Að breyta lífsstílnum

Það er búi að vera lengi á döfinni hjá mér að breyta lífsstílnum, en þó ekki fyrr en ákveðnum verkefnum er lokið hér heima. Svo hafa verkefnin aukist bara svona án þess að það hafi verið til nein framtíðaráætlun þar að lútandi. Þegar Bjarg yrði tilbúið átti breytingin að verða en svo dróst það þangað til búið yrði að gera lóðina tilbúna þar í kring. Svo dróst það þangað til búið yrði að loka grunninum undir gamla hlutanum af Sólvallahúsinu og svo dróst það þangað til búið yrði að gróðursetja ávaxta og berjarunna eins og mig var búið að dreyma um svo lengi. Svo var það búið og þá sýndist mér að lífsstílsbreytingin gæti farið af stað. Marga fleiri þætti hefði ég getað nefnt.
 
Svo ákvað ég að byggja geymsluhúsnæðið og þar komst ég í kapp við veturinn þannig að lífsstílsbreytingunni var enn einu sinni slegið á frest. Nú er það hús tilbúið undir veturinn og þá var ekki eftir neinu að bíða. Loksins! En þá skeði annað; ég fékk fráhvarfseinkenni og varð ótrúloega órólegur. Ég þurfti ekki að keppa að neinu lengur og ég gerði mér alveg grein fyrir því að svo var og ég varð órólegur vegna þess að ekkert hvíldi lengur á mér sem varð að klára.
 
Svo fékk ég heimsókn í dag. Læknirinn Þórir kom í heimsókn með frúnni sinni læknaritaranum. Með vilja færði ég þessa hluti í tal og hvað mér bæri nú að gera og þetta urðu skoðanaskipti fram og til baka. Það voru mikið góðar umræður fyrir mig. Svo fóru Auður og Þórir og eftir sat ég einn og tvísté í huganum. Svo fékk ég mér tvær auka pönnukökur. Síðan með rólegum hreyfingum skipti ég svolítið um föt, setti gönguskóna fram í forstofu, gekk um húsið til að tryggja að allt væri í lagi, setti endurskinsmerki í jakkann minn, fórn í skóna og gekk af stað.
 
Klukkan 15,19 nákvæmlega gekk ég gegnum innkeyrsluna og út á veginn. Það var engin áætlun sem var fyrirliggjandi, heldur ákveðinn hringur sem er 3,5 km og hann skyldi einfaldlega genginn. Innan skamms var ég kominn aftur að innkeyrslunni og klukkan var allt of lítið þannig að ég fór annan hring og á 55 mínútum lagði ég sjö km að baki. Lífsstílsbreytingin var hafin.
 
Það er eitt og annað sem hangir á spýtunni í þessari lífsstílsbreytingu minni, en enn um sinn ætla ég að hafa það að mestu fyrir sjálfan mig. Ég get bara sagt að ég kann ýmsar æfingar sem ég hef gert hér heima en engan veginn reglulega. Þá daga sem ég var 12 tíma á dag úti að byggja hús, þá sleppti ég slíkum æfingum. Hjá sjúkraþjálfurunum í Fjugesta er lítill æfingasalur þar sem er fullkomlega kyrrlátt, þar er bjart og einhvern veginn gott sndrúmsloft. Svo ekki meira um það.
 
Svo á ég bækur sem bíða mín og ég á marga drauma um að heimsækja hina og þessa staði. Og það er til fólk sem gjarnan vill hitta mig en ég hef gefið lítið fyrir það, vegna þess að ég hef alltaf verið að stefna að vissu markmiði. Núna er það orðið þannig að ég get ekki staðið á móti fólkinu lengur og það líður mér vel með. Ég veit að margt er eftir að gera á Sólvöllum og mörgu þarf einfaldlega sð sinna reglulega eins og maður sinnir því reglulega að fara í sturtu eða klippa neglurnar á tánum.
 
Óróinn hefur ekki alveg yfirgefið mig sem þýðir að væg fráhvarfseinkenni eru enn til staðar, en samt fann ég að þegar ég gekk út í gegnum innkeyrsluna í dag, að þá var eins og ég gengi yfir landamærin til annars lands. Það gerði ég líka þegar ég gekk yfir þröskuldinn innan við stóra andyrrið á Vogi, þá fékk ég á tilfinninguna, þrátt fyrir vafasamt ástand mitt, að ég væri að ganga yfir landamærin inn til nýja landsins. Svo var það og það land hefur verið mér gott. Nú verður land lífsstílsbreytinganna gott við mig líka.
 
Þetta líkist nokkuð því sem ég hefði getað sagt á AA fundi í Fjugesta.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0