Vel ávöxtuð morgunstund

Sjónvarpsmessurnar hér eru frá kirkjum vítt og breitt um landið, fjóra sunnudaga í röð frá hverri kirkju. Fyrir hálfum mánuði var fyrsta messan af fjórum frá hallarkirkjunni í Stokkhólmi. Á fremsta bekk sátu kóngur og drottning og samkvæmt kynningu fyrir messuna mátti ætla að megin þorri fólks við messuna væri hirðfólk eða á einhvern hátt tengt konungi eða hirð. Ég horfði á þessa messu með mátulegum áhuga og fannst ögn sem við þessa messu væru hálfgreðir uppskafningar sem teldu sig ofar almúganum, "úr betri hópi samfélagsins" að eigin mati. Þegar við horfðum á aðra messuna frá hallarkirkjunni hafði ég þessa tilfinningu líka en þó heldur vægari. Ég er mátulegur konungssinni og læt þau mál ekki trufla mig. Ég get samt sagt að þegar þetta fólk er haft illilega milli tannanna, þá er ég meiri konungssinni en ella.
 
Svo hófst sjónvarpsmessan í dag. Hvernig svo sem á því stóð, þá nálgaðist ég og messan hvort annað meira en áður. Valdís tók undir í fyrsta sálminum og eitthvað var þannig að ég skildi að mér bæri að lægja hrokann og auðmjúkur taka þátt í messunni með því að horfa og hlusta með opnum huga. Efni messunnar var um brauðið sem enginn getur lifað utan, hvernig því er skipt og hvernig það kemur til okkar. Sagt var frá mannanu sem Ísraelsmenn fundu á sandinum morgun einn fyrir 3000 árum þegar þeir þjáðust af hungri og töldu það vera sendingu af himnum ofan.
 
 Presturinn sem predikaði var kona sem talaði með Dalahreim. Þegar á predikun hennar leið hugsaði ég að þetta væri hreinlega besta predikun sem ég hefði heyrt. Þegar hún gaf orðum biblíunnar merkingu á sinn hátt varð merking þeirra ótrúlega falleg. En svo er það ár hvert að ég er í nokkur skipti að heyra bestu predikun sem ég hef nokkru sinni heyrt á ævi minni og því mætti ætla að predikun dagsins hafi verið afar góð. Hún var það líka.
 
Undir lok messunnar gekk fram svartur prestur sem söng mjög fallegan texta upp úr bók. Sænskan hans var alveg eins og sænska hvítra Svía og þó að við sæum aðeins kápur bókarinnar vissum við mæta vel að bókstafirnir voru nákvæmlega eins og þeir bókstafir sem eru í bókunum sem hvítir prestar syngja upp úr. Jesús sagði líka að fagnaðarerindið ætti að berast til allra þjóða og kynþátta þessa heims og í framhaldi af því skiptir húðlitur ekki nokkru máli.
 
 Að messunni lokinni hafði ég brotið odd af oflæti mínu og hvort það var hirðfólk eða annað fólk sem tók þátt í guðsþjónustunni skipti mig ekki lengur máli. Allir bera sínar byrðar, hvort það heitir áhyggjur af heilsu, biturð vegna löngu liðinna atburða, samviskubit vegna rangarar ákvörðunar, framkoma við náungann, ógætileg orð eða þá sorgarin sem knýr dyra í lífi allra manna og kvenna. Að ógleymdu því sem aldrei var gert en hefði svo vel verið hægt að gera einhverjum til gleði eða til að auðvelda einhverjum lífið. Hirðfólkið sem er vel verndað og gæti mín vegna borðað sunnudagsmat daglega allan ársins hring, það fær líka sínar byrðar að bera.
 
Eftir messuna sat ég stutta stund í stólnum, gekk síðan að tölvunni og skrifaði nokkrar línur til að tapa ekki niður því sem í huganum bjó. Sorgin sem býr sér hreiður í lífi allra er ekki alltaf sýnileg eða ráðandi í lífi fólks. Hún er sem varðveitt undir þunnri slæðu og það þarf svo lítið til að slæðan gisni og sorgin geri vart við sig. Sorgin undir slæðunni er tilfinning þeirra sem eru heilbrigðir. Brynja forherðingarinnar þarf að vera afar þykk til að hún ekki nái í gegn til að minna manneskjuna á sig. Kóngur og drottning og hirðin öll sem ekki þarf að hafa áhyggjur af brauði jarðarinnar eru hins vegar í jafn mikilli þörf fyrir hið andlega brauð og við hin til að geta mætt mótlætinu hverju nafni sem það nefnist.
 
Þegar ég var búinn að punkta niður línurnar sem komu upp í huga mér eftir messuna var ég úti á Bjargi í eina þrjá tíma og stundaði byggingarvinnu. Ég var léttur í spori og hreyfingum og það sem ég gerði lék í höndunum á mér. Ég var þess fullviss að ég hafði ávaxtað morgunstundina vel.


Kommentarer
Björkin.

Snillingur. Knús í hús.

2013-03-11 @ 21:05:28


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0