Þannig er staða Sólvallafólks á þessu kvöldi

Klukkan hálf fjögur í nótt vaknaði ég og það fyrsta sem ég hugsaði var að það væri alveg galið af mér að ætla að fara að vinna í dag. Ég ætti að vera heima og ég ætti að vera meira hjá Valdísi í staðinn fyrir að vera langt austur í Södermanland stærstan hluta dagsins. Mér fannst ég mundi ekkert sofna meira. Þessar vangaveltur minnkuðu svo og ullu að lokum ekki beinlínis hugarangri. Svo sofnaði ég. Eða svo skrýtið sem það nú var, þá gat ég ekki fundið að ég sofnaði aftur en þegar klukkan hringdi hálf sex áttaði ég mig á því að ég hafði steinsofnað.
 
Klukkan hálf sjö, rétt áður en ég fór af stað í vinnu, hringdi Valdís. Við höfðum samið um það að hún mundi hringja að morgni strax þegar henni gæfist kostur á að tala í síma. Ég sagði henni frá því sem ég hefði verið að velta fyrir mér í hálfgerðum óraunveruleika næturinnar. Ég ætti að dvelja hjá henni á sjukrahúsinu í dag. Hún svaraði undrandi og með einföldum orðum; og hvað ættirðu svo sem að gera hér? Hún er stundum svo fullkomlega raunsæ og þá segir hún það í stuttu máli.
 
Við vorum þrír ellilífeyrisþegar ásamt tveimur hjúkrunarfræðingum sem sáum um húsið í Vornesi í dag. Annað starfslið var á námskeiði í nokkurra kílómetra fjarlægð. Frekar var ég lágur við komuna í Vornes en það rættist fljótlega úr mér og svo leið dagurinn með fljúgandi hraða. Við hringdum svolítið til skiptis hvort í annað og þegar ég var hálfnaður á leiðinni heim hringdi Valdís og sagði að hún hefði fengið að heyra svolítið um sneiðmyndatöku sem gerð var um hádegi í dag. Það var blóðtappi í lunganu og blóðtappar i lungum valda öndunarerfiðleikum.
 
Ég vissi ekki alveg hvað þetta þýddi en alla vega átti Valdís að fá sprutu nú í kvöld, og líklega marga daga áfram, sem eiga að leysa upp blóðtappann. Mér létti þá mjög mikið að heyra þetta og eitthvað það fyrsta sem mér datt í hug var að það yrði sólskin á Sólvöllum í sumar. Það mátti segja að ég hafi hugsað þarna á sléttlendisvegunum umhverfis Óðinsbakka að það væri skammt á milli tára sorgarinnar og kvíðans annars vegar og tára feginleikans og vonarinnar hins vegar. Og það besta var að að tár feginleikans og vonarinnar komu á eftir hinu. Sem sagt, sólskin á Sólvöllum í sumar.
 
Svo heimsótti ég Valdísi strax eftir að ég hafði farið heim og sótt smávegis sem hún vildi hafa hjá sér á stofunni. Mér fannst hún líta betur út en hún gerði í gær og allt yfirbragð vera léttara og líkara Valdísi eins og hún var fyrir erfiðleikana sem hún hefur gengið í gegnum. Sjúkdómurinn krabbamein var ekki með í umræðunni í dag og verður ekki fyrr við stofugang á morgun. En bara að losna við vatn og blóðtappa úr lungum er mikið spor í rétta átt. Hún Eva sem ég hef stundum talað um kom líka í heimsókn til hennar og á morgun ætlar Annelie  að koma í heimsókn. Svo ætla ég að vera þar meira en í dag. Það getur verið gott að koma og skreppa svo frá og koma svo aftur.
 
Þannig er staða Sólvallafólks á þessu kvöldi.


Kommentarer
Þóra Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón gott að það er búið að finna hvað olli þessari mæði hjá Valdísi og vonandi gengur vel að eyða blóðtappanum hja henni ,hún er og hefur alltaf verið dugleg og vonandi eigið þið gott sumar í ykar falega húsi í skóginum fagra , sendi henni góða strauma, batakveðjur til hennar .
Þóra H B

Svar: Þakka þér fyrir þóra. Valdís biður lík að heilsa öllum sem senda henni þessar góðu kveðjur.
Gudjon

2013-03-21 @ 23:51:44
Auja

Kæru vinir sjáumst um helgina

Svar: Já Auður, Eva kom til Valdísar í gær meðan ég var þar. Valdís spurði hana strax eftir ykkur. Henni þykir mikið vænt um ykkur og hlakkar til að hitta ykkur.
Gudjon

2013-03-22 @ 00:12:42
Sóley Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón .
Ég er voða lot að fara á feisið,en það kemur fyrir.
Ég var að lesa bloggið frá þér og þau eru alver einstök eins og þið Valdís eruð.Það féllu nokkur tár niður kinnar við að lesa þetta.Vona að allir vættir vaki yfir Valdísi og stirki hana í gegnum þetta allt.Veit að hún er sterk kona og kemst það sem hún ætlar sé.Sendi ykkur baráttu kveðjur og gangi ykkur vel í öllu þessu:Vorið er á næsta leyti og það er gott að hafa sól í hjarta.
Kæri Guðjón Hafið það sem allra best.
Gleðilega páska:) Skylaðu baráttu kveðju til Valdísar:
Kveðja Sóley Bj

Svar: Þakka þér fyrir Sóley og okkar bestu kveðjur til baka til ykkar.
Gudjon

2013-03-26 @ 13:37:57


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0