Að hafa áhrif á lífsheill annarra

Í morgun byrjaði ég á því að taka fram ryksuguna, fór með hana fram í forstofu og ætlaði að byrja þar á bráðnauðsynlegri hreingerningu sem átti svo að halda áfram um allt húsið. Með ryksuguna á forstofugólfinu ætlaði ég að kveikja rétt sem allara snöggvast á sjónvarpinu og athuga helstu fréttir og veðurspá á textavarpinu. Ég settist. Það var bein útsending frá ráðstefnu og tæplega miðaldra maður var að byrja fyrirlestur um jákvæða framkomu við þá sem eru hjálpar þurfi og um uppbyggjandi viðhorf á vinnustað. Áheyrendur voru starfsfólk ellilífeyriskerfisins.
 
Mér fannst maðurinn frekar spjátrungslegur og ofhlaðinn sjálfstrausti. Mér fannst hann leiðinlegur og sjálfsgagnrýni fannst ekki hjá mér, ég taldi mig hafa efni á að sjá þessa galla hans. Ég sá fólk í salnum sem augljóslega hafði sömu afstöðu og ég, alveg sérstaklega einn mann. Samt ætlaði ég að hlusta aaaðeins lengur. Hann notaði líf og örlög foreldrafjölskyldu sinnar sem farveg gegnum allan fyrirlesturinn og tók ýmis hliðarspor frá þeim farvegi, bæði til að gera mál sitt skýrara og til að gera fyrirlesturinn skemmtilegri og þar með áheyrilegri.
 
Mamma var mest heimavinnandi á fyrstu árunum en pabbi, Árni, vann hjá tryggingarfélagi. Það fannst hjá þeim vilji til að takast á við nýja hluti í lífinu og til að fjölskyldan fengi eitthvað smávegis aflögu til að geta veitt sér ögn meira í lífinu. Við erum að tala um tímabilið kringum 1980.
 
Það var stofnað til fjölskylduráðstefnu á heimilinu og börnin voru með. Þau ákváðu að opna verslun all norðarlega í Svíþjóð, en verslun sem gekk illa og þau kenndu um rangri staðsetningu. Þau tóku stærra lán og fluttu verslunina í annan bæjarhluta. Þar var samkeppnin harðari, verslunin var kæfð í fæðingu og það varð gjaldþrot, svefnlausar nætur, foreldrar sem þráttuðu og fjölskyldulífið fékk svo sannarlega að líða. Að hafa tekið áhættu hafði mistekist! Þannig er það svo oft sagði fyrirlesarinn, en það fer ekki alltaf þannig.
 
Að taka áhættu getur mistekist í eitt skipti en ekki endilega í annað eða þriðja skiptið. En ógnartíðir höfðu tekið sér bólfestu í lífi þessarar fjölskyldu og það var eins og ætíð; tilvist fjölskylduþrotabúsins virtist ekki hafa nein tskmörk, hvorki í tíma eða þjáningum. Svo hringdi síminn. Að síminn hringdi var tilbreyting í lífi þessarar fjölskyldu nú á níunda áratugnum. Börnin hlupu hvert í kapp við annað til að svara í símann.
 
Er pabbi heima spurði röddin í símanum. Já, Árni pabbi var heima. Blessaður Árni sagði röddin í símanum, þetta er Andri, gamli vinnufélagi þinn í tryggingunum. Hann hafði nú sett á stofn tryggingafélag sjálfur. Heyrðu Árni, ég þarf mjög nauðsynlega að tala við þig, geturðu komið. Já, Árni pabbi ók langa, langa leið suður til fundar við Andra. Andri sýndi honum sali sem var verið að sníða að starfsemi tryggingarfélags Andra. Að síðustu gengu þeir inn í herbergi sem átti að verða skrifstofa þess sem fara skyldi með ráðningar og starfsmannamál. Þar inni sneri Andri sér að Árna til að segja honum hvers vegna hann hefði beðið hann að koma suður.
 
