Svo er það bara sjö-níu-þrettán

Þegar ég kom til Valdísar nokkuð seint í dag voru hjá henni þrír gestir. Það voru Auður, Þórir og Eva og Valdís er ánægð með sig í svona hópi. Fyrr um daginn var Annelie hjá henni. Þetta er alveg frábært og eflir bata. Ég talaði um það í gær að það hefði verið stór dagur í batanum og í dag var svipað að að koma til hennar og í gær. Ef batinn frá blóðtappa í lungum er það hægur að það sjáist ekki dagamunur er heldur ekki hægt að reikna með því að sjá framför dag eftir dag. Ég verð að segja að ég er ánægður með að þessa dagana virðist enginn dagur vera verri en fyrri dagar. Það virðist vera komið á jafnvægi í heilsufari Valdísar. Svo er það bara sjö-níu-þrettán.
 
Enn er þó nokkuð næturfrost en frostlaust á daginn. En næturfrostið fer hægt minnkandi og hitinn á daginn vex að sama skapi, en hægt. Í dag var annar dagur í snúruþurrkun hér á Sólvöllum. Svo þegar ég kom heim um átta leytið gleymdi ég að taka inn þvottinn og þegar ég svo tók hann inn núna um hálf tíu leytið var hann farinn að slá sig. Mér fannst því rétt að hengja hann upp á innisnúruna en það er spurning hvort það var lúmskt bragð hjá mér til að þurfa ekki að brjóta saman í kvöld.
 
Eitthvað var ég lágur í morgun enda bauð ég upp á það. Ég hóf stórhreingerningu á laugardagsmorguninn en kláraði ekki alveg. Klukkan sjö í morgun ákvað ég að ljúka hreingerningunni og fá mér svo morgunverð á eftir, drakk bara slatta af vatni áður en ég byrjaði. Svo var ég ekki búinn fyrr en um klukkan ellefu og þá fyrst eldaði ég hafragrautinn. Svo meðan ég var að borða hann kom iðjuþjálfi hingað til að líta á aðstæður hjá okkur. Meðan iðjuþjálfinn var hér að pæla í húsinu og talaði mikið fann ég hvernig það kom niður á mér að hafa ekki byrjað á morgunverði áður en ég hóf hreingerninguna. Ég predika yfir sjúklingunum í Vornesi að maður geri ekki svona og svo geri ég það sjálfur. Að vísu afar sjaldan, en það er ekki að sökum að spyrja; afleiðingarnar fyrir mig verða nákvæmlega þær sem ég segi sjúklingunum að þær verði ef við virðum ekki gildi morgunverðarins.
 
Síðan fór ég á endurvinnsluna í Fjugesta og á leiðinni þangað horfði ég á birtuna frá sólinni sem baðaði skóga og akra. Þá fann ég pínulítinn vorfiðring langt inn í brjóstinu, einhver svo fín kittlandi tilfinning. Svo þegar ég kom út úr bílnum á endurvinnslustöðinni og byrjaði að vappa þar um í sólskininu jókst þessi fína tilfinning og endaði með því að ég varð býsna sæll og glaður eftir því sem hægt var að búast við. Hún er fín þessi tilfinning þegar maður veit að það mun vora einu sinni enn og svo þegar maður skynjar að nú er það á næsta leiti, ja, þá finnum við hamingjutilfinningu -eða er það ekki svo? Svo þegar ég kom heim aftur veitti ég því athygli að fuglarnir virtust hafa orðið sömu tilfinningar áskynja og ég. Þeir voru önnum kafnir og hélu uppi samræðum, hver á sinn hátt. Spætan gerir vart við sig snemma á hverjum morgni og það eru forréttindi þeirra sem búa við skóginn að njóta þeirrar návistar.
 
Nú býst ég við að það gisni eitthvað með fréttir af Valdísi en ég mun ekki leggja þær alveg á bátinn. Valdís er allrar umfjöllunar verð. Þegar hægur batinn er kominn í jafnvægi verður ekki svo mikið að segja um hann daglega að það verður endurtekningaþula. Klukkan er tíu að kvöldi og mál fyrir mig að ganga til fundar með þessum sama góða Óla sem ég funda alla jafna með á kvöldin. Ég þarf að vera árrisull í fyrramálið og vil helst ekki að klukkan fái tækifæri til að hringja.
 
Kyrrð dagsins hefur eftirfarandi texta fyrir daginn:
 
"Sérhver stund ársins á sér sína fegurð, hún er mynd sem birtist og sést aldrei aftur."
 
Þessi orð eru tileinkuð Ralph Waldo Emerson 1803 - 1882. Þau minna mig á mynd sem ég sá eitt sinn en birtist aldrei aftur, en þá mynd sá ég fyrir einum tólf til fimmtán árum. Kannski ég fari orðum um þá mynd við tækifæri.
 
Góða nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0