Sviðaveisla

 
 
 
Það er nú meira hvað ég er alltaf með hafragraut á blogginu mínu, en satt best að segja er ástæða til þess að þessu sinni. Eða þannig. Ég las blaðagrein hér um daginn og þar stóð að ótrúlega stór hluti alls þess eiturs sem úðað er á matvæli sé úðað á vínber. Hins vegar séu vínber svo sáralítill hluti þeirra matvæla sem úðuð séu með eitri að eitrið í þeim sé alveg gríðarlega mikið. Svo þó að við séum að skola vínberin undir rennandi vatni hafi það ekkert að segja þar sem eitrið sé innst í vínberjunum. Þá það. Ég sem hef lengi bragðbætt hafragsrautinn minn með rúsínum er steinhættur því. Í grautnum þarna á borðinu, skammturinn sem ég borðaði í morgun, brytjaði ég apríkósur og sauð þær með grautnum. Aprikósurnar keypti ég í gær og þær eru vistvænt ræktaðar. En í grautnum leynist líka einn banani og hann er líka vistvænt ræktaður.
 
Það hefur verið umræða um það undanfarið að krabbamein fari mjög vaxandi. Það hefur líka verið umræða um það að eiturefnanotkun við matvælagerð sé afar mikil. Umræðan um gerfiefni er líka á þá leið að mikið sé af krabbameinsvaldandi efnum í þeim. Samkvæmt þessari umræðu er samband á milli sjúkdómsins og þess sem ég hef nefnt hér. Gjarnan er svo sagt að það megi ekkert borða og ekkert gera vegna þess að það valdi krabbameini og það sé gengið út í öfgar. En staðreyndir tala sínu máli og svo geri ég líka ráð fyrir að það sé hægt að kaupa vistvænt ræktaðar rúsínur út í hafragrautinn minn. Ekkert skemmtiefni þetta en fyrir mér nokkuð að hugleiða.
 
*
 
 
Hvað er nú þetta? Jú, maðurinn á miðri mynd sem veifar vinstri hendinni þar sem hann er að ræða við unga konu, hann heitir Guðbjörn og kemur frá Varberg nokkrum sinnum á ári. Frystibíllinn bakvið hann tilheyrir honum og á þessum bíl flytur hann íslenskar vörur um Danmörku, Noreg og Svíþjóð. Í dag var hann við Scandic hótel í Örebro að skila til viðskiptavina í Örebro og nágrenni það sem þeir hafa pantað hjá honum. Konan sem Guðbjörn er að tala við er ung kona nýlega flutt til Kumla, hægra megin við hann er hún Rósa Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og maðurinn lengst til hægri er Íslendingur sem ég þekki ekki. Svo var ég þarna og nokkrir fleiri mættu til leiks.
 
Svona gertur matarborðið á Sólvöllum litið út þegar komið er úr verslunarferð til Guðbjörns. Ýsa var það heillin og nokkrir sviðahausar. Páskaegg einnig. Fyrir mér skiptir þetta ósköp litlu máli en fyrir aðra er þetta með íslenska matinn mikið atriði. Það er til mikið af góðum mat í Svíþjóð en víst var sviðakjamminn góður sem hafnaði á dískinum mínum þegar við borðuðum kvöldmatinn.
 
Ég varð vitni að skemmtilegri ástarsögu í dag við bílinn hjá Guðbirni, en þar sem ég er ekkert að blaðra um annarra einkamál þegi ég yfir þessari ástarsögu. Svo kom ég dálítið skemmtilega á sjálfan mig þegar við horfðum á sjónvarpsmessuna í morgun. Ég stóð mig að því að dæma í stað þess að hlusta á Guðsorðið en ég þegi yfir því líka.
 
*
 
Fyrir aftan mig er konan mín lögst á koddann og les bók. Ég vildi svo sannarlega að hún væri hressari en hún er. En þrátt fyrir allt vorum við í dag að tala um staði sem við þyrftum að heimsækja í sumar og henni fannst sviðakjamminn afar góður sem hafnaði á hennar diski þegar við borðuðum kvöldmatinn. Hún kom líka út á Bjarg í dag til að gera úttekt á verkunum mínum. Þá tók ég mynd af henni en myndin var ónýt þar sem ég hafði nýlega verið að sópa þar og það virðist sem ryk í loftinu gerði myndina eins og það hefði rignt á linsuna. Ég var nefnilega búinn að ákveða að setja mynd af henni á bloggið ef ég skyldi blogga á þessu kvöldi. Mér er ómögulegt að fara að taka mynd af henni við að lesa bók í rúminu þannig að það verður engin mynd af henni núna.
 
Valdís sýnir mikið æðruleysi og sá sem getur gert það heldur í vonina sem er skilyrði fyrir því að vel geti farið. Ég fer líka að leggja mig þegar ég verð búinn að birta þetta blogg. Í minni hljóðu kvöldbæn verður heilsa Valdísar í fyrirrúmi eins og önnur kvöld og morgna.


Kommentarer
Anonym

Einnig er okkar hugsun hjá ykkur.Líði ykkur sem allra allra best.Guð vaki yfir ykkur elskurnar mínar Stórt knússsssssssssssss.

2013-03-17 @ 23:14:54


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0