Gestkvæmt hjá Valdísi

Ég er í einhverjum vandræðum með að skrifa fyrstu orðin en samt vil ég komast í gang. Af gamalli reynslu veit ég að ef ég byrja þá bjargast ég út úr vandræðunum. Því er ég nú byrjaður og get sagt að það er all hart vetrarveður hér ennþá. Það er með ólikindum hvað þetta vor er skrýtið. Venjulega er frost allan sólarhringinn en þó sýnu meira á nóttunni. Núna klukkan tíu er til dæmis ellefu stiga frost. Ég ætla ekki að tala um neitt í manna minnum en ég get sagt að þetta er kaldasta vor síðan við komum til Svíþjóðar. Hér er talað um vorvetur og sá er tíminn núna, en þessi vorvetur er kaldur og það er hjarn á mest allri jörð.
 
Ég var í margs konar sýsli hér heima á Sólvöllum í morgun og var í símasambandi við Valdísi. Hjá henni var þá Annelie sem ég nefndi í blogginu í gær. Sú fór þaðan einhvern tíma um hádegi. Þegar ég var svo að verða tilbúinn að fara af stað, seinna en ég ætlaði, hringdi síminn og á línunni var ungur maður, sölumaður hjá tryggingarfélagi, og hann vildi ræða einhvern "díl" við mig. Mér var aðeins eitt í huga, ég vildi fara að komast af stað og vera í friði, en vildi þó ekki segja manninum að halda sér saman og leggja svo á. Mig langaði samt að gera það og losna þannig við orðaræpuna. Hann vann þó alla vega hjá tryggingarfélaginu sem ég skipti við og ég er heldur ekki vanur að koma þannig fram við fólk. Ég fékk hann þó til að þagna og ég losnaði við hann með góðu. Svo komst ég af stað til Örebro.
 
Eftir viðkomu á tveimur stöðum komst ég loksins til Valdísar með peysu og inniskó. Hún sat uppi með súrefnisslönguna í nefinu og horfði á sjónvarp frá skíðasvæðinu í Falun. Þar þekkir hún sig og það er nú með hana eins og mig að Dalirnir heilla alltaf. Mér fannst hún í meðallagi hress, ekki hressari en í gærkvöldi þegar ég yfirgaf hana. Tveir læknar heimsóttu hana í dag og niðurstaðan var sú að það sem ég sagði í blogginu í gær var nokkuð rétt, en þó er líklega ekkert vatn í neinu lunga. Hún er í lyfjameðferð vegna blóðtappans og og sú meðferð er ekki farin að skila árangri ennþá, en það er víst samkvæmt því sem búast má við. Ég veit ekki hvort hún getur farið að finna mun um helgina eða eitthvað seinna. Heilt yfir held ég að það sé hlúð mjög vel að henni og það er jafnt og þétt er fylgst með ýmsu og það gefur öryggistilfinningu.
 
Tíminn leið og fyrst fékk Valdís sinn kvöldmat og svo varð ég svangur. Ég ætlaði á stærstu kaffiteríuna á spítalanum sem ég hélt að væri opin langt frameftir og fá mér þar brauðsneið með miklu áleggi. En viti menn, hún var lokuð. Ég varð hálf fúll og það hvarflaði að mér að snúa við, en ég fann á mér að þá yrði ég ennþá svengri, óánægður og dómharður. Ég gekk því áfram inn í bæinn og kom að versluninni Hemköp þar sem ég vissi að væri kaffitería. Þar valdi ég brauðsneið með "miklu áleggi" og svo saddi ég hungrið.
 
Þar sem ég var á hraðri, skaftfellskri göngu á leið til baka hringdi Valdís. Heyrðu Guðjón, sagði hún, Auður, Þórir og Eva eru hérna. Það hafði þá gengið eftir sem mig grunaði að Auður og Þórir mundu koma nánast beint úr lestinni í heimsókn til Valdísar og auðvitað kom Eva með þeim. Hún er þannig hún Eva að hlýjan geislar út frá henni og þannig eru Auður og Þórir líka. Þess vegna hlakkaði Valdísi mikið til að þau kæmu. Þau komu frá Íslandi í dag og eru að flytja til Örebro. Þórir, okkar gamli heilsugæslulæknir á Dalvík er orðinn læknir í Örebro. Það eru að vísu ekki fyrstu skrefin hans sem læknir hér. Við hittum þau hjón í fyrsta skipti á íslensku jólaballi í Örebro fyrir einum átta eða níu árum. Þá höfðum við ekki séð Þóri í fjölda ára og höfðum ekki hugmynd um að hann væri starfandi hér.
 
Valdís hresstist mikið við þessa heimsókn og þegar þau hin voru farin talaði hún mikið um hvað það hefði verið gott að hitta þetta fólk. Nú líkaði mér við allt útlit hennar, hreyfingar, stellingu og áhuga á hlutum. En hún var þó oðrin þreytt. Síðustu orð þóris áður en hann hvarf fyrir horn voru að góður svefn væri besta lækningin. Ég held líka að það hafi verið mikil lækning fólgin í þessari heimsókn og ég veit að Valdís lagði sig óvenju snemma og ég er viss um að hún var ákveðin í því að sofa vel í nótt. Þegar ég yfirgaf hana um hálf sjö leytið var hún að vísu þreytt, en samt var útlit hennar orðið mikið betra en þegar ég kom fyrr um daginn.
 
Frostið er nú tólf til þrettán stig en ég vona samt að þegar Valdís losnar af sjúkrahúsinu verði orðið svo hlýtt að hún geti farið að sitja úti og anda að sér vorveðrinu. Það verður mikil lækning í því líka.


Kommentarer
Eva

Godan daginn vinir! Vona ad thid hafid sofid vel baedi tvö. Hvilikt fallegur dagur i dag:) hef samt ekki athugad hitamaelinn i dag. Skötuhjuin eru enn ad kura, eru örugglega threytt eftir langan ferdadag i gaer. En bradum verdur allt à fullu, thid vitid hvernig Auja er:))) Eigid godan dag elsku vinir!!!! Vid sjaumst fljotlega.

Svar: Takk fyrir orðin þín Eva mín, bið að heilsa gestunum þínum.
Gudjon

2013-03-23 @ 08:43:32
Björkin.

Elsku hjón.Hlýjar kveðjur frá Hveragerði.

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-03-23 @ 12:09:14


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0