Frá liðinni tíð

Ég var að leita að ákveðinni mynd í dag, settist nokkrum sinnum við tölvuna og renndi í gegnum næstum endalaust myndasafn. Ekki fann ég myndina en ég fanna margar aðrar myndir og eins og ég hef sagt áður þá eru myndirnar heilmikil dagbók þó að bloggið sé auðvitað mikið betri dagbók. Ég gældi við það hverju myndir voru tengdar og það var býsna skemmtilegt.
 
Þessi mynd er að vísu frá því um hádegi í dag. Eigum við ekki að hengja þvottinn út núna, sagði Valdís. Ég dró úr því og sagði að það blési of mikið. En Valdís gaf sig ekki og að lokum fórum við bæði út á snúru til að hengja upp þvott. Svo var alls ekki neinn vindur og allra síst í skjólinu á bakvið húsið. Þegar við vorum á leiðinni inn sagði Valdís að þetta yrði að vera svona í þetta skiptið og hún benti á köflóttu skyrtuna mína. Maður setur aldrei þrjár klemmur á skyrtu. Þá veit ég það. Ég get vel hengt upp á snúru en ég fer ekki alltaf troðnar slóðir í þeim efnum og stundum snúa flíkurnar öfugt, upp eða niður eða ósmekklega. Svona maður er ég. Það mundu margir aðrir en Valdís hlæja að aðferðinni minni.
 
Á Valborgarmessu söng Korianderkórinn hennar Valdísar alltaf á ákveðnu íþróttasvæði. Valdís er þarna næstum lengst til hægri. Þegar kórinn var búinn að syngja hélt einhver þingmanna héraðsins ræðu og eftir það var kveikt í heil miklum hríshaug. Haugurinn var fyrir aftan mig þar sem ég var þegar ég tók myndina. Það var pínu hátíðalykt af mörgum og eftir þetta hélt fólk á braut í smá flokkum, spjallandi um daginn og veginn, og margir bættu aðeins á lyktina þegar leið á kvöldið. Grilluðu gjarnan líka. Svíar fara gjarnan einfalda leið þegar þeir halda upp á vissa daga sem haldið hefur verið upp á í áratugi eða aldir. Aðrir tyllidagar eru heiðraðir með aldagömlum hefðum.
 
En hrísið hefur oftast verið afgreitt á annan hátt hjá okkur á Sólvöllum en gert var á Valborgarmessuhátíðinni. Stundum höfum við brennt það, en oftar malað það eins og Valdís er að gera þarna. Svo er ég enn að fylla gryfju út í skógi og það hlýtur að vera orðinn mjög góður jarðvegur neðst í þeirri gryfju. Afrakstrinum eftir mölunina höfum við stráð í gönguleiðir til að jafna þær og til að skila sem mestu út í skóginn aftur. Þessi mynd er frá 2006.
 
Þessi mynd er líka frá vorinu 2006, frá 1. maí og sýnir hvernig við héldum upp á dag verkalýðsins. Þarna vorum við rétt búin að ganga frá viðnum sem sagaður var úr trjám úr skóginum okkar og svo byggðum við fyrstu bygginguna okkar úr þessum viði.
 
En það eru ekki allar myndir af vinnu og púli á Sólvöllum. Þessi er frá í hitteðfyrra þegar Valgerður var á ferðinni í Stokkhólmi. Hún er tekin á leikvelli þar sem Hannes hefur haft margt fyrir stafni og meðal annar skipstjórn eins og sjá má á myndinni.
 
Í júlí 2011 kom Guðdís í heimsókn til að gleðja ömmu og afa. Þessi mynd er tekin í Sveppinum í Örebro, en sveppurinn er vatnsforðabúr borgarinnar og þar er veitingahús með frábæru útsýni. Guðdís var góð við ömmu og afa. Svo fór hún héðan til Noregs að vinna, en Kristinn dóttursonur og konan hans komu og sóttu hana hingað.
 
Það var í þá daga þegar við Valdís vorum unglingar. Það var 1994 sem Kristinn dóttursonur kom til Svíþjóðar. Hann varð ellefu ára í Stokkhólmi hjá Rósu og Pétri. Daginn eftir kom hann svo einn með lest upp til Svärdsjö í Dölunum, en þá bjuggum við Valdís þar og ég vann í Svartnesi. Það sumar var lífið mikið ævintýri og allt var nýtt og lífið ólgaði í æðum. Þetta sumar kom mamma líka í heimsókn og það var mikið heitt þetta sumar einhver mesti eða mesti samfelldi hiti í margar vikur. Rósa og Pétur heimsóttu okkur nokkrum sinnum meðan við bjuggum þarna.
 
Það eru um 15500 myndir sem þarf að fara í gegnum og henda meiri hlutanum af þeim. Það eru margar myndir af því sama og svo þarf bara að velja bestu myndirnar til að eiga áfram. Kannski er líka hægt að koma meiri röð og reglu á þær. Ég var orðinn hálf ringlaður við leitina áðan og tölvan bað um að fá að hvílast. Hún bað um að fá að hvílast í fimm mínútur og trúi þeir sem trúa vilja, en þetta er alveg dagsatt.
 
 *
 
Ég minni svo einu sinni enn á Vasagönguna sem hefst klukkan átta í fyrramálið, klukkan sjö að íslenskum tíma. Myndin fyrir neðan er af hluta þeirra rúmlega 15000 þátttakenda sem eru að leggja af stað í 90 km gönguna fyrir nokkrum árum.
 
 


Kommentarer
Dísa gamli nágranni

Gaman að sjá þessar gömlu myndir.
Við erum komin heim frá Hveragerði og erum aftur farin að kíkja á fésið og bloggið þitt Guðjón.
Kærar kveðjur til ykkar.

2013-03-06 @ 22:51:18
Guðjón

Takk Dísa. Þú ert svo velkomin heim og á bloggið mitt.

Með bestu kveðju til ykkar Ottós frá Valdísi og Guðjóni.

2013-03-07 @ 07:08:26
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0