Bjartsýni

Klukkan var hálf sjö í morgun þegar afi fór fram á bað og heyrði barnsrödd frá herberginu í hinum enda hússins. Andartaki seinna heyrðist líka fótatak frá þessu herbergi, fótatak sem sagði tipp-tipp-tipp. Hann Hannes er nefnilega léttur á fæti og hann læddist ekki beinlínis þegar hann var að athuga hvort afi væri kominn á kreik. Svo kveikti afi upp í kamínunni en Hannes og pabbi hans byggðu þyrlu úr legókubbum. Síðan rifu þeir þyrluna sundur, stykki fyrir stykki og byggðu svo svifnökkva úr sömu legókubbum. Legókubbar eru nefnilega mestu galdraverk. Svo borðuðum við öll morgunverð.
 
Þegar aðeins var farið að líða á morguninn, klukkan var orðin hálf níu, var ég farinn að velta fyrir mér að Valdís væri ekki farin að hringja. Það var orðið seinna en venjulega, en í upphafi sjúkrahúsvistar hennar sömdum við um það að hún hringdi á morgnana svo að ég truflaði ekki með hringingum ýmis rútínuverk sem fara fram á sjúkrahúsinu á morgnana. Svo tifaði klukkan áfram en loks hringdi síminn og það var Valdís. Röddin var glimrandi hress og hún sagðist hafa sofið vel í nótt. Mér létti og mér fannst ég ekki hafa heyrt hana svo hressa afar lengi. Hún hafði líka sofið vel í fyrrinótt en morguninn þá var henni erfiður og var það langt fram eftir degi.
 
Við töluðum oftar saman í síma í dag og hún hélt áfram að vera hress og hún sagði einnig að hún hefði ekki orðið líkt því eins móð við að fara fram á baðið um morgunin eins og hún hafði orðið svo marga morgna áður. Svo komum við Rósa til hennar um klukkan þrjú og þá sat hún í hægindastól, sat í góðri stellingu og leit með reisn á móti okkur, en hún var leið vegna þess að hún hafði farið að velta fyrir sér hlutum sem við fáum ekki breytt. En slíkt skeður líka öðru hvoru hjá okkur öllum hinum, við komumst ekki undan því. Þegar við þrjú höfðum talað saman um stund varð bjartara yfir henni og innan skamms varð hún hressari og með meiri reisn en hún hafði verið lengi. Það fannst mikil gleði í því að fylgjast með henni og finna fyrir þeirri vissu að nú væri meðferðin á blóðtappanum að byrja að skila árangri, eða þannig virkaði þetta á mig.
 
Frammi í eldhúsi er nú rúgbrauðsdeig í fimm mjólkurfernum sem Rósa dreif í að útbúa eftir kvöldmatinn. Þessi uppskrift fannst í svörtu uppskriftabókinni hennar Valdísar og áður en við Rósa fórum frá henni í dag gaf hún okkur góð ráð varðandi rúgbrauðsgerðina. Þessar rúgbrauðsfernur fara svo í bakarofninn innan skamms sem boðar það að það mun anga af rúgbrauði í eldhúsinu þegar fyrstu íbúar þessa húss fara á stjá í fyrramálið.
 
Dagurinn í dag endar með mikið meiri bjartsýni en gærdagurinn gerði.


Kommentarer
Auja

Frábært sjáumst á morgun

Svar: Takk, það væri frábært að geta sést. Takk fyrir að þið finnist svo nálægt.
Gudjon

2013-03-29 @ 23:25:29


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0