Ég sakna ömmu

Upp úr klukkan eitt í dag kom Hannes Guðjón med sitt fólk á járnbrautarstöðina í Örebro. Í þetta skipti fóru þau úr lestinni í Örebro vegna þess að við ætluðum öll að heimsækja Valdísi á sjúkrahúsið. Nokkuð brá drengnum þegar hann sá ömmu sína þarna, en svo settist hann á rúmstokkinn hjá henni og þau léku saman á lítið hljóðfæri sem hún gaf honum. Lítið hljómborð eða orgel eða hvað ég á nú að kalla það. Svo var það bara voða gaman, ekki síst fyrir ömmuna sem hafði hlakkað mikið til að sjá litla drenginn sinn.
 
Eftir heimsókina til ömmu, léttan hádegisverð og heimsókn til ömmu aftur, fórum við áleiðis til Marieberg til að gera innkaup. Á leiðinni niður hraðbrautina sagði Hannes allt í einu; ég sakna ömmu. Svo var ekkert meira um það en það voru fleiri þarna á ferð sem söknuðu ömmu.
 
Þegar við komum að stóru verslunarmiðstöðinni í Marieberg sleppti ég þeim út úr bílnum við annan endann á húsinu og reiknaði með að þau björguðu sér sjálf gegnum allt það hús og inn í stóran matvörumarkað við hinn endann þar sem við ætluðum að hittast. Þetta var að vísu tilraun til að vera fyndinn, en þarna eru þau sem á heimavelli. Það er Valgerður einnig eftir sínar heimsóknir til okkar bæði í Örebro og á Sólvöllum. Mér varð eitthvað hugsað til þess í dag og aftur núna þegar ég er að skrifa þetta, að mikið var það langt frá öllum hugmyndum að þetta gæti orðið okkar heimavöllur þegar Rósa og Pétur fluttu út síðsumars 1993. Við horfðum á eftir þeim hverfa út í órafjarlægðina þegar þau fóru en rúmlega hálfu ári síðar fetuðum við í fótspor þeirra.
 
Þegar við komum á Sólvelli var það eins og venjulega að Hannes vissi hvar hlutina var að finna. Á Sólvöllum er hann á heimavelli. Við erum búin að tala við Valdísi nokkrum sinnum síðan við fórum frá henni í dag og núna rétt áðan hringdi hún, nokkuð hress, og sagðist ætla að fara að sofa. Þá var hún búin að horfa á Antikrundan í sjónvarpi, þátt um gamla muni, uppruna þeirra og verðgildi. Diskur einn, málaður af löngu liðnum listsamanni, var virtur á einar níu miljónir íslenskra króna. Það væri ekki ónýtt að borða saltkjöt af þeim diski.
 
Það er hljótt á Sólvöllum og Hannes, sem talaði mikið við mömmu sína inni í rúmi rétt áðan, er hættur að tala og væntanlega komin á vit draumanna. Það eina sem heyrist er uppþvottavélin sem skvettir vatni taktfast og án afláts. Ég vona að Valdís njóti þess að vera í sínu draumalandi og geti sagt í fyrramálið eins og hún sagði í morgun: Mikið svaf ég vel í nótt. Svo þegar hún fór að hreyfa sig tók mæðin við. Við vonum allt það besta fyrir hennar hönd og að hún verði minna móð í fyrramálið.


Kommentarer
Björkin.

Það vantar mikið á Sólvelli þegar ömmu vantar.Knús á ykkur öll.

Svar: Já, það vantar mikið.
Gudjon

2013-03-28 @ 23:32:09


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0