar við vorum byrjuð að borða höfðum við dúndrandi matarlyst. Eitthvað jákvætt hafði hent.

Landið var vorlegt og óvenju fallegt þegar við vorum á leiðinni heim og við töluðum um breytingarnar sem hefðu orðið á ýmsum stöðum. Svo þegar við komum heim á Sólvelli ókum við mjög hægt veginn vestan við húsið og virtum fyrir okkur sveitasetrið okkar. Bjarkirnar eru mest áberandi laufgaðar enn sem komið er, og þó að þær séu orðnar all mikið laufgaðar eru þær aðeins komnar stutt á veg. Kraftaverk vorsins á langt í land ennþá áður en hið iðjagræna haf hefur tekið yfirhöndina. Það var gott að koma heim og ég ætlaði ekki að tíma að fara á AA fundinn.

Klukkan hálf tíu í fyrramálið ætlar Valdís að mæta á söngæfingu Hafðu það gott kórsins, en læknirinn sagði henni að lifa hreinlega eins og áður og vera til. Um helgina förum við svo til Stokkhólms og förum þá í leikhús, en miðana fengum við í jólagjöf frá Rósu og fjölskyldu. Á morgun verð ég eitthvað við vorverk en fyrst ætla ég að koma DVD spilaranum haganlega fyrir og tengja hann. Þá getum við farið að horfa á myndir sem Valgerður og fjölskylda gáfu mér í afmælisgjöf í fyrra mánuði ásamt fleiri myndum sem við eigum en höfum aldrei séð. Það eiga eftir að koma rigningardagar og eitthvað kaldari dagar og þá verður gott að hafa eitthvað efni til að horfa á, efni sem við veljum sjálf að sjá.

Þannig gengur nú lífið á Sólvöllum. Þegar við vorum á leiðinni heim eftir sjúkrahúsheimsóknina var 22 stiga hiti. Það var sumar að því leyti til. Nú er klukkan að verða tíu að kvöldi og hitinn er ein 13 stig. Það verður nú mikil útþensla í skóginum í nótt og spennandi verður að ganga milli glugganna í fyrramálið og gera fyrstu könnun á snemmsumri morgundagsins.

Valdís er búin að lesa þetta yfir og staðfesta að ég fari með rétt mál. Góðar stundir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0