Að gera góða hluti í Sádí-Arabíu

Meðan Rósa var skiptinemi í Hollandi um títugs aldur fór hún eitt sinn í heimsókn til skólabróður síns frá menntaskólanum á Akureyri, Sigga Palla, sem var þá við ljósmyndanám á Ítalíu. Ég talaði við hana áður en hún lagði af stað frá Hollandi og hún lofaði að láta okkur vita þegar hún væri komin á leiðarenda. Það sem ég ætla að segja frá núna er eins og ég man það frá því er Rósa sagði okkur endanlega ferðasöguna, en trúlega er það talsvert öðruvísi en hún man það sjálf.
 
Hún fór með einni lest frá Hollandi og þurfti svo að skipta alla vega einu sinni um lest og lestarskiptin sem mig minnir að hún hafi sagt frá áttu sér stað uppi í fjalllendi þar sem hún beið ein um miðja nótt á óupplýstri lestarstöð. Svo kom jú lestin sem flutti hana áfram og að lokum kom hún til skólabróður síns á Ítalíu. Þá fékk hún að hringja snöggt samtal til að láta vita að hún væri komin fram.
 
Ef við Valdís hefðum vitað um þessar aðstæður, þá hefðum við jafnvel orðið flogaveik af tilhugsuninni einni og að geta heldur ekki heyrt hvernig henni reiddi af fyrr en hún var komin alla leið. Hún sagði okkur ekki frá þessu fjalllendisævintýri fyrr en löngu seinna.
 
Þegar hún hringdi frá Sigga Palla til að láta okkur vita var myljandi stórhríð í Eyjafirði. Ég sagði henni frá því í símtalinu og bætti við að þessi snjókoma kæmi væntanlega ekki niður eftir til þeirra fyrr en daginn eftir og fannst mér þá að ég væri mjög sniðugur. Þau gerðu svo grín að þessu fram eftir kvöldi áður en þau lögðu sig. Þegar þau litu út daginn eftir var kominn snjór og það var eitthvað sem hafði ekki skeð í árafjöld.
 
Þetta var um löngu liðna atburði, en þegar Rósa sagði mér frá því fyrir nokkrum vikum að hún væri ráðin i stórverkefni á sviði heilsugæslu niður í Saudí-Arabíu, þá flaug margt um huga minn. Fyrir mér var það land ekki eitt af þeim sjálfsögðustu fyrir Norðurlandabúa að fara að vinna í, og þá ekki síst fyrir konu. Stuttu síðar komu fréttir um það að Sádí-Arabar hefðu tekið einhvern ákveðinn fjölda manns af lífi á þessu ári og aðferðin var kannski ekki sérataklega aðlaðandi.
 
Ég velti því fyrir mér hvers vegna fólk væri að gefa sig í vinnu þarna frá friðsælli Svíþjóð, hvort það væri ekki hreinlega rangt að gefa sig að þessari þjóð. Það var hreinlega geigur í mér og ég hugsaði mikið um þetta. En ég komst að niðurstöðu sem ég hafði ekki vænst í upphafi. Niðurstaðan var sú að það væri líklega ekkert betra til að sá fyrir nýjum viðhorfum og hugsunarhætti en að vinna með fólkinu. Þá á ég ekki við að áróður sé í gangi, heldur að fólk sé einfaldlega að vinna saman.
 
Ástæðan fyrir því að ég byrjaði á því að tala um ferðina til Ítalíu er sú að mér var svolítið líkt innanbrjósts í gærkvöld þegar Rósa hringdi og sagðist leggja af stað til Sádí-Arabíu á morgun, eins og mér var þegar hún var að leggja af stað frá Hollandi til Ítalíu forðum. Svo var ég að tala við Pál bróður í síma núna í kvöld og þá fékk ég SMS og þar stóð: "Komin heim á hótel. Allt í góðu." Mér létti kannski ekki eins mikið og þegar hún hringdi forðum og sagðist vera komin fram til Sigga Palla, en mér létti. Samt veit ég að þetta er fyrir Rósu mikið minna en það var fyrir okkur Valdísi þegar við fluttum til Svíþjóðar.
 
Ég vona að Sádí-Arabar verði ánægðir með að vinna með Rósu og fylgdarliði og að hvor aðili fyrir sig verði ánægður með að hitta hinn. Biðjum svo fyrir friði í heiminum í kvöldbæninni okkar og morgunbæninni líka.


Kommentarer
Björkin

Þvílíkur kraftur og dugnaður er í stelpunni þinni mágur minn.Og kram á Sólvelli.Viltu vera svo góður að kveikja á kerti í lundinum fagra á morgun fyrir mig.Hér loga ljós við myndir..Líði þér vel.

Svar: Ég mun annast ljósið. Með bestu kveðju.
Gudjon

2014-11-23 @ 12:59:57
Dísa gamli granni

Þetta er ótrúlegt ,en mikið óskaplega á hún Rósa mikið inni hjá sér.Og mikið biðjum við fyrir innilegar kveðjur til hennar. Og víst skal ég minnast hennar í bænunum mínum.

Svar: Fínar línur ég fékk þarna frá þér Dísa mín, þakka þér fyrir. Kveðjunum skal ég svo sannarlega koma til skila.
Gudjon

2014-11-30 @ 00:50:34


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0