Búinn að vera hljóður lengi

Mér stendur varla orðið á sama hvað ég er búinn að vera hljóður lengi. Ég fer að halda að það sé eitthvað að. Það eru fimm dagar frá síðasta bloggi en ég get ekki sagt að það sé neitt sem kemur í veg fyrir bloggandi en að það hefur verið heilmikið annríki. En nú er komið föstudagskvöld, gangur mála í vikunni hér á Sólvöllum er samkvæmt áætlun, ég er ný kominn úr sturtu og búinn að borða steikt lambakjöt hjá Valdísi. Hún er búin að horfa á spurningaþátt í léttum dúr eftir kvöldmatinn og er nú að horfa á Skavlan. Heilsa hennar er ekkert sem ég mundi sjálfur vera ánægður með en henni tekst flestum stundum að gera ótrúlega gott úr því sem henni er gefið þessar vikurnar. Ég mundi glaður gefa henni eitthvað af heislu minni ef slíkt væri á mínu færi en tilveran býður ekki upp á slíkann möguleika. Ég get hins vegar verið til staðar og gert mitt besta í að vera þokkalegur maður. Ég vona að ég standi mig sæmilega í því hlutverki, kannski nokkuð vel.
 
Ég sagði að það væri búið að vera annríki í vikunni. Um síðustu helgi, og á mánudag og þriðjudag, hamaðist ég við að undirbúa komu hans Lennarts, smiðs og nágranna, sem ætlaði að koma á miðvikudag til hjálpa mér á Bjargi. Svo gat hann ekki komið á miðvikudag og mikið var ég feginn því að ég var nefnilega ekki tilbúinn.
 
Svo kom Lennart á fimmtudag klukkan tíu, í gær, og þá varð nú handagangur í öskjunni. Svo hætti hann rétt fyrir klukkan fjögur og rétt áður en hann fór spurði ég Valdísi hvort hún vildi ekki koma og heimsækja okkur. Þá var Bjarg orðinn óþekkjanlegur staður. Það var kominn krossviður á veggi og mynd á herbergið þar. Valdís bar lof á dugnað okkar og ég held satt best að segja að hún hafi orðið svolítið hissa á árangrinum af þessum klukkutímum. Ég reyndi að vera búinn að undirbúa þetta verk vel og svo geri ég jafnan þegar einhver kemur til að aðstoða mig. Þá skilar hjálpin góðum árangri.
 
Það sést á Valdís að gærdagurinn var ekki hennar dagur. Þannig er það að inn á milli koma dagar sem eru erfiðari en aðrir dagar. Dagurinn í dag er mikið betri dagur. Næst þarf ég að taka mynd af henni á einhverjum af þessum betri dögum og birta á öðru bloggi á nýjum degi.
 
Á þessari mynd eru þau svo langt í burtu, Valdís og Lennart, en herbergið sést líka betur. Glugginn vísar móti vestri og sé setið við skrifborð við þennan glugga er útsýnið móti Kilsbergen. Útsýnið þarna er fallegra en frá íbúðarhúsinu, það er alveg stórkostlegt útsýnið frá aðalglugganum á Bjargi.
 
Svo er hér mynd í gagnstæða átt, móti skóginum. Það er eftir að saga krossviðinn frá glugganum sem er á veggnum beint yfir ofninum. Þessi krossviður lyktar sterkt þegar búið er að breiða hann út um alla veggi, en ég ætla að viðra vel út um helgina. Eftir helgina ætlum við Lennart svo að klæða krossviðinn með gipsplötum. Gipsplöturnar hafa líka þann eiginleika, eins og allir vita sem hafa unnið með þær, að þær gera húsnæði svo notalegt þegar þær þekja veggina. Við ætlum líka að klæða loftin með gipsplötum í næstu viku.
 
Lennart er ellilífeyrisþegi eins og fleiri hér í sveitinni. Hann býr í svo sem þrjú hundruð metra fjarlægð frá okkur. Ég hef sagt það áður og get sagt það einu sinni enn að þessi maður er ljúfmenni og vill öllum mjög vel. Hann lítur hér við öðru hvoru þó ekki sé til annars en að óska okkur góðs gengis. Svo hefur hann líka komið okkur á bragðið með týtuberjasultu, lingonsultu. Lyngið er líka kallað rauðberjalyng á Íslandi. Bæði höfum við smakkað týtuberjasultu áður, en þegar Lennart og konan hans, Anny, koma með krukkur af þessari sultu og gefa okkur, þá er sannarlega hægt að segja að það sé farið að nota hana á Sólvöllum. Við vitum um týtuberjaengi hér í nágrenninu. Þangað er ferðinni heitið að hausti. Týtuberjasulta hefur einn stóran galla; þegar maður er kominn á bragðið er öll önnur sulta frekar bragðdauf nema þá helst rabbabarasultan.
 
Að lokum. Á miðvikudagseftirmiðdag leit svona út á Bjargi. Nú er næstum vandratað milli salakynnanna þar.
 
Skýrslugerð er hér með lokið þennan annan föstudag í mars.


Kommentarer
Björkin.

Duglegur mágur minn.Stórt knús frá okkur til ykkar.

Svar: Dugleg þú að kommentera mágkona, þakka þér fyrir það. Nú ætlum við að nota sólskinið og skreppa í Marieberg, kaupa matarkorn og kannski fá okkur tertubita með tesopa eða kakói.
Kveðja fá sólríkum Sólvöllum.
Gudjon

2013-03-10 @ 15:04:41


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0