Að fá sér hádegisblund

 
Myndin fyrir neðan er ekki af bestu gæðum enda tekin á þriggja ára gamla farsímann minn sem er búinn að dúsa í vösum mínum í margs konar veðrum og við öll möguleg verkefni, bæði í meðferð og byggingarvinnu.
 
Þeir sem geta sagt mér hvaða fólk er á þessari mynd geta fengið að verðlaunum að hitta Auði og Þóri við eitthvað gott tækifæri hér á Sólvöllum að sumri.
 
Ég lofaði í gær að koma til að losa búslóðina þeirra Auðar og Þóris af flutningabílnum klukkan níu í morgun. Svo kom ég tuttugu mínútur fyrir níu og þá var að heita má búið að tæma bílinn og stafla búslóðinni á stéttina. Mér fannst ég koma þarna eins og einhver auli sem hefði mætt allt of seint en málið var bara að flutningabíllinn mætti löngu áður en til stóð. Ég gat alla vega borið inn með þeim af stéttinni þegar bíllinn var farinn. Síðan buðu þau upp á "fíka"og þá tók ég myndina.
 
Svo fór ég í heimsókn til Valdísar. Hún vissi hvað ég hafði verið að gera og spurði því nánast um leið og ég kom inn hvort hjólin hefðu komið fyrst út úr gámnum. Hún spurði í gríni vegna þess að þegar við gengum frá okkar gámi til flutnings, þá settum við hjólin allra síðast í gáminn og það var varla hægt að loka honum. Svo ultu þau út úr honum um leið og gámurinn var opnaður upp í Svärdsjö í Dölunum. Þetta var vorið 1994 og þetta datt Valdísi í hug þar sem hún var stödd á sjúkrahúsinu í Örebro 19 árum seinna. Það var nú hreina batamerkið.
 
Það er í mörgu að snúast fyrir fólk sem liggur á sjúkrahúsi sá ég í morgun. Það er eins og Rósa segir að það er full vinna að vera á sjúkrahúsi. Starfsfólk kom og fór, kom til að athuga, til að koma með eitthvað, eða sækja, til að spyrja eftir einhverju, til að taka próf og svo má lengi telja. Það var ekki fyrr en seinni partinn í hádeginu sem það byrjaði að verða rólegt. Um eitt leytið sagði Valdís að nú yrði rólegt fram til hálf fimm og þá lagðist hún á hliðina og reyndi að hvílast. Fólki er þörf á hádegisblundinum þegar það vakið á hverjum morgni klukkan sex.
 
Það var meira um hjól. Nákvæmlega um leið og Valdís nefndi þetta með hjólin kom kona leiðandi hjól inn ganginn á sjúkrahúsinu og setti inn í geymslu. Það var nú hægt að kalla tilviljun. Ég get sagt frá annarri tilviljun. Per og Kristbjörg eru á ferðalagi í útlöndum. Per birti á facebook mynd af sér standandi við hliðina á bílaleigubílnum og ég hugsaði að þessa bíltegund hefði ég aldrei séð. Nokkrum mínútum eftir að ég skoðaði þetta kom ég út frá kaffihúsi í Örebro og var á hraðri ferð til Valdísar. En viti menn, nákvæmlega eins bíll stóð þarna fyrir framan mig og ég þekkti hann svo vel eftir myndinni. Aftan á honum stóð MINI. Nú hef ég séð tvo slíka.
 
En nú finn ég að ég er farinn að rugla og því er mál að linni. Góða nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0