Að hjálpa fjallkonunni minni

Ég sagði í gær að Valdís ætti að koma til athugunar á sjúkrahúsinu í Örebro í dag sem og varð. Við fórum frá Sólvöllum upp úr klukkan níu og um tíuleitið vorum við sótt á biðstofuna og svo fékk Valdís herbergi til að dvelja á meðan ýmsar athuganir voru gerðar. Svört kona, læknir, sem Valdís kunni mjög vel við tók hana að sér og með henni var ungur læknakandidat sem við hittum líka á föstudaginn var þegar Valdísi var bent á að heimsækja bráðamóttökuna.
 
Nú fer þetta sem ég er að segja að líta all alvarlega út. En málið er að Valdísi hefur verið þungt, allt of þungt, sérstaklega fyrst á morgnana, en þegar líður á kvöldið hefur hún alltaf orðið nokkuð skárri. Því fór hún á bráðamólttökuna á föstudaginn var og þessi heimsókn í dag var framhald á sama máli sem endaði með að hún var lögð inn. Það voru tekin próf og gerð almenn læknisskoðun og það var líka tekin röntgenmynd. Niðurstaðan er að hún hefur vatn í öðru lunganu og það er einhver bólga í lunga líka. Súrefnismagn í blóði er ekki nægjanlegt heldur.
 
Nú er ekki verið að tala um krabbamein, heldur á að ganga í að hjálpa henni til að losna við þessi tvö atriði og að bæta almenna heilsu hennar. Það á líka að fara skipulega yfir öll lyf og trúlega að breyta einhverju. Mér létti þegar farið var að tala um innlögn þar sem mér fannst að það væri tími til kominn að hlú að Valdísi á faglegan hátt og ég verð að segja að vatn í lunga er nokkuð sem ég hef haft á tilfinningunni lengi. Henni varð hins vegar nokkuð um þetta en svo hringdi ég í hana tveimur tímum eftir að ég yfirgaf sjúkrahúsið, og þá var komið hið besta hljóð í hana. Þá var hún var búin að borða og hún fékk súrefni. Við vorum búin að sitja á fyrrnefndu herbergi og um tíma á kaffiteríu á jarðhæð frá klukkan tíu að morgni til að verða fjögur. Hún var orðin þreytt.
 
Þannig er það nú með fjallkonuna mína. Ég geri mér virkilega vonir um að hún komi heim sem ný manneskja eftir þetta. Valdís sagði um unga svarta lækninn að hún væri svo stolt af þessari stelpu, svona ung og orðin læknir og svona fín og góð sem hún væri. Ég tek svo sannarlega undir þetta með Valdísi. Þessi manneskja var svo hlý í framkomu, nærgætin og traustvekjandi. Valdís sagði ekki við hana að hún væri stolt hennar vegna en hún er viss með að lauma því að henni seinna. Það er mikið fengið fyrir sjúkling að fá að njóta hjálpar læknis með þessa eiginleika.
 
Það var búið að biðja mig að vinna á morgun en eins og útlitið var hefði það ekki komið til greina. En þegar innlögnin var ákveðin ákvað ég að gera það. Nú er ég að sjóða saltkjötið sem við vorum búin að avvatna og ætluðum að borða í kvöld. Svo borða ég saltkjöt og set svo afganginn í frysti. Það verður nú best þannig.
 
Og eitt enn; þriðji dagurinn án kaffis er liðinn. Ekkert vandamál en betri heilsa. Meira um það mál seinna.


Kommentarer
b

Gangi ykkur allt vel kæri mágur minn.Góða nótt.

Svar: Góða nótt.
Gudjon

2013-03-20 @ 21:47:11
Jenný Ragnarsdóttir

Ég sendi ykkur innilega baráttustrauma elsku Guðjón mínn.Viltu knúsa hetjuna frá mér.Ég bið Guð og alla góda engla að vaka yfir ykkur! Kveðja Didda

2013-03-21 @ 04:09:54


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0