Þegar hér var komið fann ég hvernig gráturinn hafði setst að ofarlega í brjóstholi mínu og virtist á leið upp og ég hugsaði að ef ég væri fyrirlesarinn yrði ég að taka mér hlé til að vinna bug á grátinum. -Árni, þetta er skrifstofan þín. Þú ert maðurinn sem ég vil að sitji á þessari skrifstofu og það er vegna þess að ég veit hver þú ert og að þú hefur gengið gegnum þrengingar og reynslu.
 
Og nú sagði fyrirlesarinn: Svo oft sem ég er búinn að nota þessa sögu sem máttarstoð í þennan fyrirlestur minn, þá er ég alltaf jafn nálægt því að fara að gráta þegar ég kem að því sem nú skeði. Hann tók nokkurra sekúndna hlé og ég var ekki í vafa um að hann segði satt um tilfinningar sínar.
 
Andri hélt áfram viðtali sínu við Árna þarna fyrir sunnan og sagði nú. -Þú verður mikilvægur maður Árni, maðurinn sem ég vil hafa í þessu starfi. Maðurinn sem verður í þessu starfi verður að geta verið í jafnvægi og hann verður að hafa frið í sálu sinni. Þess vegna Árni, þá tek ég yfir þrotabúið.
 
-Hvernig halið þið að pabba hafi liðið þegar hann ók heim eftir þennan fund spurði fyrirlesarinn, langt, langt norður í land? Hann ók heim til að segja fjölskyldunni sinni að sólin væri að koma upp yfir þau líka.
 
Fólkið í salnum hló þegar fyrirlesarinn vildi gefa andrúm til þess og í önnur skipti þurrkaði fólk sér um augun. Sannleikurinn í þessum fyrirlestri var svo óyggjandi. Og af mikilli snilld gat fyrirlesarinn líka tengt fyrirlesturinn og örlög fjölskyldu sinnar þeim störfum sem gestir ráðstefnunnar, ég og svo margir, margir aðrir í þessu landi hafa á hendi við að greiða götu þeirra sem eiga í vandræðum. Ég fann til nýrrar stærðar í ábyrgð minni og ég sá að fólkið í salnum gerði það einnig.
 
Ég og það fólk í salnum sem tók fyrirlesaranum af neikvæðni í upphafi, við vorum búin að gleyma því eftir nokkrar fyrstu mínúturnar. Ég get sagt fyrir mig að ég skammaðist mín eftir á fyrir fyrstu viðbrögðin og vil helst ekki segja frá þeim en sannleikurinn er sagna bestur. Ég missti fyrri partinn í dag að mestu í sjónvarpsgláp en ég lærði mikið og ég er enn að vinna úr því. Það er komið kvöld.
 
Ég veit ekki hvort mér líkar það í fyrramálið þegar ég les þetta yfir að hafa birt það. Hver ætli hafi líka áhuga á að lesa þetta? En það þarf heldur enginn að gera það. Ég get alla vega litið á þetta sem góða ritæfingu. Dagurinn í dag hefur verið undarlegur dagur, ekki bara þarna fyrir hádegi. Sem stendur get ég sagt að þetta hefur verið talsverður lífsreynsludagur. Ég hefði getað skrifað helmingi meira en ég hef þegar skrifað helmingi of mikið.
 
Andri og Árni eru nöfn sem ég gaf þessum tveimur mönnum. Tryggingarfélagið sem Andri setti á stofn er þekkt nafn í Svíþjóð í dag.


Kommentarer
Kristín Aðalsteindóttir

Það er alltaf gefandi að lesa skrifin þín, Guðjón.

2014-11-06 @ 23:54:41
Guðjón

Þakka þér fyrir Kristín. Ég les líka mikið af feisbókardeilingunum þínum, jafnvel þó að ég skrifi enga umsögn. En ég læsi það ekki hvað eftir annað ef það hefði ekkert sem höfðaði til mín. Svo bið ég fyrir kæra kveðju til hans Hallgríms þíns.

2014-11-07 @ 00:05:21
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0