Rafeindavegir

Ég var á fundi í síðustu viku, fundi sem ég ætlaði að blogga um áður en ég gleymdi honum. Nú tæplega viku seinna finn ég að minningin um fundinn er þegar farin að dofna. Ef ég kem ekki í verk að gera þetta mun ég innan einhverra missera að hafa gleymt fundinum með öllu.
 
Það var boðað til þessa fundar með fjölrituðum miðum í alla póstkassa í Krekklingesókn og málefni fundarins var breiðband til byggðarinnar. Lars hinn ungi nágranni okkar hringdi stuttu fyrir fundinn og stakk upp á að við færum þangað saman og svo gerðum við. Við söfnuðumst þarna við borð nokkrir nágrannar en þó sat beint á móti mér maður sem býr all nokkurn spöl héðan og konan hans virtist vera þar við hlið hans. Við þekkjum þetta fólk ekkert. Ég kunni ekki við að sitja beint á móti manni án þess að heilsa þannig að ég rétti honum hendina og sagði nafn mitt.
 
Ég hafði dálítinn áhuga á þessum manni vegna þess að hann hefur svo oft verið þar sem fólk kemur saman, á konsertum í sveitinni, á revíunni í Fjugesta, á fjöldasöng í Torp og víðar. Hann hefur allt útlit fyrir að vera félagslyndur maður sem hefur hlutina í lagi í kringum sig og í samræmi við það öruggur og frjálslegur í fassi. Þegar ég sagði nafn mitt beyglaðist hann mátulega mikið í framan og þá vissi ég að hann var einn af þeim sem alls ekki heyrir nafnið mitt. Ég tók því upp blað og penna úr vasa mínum og skrifaði nafn mitt þar á og sýndi honum.
 
Þegar hann sá nafnið skrifað sagði hann langdregið "jaaááá, það ert þúúúú" sem býrð uppi á brekkunni ofan við Nalavi. Já, ég var maðurinn. Þá fann ég að hann hafði líka veitt mér athygli áður. Við heyrum ekki mikið af því, en víst vitum við að við erum talsvert umtöluð hér í kring sem okkur finnst ekki skrýtið. Lars hinn ungi staðfesti það líka á leiðinni heim að allir hér í sveitinni vissu um Íslendingana sem búa upp á brekkunni ofan við Nalavi.
 
Það vakti athygli mína á fundinum hversu mikið af vel menntuðu fólki býr hér í kring. Einnig að hér býr fólk sem vinnur ábyrgðarstörf á mörgum sviðum. Þeir sem stóðu að fundinum tilheyrðu þessum hópi. Fundurinn var mjög vel undirbúinn og þeir sem höfðu framsögu voru með sitt á hreinu og allt fór þeim afar vel úr hendi. Maður sem býr einn kólómeter norðan við okkur og gengur hér framhjá flesta daga vikunnar er fjálmálastjóri stórs fyrirtækis upp í Dölum í um það bil 200 km fjarlægð. Hann setti fundinn og talaði ótrúlega málefnalega um efni hans.
 
Hann sagði að það væri auðvelt fyrir alla að skilja að vegir, lestarkerfi og flugvellir þyrftu að vera í góðu lagi í dreifðum byggðum. En við þurfum líka góða rafeindavegi í Krekklingesókn hélt hann áfram. Það er nefnilega svo að hér í sókninni er fjöldi fólks, ótrúlegur fjöldi, sem vinnur mikilvæg störf heima hjá sér þannig að mörg heimilanna eru mikilvægir vinnustaðir. Þess vegna eru rafeindavegirnir svo nauðsynlegir til að þessir dreifðu vinnustaðir í sókninni geti þrifist.
 
Þetta og margt annað fannst mér fróðlegt að heyra. Þessi maður, sem er jú fjármálastjóri stórs fyrirtækis upp í Dölum, fer þangað um það bil vikulega en stundar vinnu sína að mestu heiman að frá sér. Að ég skrifa þetta er til að hafa minnispunkta fyrir mig og ef einhverjir hafa áhuga á að lesa þetta er það svolítil kynning á því umhverfi sem við búum í.
 
Þessi fjármálastjóri sem gengur svo oft hér framhjá hefur oft stoppað við túnfótinn til að spjalla. Hann hefur sagt að það sé smekklega byggt á Sólvöllum og gaman að fylgjast með. Það var jú gaman að heyra. Hann hefur líka talað um að við sem erum "aðeins" farin að eldast virðumst hafa gaman að þessu. En svo sagði hann okkur með dálítilli undrun frá manni sem var að byggja langleiðina inn við Örebro og hann er nú sjötíu ára sagði hann.
 
Það var ekki leiðinlegt að heyra þetta og ég reyndi að rétta óvenju mikið úr bakinu og standa undir mínu unga útliti. Ég var nefnilega 69 ára þegar þessi umræða átti sér stað.
 
Nú er mál að ganga til fundar við Óla lokbrá. Við förum í sjúkrahúsferð í fyrramálið, frekar snemma, og að vanda vonumst við eftir góðum fréttum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0