Og þá bara skellihló hún

Í dag var kominn tími á að þær borðuðu saman vinkonurnar fimm, Valdís og hinar fjórar sem hafa haldið hópinn í fleiri ár. Í dag borðuðu þær hjá Laila. Við Valdís fórum héðan að heiman rétt fyrir klukkan ellefu og hún byrjaði á að fara í augnathugun. Síðan fórum við í Brikkebakken til Laila. Þegar við vorum á leiðinni hringdi ein þeirra og spurði hvar við værum. Valdís gaf upp staðarákvörðun. Þegar við komum á bílastæðið hjá Laila stóðu þær þar þrjár og biðu okkar. Þær stóðu í þéttum hnapp og þegar Valdís var að fara út úr bílnum sá ég hvernig þær fylgdust með og ég sá líka vel hvernig þær biðu eftir að sjá í hvaða ástandi Valdís væri. Þær voru órólegar.
 
Ég var með kerruna og ætlaði í BFs byggingarvöruverslun sem er þarna rétt hjá og fylla kerruna af efni. Þegar ég hafði lagt af stað fékk ég ákafa löngun að sjá hvernig þeim gengi þessa áttatíu metra að útidyrunum hjá Laila. Ég stoppaði og bakkaði. Þarna röltu þær áfram, vögguðu pínulítið, hver með sína hreyfihömlun, og Valdís með sinn sjúkdóm að auki. Hún gekk fyrst og svo sá ég hana stoppa, snúa sér við og horfa á móti hinum. Hún sagði mér áðan að hún hefði stoppað til að kasta mæðinni.
 
Svo héldu þær áfram og fyrst að hurðinni var Valdís og ég sá hana hringja dyrabjöllunni. Þá lagði ég af stað með djúpum trega yfir því sem ég hafði verið að fylgjast með. Í byggingarvöruversluninni eru hressir kallar og ég fékk ekki að koma nálægt því að hlaða á kerruna, aðallega með gipsplötum, bæði á veggi og í loft. Þeir hjálpuðu mér líka að binda þetta fast og eftir nokkur hressileg orðaskil hélt ég af stað. Magus, sonur Bert, verslunareigandans, gekk yfir í hinn enda hússins og opnaði hurðina svo að ég gæti keyrt út. Ég stoppaði og spurði hann hvernig pabbi hefði það. Ja, hann er uppi á skrifstofunni svaraði Magnus. Það nægir svaraði ég og hélt áfram.
 
Á leiðinni heim birtist mér allt í einu myndin af konunum fjórum sem röltu með sínum hraða heim að útidyrunum hjá Laila. Ég sá hvernig þær allar gerðu sitt besta í stöðunni. Konan mín var ein af þeim. Eitt sinn tjúttuðu þær á böllum við músik sjötta og sjöunda áratugarins, sungu og voru glaðar. Gerðu líflega hluti á þeim fáu frístundum sem gáfust. Nú hafa þær fleiri frístundir en áður en þær tjútta ekki lengur. Þær sitja ekki lengur í saumaklúbb fram á nætur, hlæjandi og talandi um skemmtilega hluti. Þegar Valdís ýtti á dyrabjölluhnappinn vissi ég mæta vel að hún hugsaði fyrst og fremst um að fá að setjast á stól.
 
Það sem eftir var leiðarinnar hugsaði hugsaði ég um þennan gang lífsins og mikil sorg tók mig föstum tökum. Þessar konur voru allar jafnöldrur mínar en mér fannst samt að ég væri mikið, mikið betur á mig kominn en þær. Hreinlega væri yngri. Ég sá fyrir mér þegar Valdís sneri sér við á stéttinni og leit ámóti hinum. Það kom svo fram sem mig grunaði, hún var að stoppa til að hvíla sig. Ég nálgaðist Sólvelli og ljósa, hlýja slæðan sem hylur sorgina breiddi sig yfir hana að nýju, huldi hana, og ég fann hvernig innri ró bjó um sig í brjósti mér. Ég fann hvernig sólin sem hækkar með degi hverjum sendi sína hlýju geisla inn í gegnum framrúðuna og þrátt fyrir þrálátan vetrarkulda fann ég að vorið vera framundan.
 
Eftir léttan hádeismat, að tæma kerruna og vinnu á Bjargi í eina tvo tíma, mundi ég eftir símanum sem lá inni á eldhúsbekk. Ég gekk inn og nákvæmlega þar sem ég greip upp símann hringdi Valdís og var að verða tilbúin að fara heim. En það var eitthvað mikið meira en það. Ég heyrði að röddin hafði orðið lífleg og glöð og það var kraftur í Valdísi þar sem hún talaði með klið af tali hinna kvennanna í bakgrunninum. Hún hafði verið að gera góða hluti og það var að þakka framtaki hennar sem þessar konur hafa hittst í öll ár og engin þeirra vill leggja það niður. Næst ætla þær að hittast hér heima hjá Valdísi.
 
Það var hér um daginn þegar við vorum búin að borða heimasaltaða lambakjötið að ég var á rölti um húsið. Valdís spurði hvort ég nennti að rétta sér tannstöngul. Ég tók tannstöngul, lagði á brauðdisk, gekk til Valdísar og með penni hneigingu rétti ég fram tannstöngul á diski. Valdís skellihló og mér fannst hún hlæja nákvæmlega eins og í gamla daga. Hún gerir þetta all oft og mér þykir mjög vænt um það.
 
Við erum búin að borða kvöldmatinn, Valdísarkjötbollur, og hún er búin að horfa á sjóvarpsþáttinn Antikrundan. Það þykir henni gott sjónvarpsefni. Við erum búin að gera okkar besta úr þessum degi, búin að upplifa góðan dag. Ég er mátulega þreyttur og eftir að ég verð búinn að fá mér heitan drykk, bursta og allt svoleiðis, verður gott að breiða ullarfeldinn upp að eyrum. Ég les pínulítið áður en Oli lokbrá nær tölum á mér en Valdísi tekst venjulega að ljúka nokkrum síðum. Svo verður hún líka að gefa sig fyrir mildum ágangi Ola.


Kommentarer
Auja

Falleg lesning að venju, er ekkert að hlýna lending í Stokkhólmi 22 mars, Örebro seinnipart dagsins

Svar: Það er ekkert að hlýna en það mun hlýna, það er eitt það vísa. Engin hlýnun í sjónmáli næstu viku en vikur ársins eru nú einu sinni 52. Horfum fram á veginn Auja, það verður gaman að hittast.
Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni.
Gudjon

2013-03-14 @ 22:00:20
Auja

Já satt segirðu margar eru vikurnar sjáumst í Örebro kveðja til Valdísar

2013-03-14 @ 22:35:31


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0