Á morgun kemur Hannes að heimsækja ömmu

 
Valdís hringdi í mig klukkan rúmlega átta í morgun og sagði að nóttin hefði verið erfið og hún væri mjög þreytt. Það var líka auðheyrt á henni. Ég fann sárlega til með henni og fékk líka samviskubit yfir því hversu gott ég í sjálfu sér hafði það hér heima. Ég spurði hvort ég ætti ekki að koma strax. Það vildi hún alls ekki og sagði ákveðin að hún væri búin að fá morgunverð og lyfin sín og nú vildi hún geta hvílt sig í friði. Svo var ekki meira með það og hálf hnípinn undirbjó ég morgunverð minn. Síðan fór ég út á Bjarg að vinna.
 
Um tíu leytið gat ég ekki beðið lengur og hringdi ég til hennar og þá var allt mikið betra. Síðan hringdi hún upp úr klukkan ellefu og bað mig að færa sér smávegis héðan að heiman þegar ég kæmi. Ég spurði hana hvort ég ætti ekki að koma strax með þetta en hún sagðist bráðum fá matinn sinn og eftir það vildi hún fá rólega stund til hvíldar. Ég skyldi ekki koma fyrr en pósturinn væri kominn því að það væru blöð í póstinum sem hún vildi fá til að lesa. Ég var þá enn að vinna á Bjargi. Á miðvikudögum kemur pósturinn seint þannig að ég fór að sama skapi seint af stað.
 
Þegar ég kom til Valdísar var kona í heimsókn hjá henni. Valdís sat hin hressasta á rúmstokknum og leit vel út. Mér létti. Valdís var eiginlega ótrúlega hress miðað við það hvernig hún lýsti nóttinni. Það hafði verið aukið við súrefnið aftur, en það hafði verið minnkað niður í einn fjórða af því sem hún fékk þegar hún lagðist inn fyrir viku. Það var einnig reynt að rétta til nokkur önnur atriði. Það var í dag eins og venjulega að þegar klukkan var orðin margt var eins og það væri synd að þurfa að fara.
 
En Valdís er hvergi bangin og segir að það sé allt í lagi með sig. Hún ætli kannsi að horfa eitthvað á sjónvarp og svo ætli hún bara að fara að sofa. Þannig er það á venjulegu kvöldi hjá henni. Meðan ég var að skrifa þetta hringdi hún til að segja góða nótt. Þá var vinkona hennar búin að hringja til hennar og tala um að hún kæmi í heimsókn fyrir hádegi á morgun. Stundum, sérstaklega þegar ég er ekki hjá Valdísi, getur þetta allt verið svo sorglegt. Svo þegar ég sé hana áhugasama og hressa getur allt orðið svo uppörvandi. Sú sterka trú sem hún hefur á batanum flestum stundum hlýtur að vera besta leiðin til bata. Þannig og með mörgu öðru ívafi getur dagur liðið hjá okkur Sólvallafólki.
 
Á morgun kemur Hannes Guðjón með fjölskyldu sína í heimsókn. Mér finnst skemmtilegt að segja það á þennan hátt. Ég hlakka til að sjá hann ganga að rúmi ömmu sinnar og heilsa henni, að sjá við brögð þeirra beggja. Í hinum ósýnilegu tengslum ömmu og barnsins felst líka mikill lækningamáttur. Tíu dögum eftir að Hannes og fjölskylda fara kemur svo Valgerður. Svo fer vorið að koma á sinn heillandi hátt með möguleika á að sitja utandyra, fylgjast með öllu því lífi sem þá kviknar og draga ferskt lífsloftið niður í þurfandi lungu. Það er enn eitt atriðið í bataferlinu.


Kommentarer
Björkin.

Alltaf gott sð lesa bloggið þitt kæri mágur minn.Góða nótt.

Svar: Góða nótt mágkona og svili
Gudjon

2013-03-27 @ 22:34:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0