Þriðjudagur í léttari dúr

Það er skrýtið hvernig það vefst einstaka sinnum fyrir mér að gera hluti sem ég hef gert hundrað sinnum áður. Áðan ætlaði ég að birta nokkrar myndir og ég hef gert það mikið mneira en hundrað sinnum áður en allt í einu gekk það ekki. Ég var búinn að vista mynd inn á bloggið en sá svo bletti á henni þannig að ég henti henni. Síðan lagaði ég blettina á frummyndinni en þá gat ég ekki vistað hana aftur. Svona getur það gengið en alla vega er ég kominn með myndirnar sem ég ætlaði upphaflega að nota -eftir heil mikið vafstur og langan tíma.
 
*
 
 
Hvaða mórauði hlunkur ætli þetta sé á brauðdiskinum þarna? Honum fylgir saga sem ég veit ekki hvenær byrjaði, en fyrir mér byrjaði sú saga í kaupfélaginu í Marieberg í fyrradag, sunnudag. Ég skilaði Valdísi að innganginum í kaupfélagið, lagði bílnum og gekk síðan í verslunina Jula til að kaupa skrúfur. Þegar ég kom svo til baka í kaupfélagið var Valdís að velja mjölsortir sem ég botnaði ekkert í þannig að ég spurði hana hvað stæði til. Baka rúgbrauð, svaraði hún eins og ekkert væri. Í hennar huga var sagan sem sagt þegar byrjuð, kannski fyrir löngu. Svo fórum við heim og Valdís var varla komin inn í húsið þegar hún byrjaði á rúgbrauðsgerðinni. Klukkan tíu um kvöldið kveiktum við svo á bakarofninum og hann mallaði þar til klukkan átta í gærmorgun, í tíu tíma. Þá angaði eldhúsið af rúgbrauði. Þetta mórauða á brauðdiskinum er því rúgbrauð, gott rúgbrauð. Rúgbrauð hefur ekki verið bakað á okkar bæ síðan upp í dölum fyrir 17 árum.
 
Sagan um það sem er á þessari mynd byrjaði hins vegar fyrir hálfum mánuði. Þá fór Valdís í fótsnyrtingu og á meðan var ég að útrétta smávegis, meðal annars að kaupa lambaljöt. Þegar Valdís var tilbúin og við að leggja af stað heim spurði Valdís hvort ég væri búinn að kaupa kjötið. Já, ég var búinn að kaupa lambakjötið og það helmingi meira en hún bað um. Og hvers vegna? Jú, ég ætlaði að salta lambakjöt. Í dag var svo fyrsta saltkjötsmáltíðin hjá okkur til margra ára. Ekta íslenskt rúgbrauð og saltkjöt, þjóðrækni eða hvað.
 

*
 
 
Þessi byggingarkrossviður er ekkert til að hrópa húrra fyrir, ekki fyrir augað. En hann er sterkur til síns brúks. Hann er hluti af stífingu húsa og gefur þeim styrkleika til að standa móti stormum. Svolítið eykur hann líka einangrunargildið.
 
En þegar gipsið er komið innan á krossviðinn skeður eitthvað dálítið magnað. Húsið verður bæði huggulegt og notalegt. Sterka lyktin af krossviðnum hverfur og hann tilheyrir þar með því ósýnilega af vel uppbyggðu húsi. Varðandi raka og myglu þá er bara það að segja að með tilheyrandi loftræstihólfum og góðum byggingarmáta, þá er vánni afstýrt. Það er þessi mynd sem lék mig grátt áðan en ég gat notað hana með því að láta hvítu blettina vera eins og þeir eru
 
 
Valdís heimsótti mig út á Bjarg í gær til að gera úttekt á verkum mínum. Þá tók ég af henni þessa mynd. Það má greina að sólin skín úti fyrir. Annars er frostið á nóttunni um 15 stig um þessar mundir en um frostmark á daginn. Það er sólbráð þar sem sólin nær á auðum blettum þannig að snjórinn fer minnkandi þrátt fyrir kuldann.
 
Þar með held ég að engin leyndarmál séu ósögð þannig að við getum lagt okkur til svefns með ró í huga.
 


Kommentarer
Rósa

Mikið er mamma mín dugleg að baka rúgbrauð!

Kveðja,

R

2013-03-13 @ 13:17:28
Guðjón

Já Rósa, það er óhætt að segja það. Svo lá hún á hugmyndinni þangað til ég sá innkaup á mjölvörum sem ég varð svolítið hissa á. Það voru ekki mörg orð um það, bara mög einfalt; "ég ætla að baka rúgbrauð", svo ekki orð meir.

Kveðja frá Sólvallafólki

2013-03-13 @ 15:25:19
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0