Það skeður þegar þú hvílist

Það er kominn nýr dagur, föstudagur, og hann liðinn að kvöldi. Í gær var dagurinn sem fyrirlesari einn sem ég sá á sjónvarpsskjánum hafði sterk áhrif á mig. Ég bloggaði um það í gær líka. Lífið með góð gildi er oft svo nálægt en það er bara að veita því athygli og höndla það, skynja gildismatið sem svo oft felst í því litla. Ég ætlaði að að taka til í gærmorgun en datt í sjónvarpsgláp.
 
Það er hættulegt að kveikja á sjónvarpi hér fyrir hádegi því að þá er efnið oft það besta sem völ er á yfir daginn. En hvernig á ég að meta ellilífeyrisdagana að verðleikum? Má ég horfa á sjónvarp? Ég get fundið mér endalausar skyldur. Jú, víst má ég horfa á sjónvarp en ég er vandlátur á það sem ég horfi á, líklega dável sérvitur. Það finnst nefnilega alls ekki öllum að sjónvarpsefnið fyrir hádegi sé það besta.
 
Ég reyndar gerði hvort tveggja í gærmorgun, að horfa á sjónvarpsþátt sem gaf mér mikið og að ryksuga og taka til heima hjá mér.
 
Ég þurfti að fara til hans sögunarMats eftir hádegi í gær til kaupa spýtu. Þess vegna hringdi ég til hans Ívars nágranna til að fá lánaða hjá honum kerruna. Þegar Ívar svaraði varð ég hissa. Það vantaði lífið í röddina sem ég reikna alltaf með að finnist þar. Ívar hlær oft að kúnstunum í mér og ég hlæ að aðfinnslunum hjá honum þegar hann gengur hjá eða þegar hann spyr mig hvort ég hafi verið vaknaður klukkan átta þegar hann gekk hjá. Núna var hann einhvern veginn öðru vísi.
 
Ég mátti fá kerruna og svo fór ég heim til hans og hann kom út til að opna lásinn. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég hefði bara vakið hann frá miðdegisblundi með símahringingunni. Ívar var í langri meðferð gegn krabbameini í nefinu í hitteðfyrra og svo í skjaldkirtli líka. Svo virtist hann bara verða frískur og líflegur kall og allt hefur virst í besta lagi.
 
Svo hélt ég áfram til að kaupa spýtuna hjá gæðamanninum Mats. Þegar ég skilaði kerrunni tók ég með tvö rúgbrauð handa Ívari. Rúgbrauðin mín þykja góð í byggðarlaginu og Ívar veit að ég baka. Svo höfðum við gengið frá kerrunni og mér varð litið beint í andlit hans. Hann leit á móti og við horfðum stillilega hvor á annann þó nokkur andartök. Ég sá sorg færast yfir andlitið.
 
-Ivar, hvernig gengur það með sjúkdóminn sem hrjáði þig í hitteðfyrra.
 
Ég sá á honum að hann vildi svara og vildi ekki svara. Sorgin kom yfir mig líka. Ég sá hvernig Ívar bjó sig undir að svara en hann kveið fyrir því, hélt greinilega að honum tækist það ekki. Að lokum svaraði hann þó og sagði: -Þeir segja að það sé komið til baka.
 
Úbbs. Þetta var of mikið. Svo ræddum við saman um stund en svo varð okkur kalt í nepjunni, hann gekk inn með rúgbrauðin sín og ég settist inn í bílinn. Hann var ögn lotinn þar sem ég horfði á eftir honum og hann steig þungt til jarðar. Við Ívar vitum vel um aldur okkar og ég held að við séum hvorugur hræddir við ferðina heim. Slíkum hugsunum fylgir þó alla vega sorg.
 
En ég fann samt fyrir ótta hjá honum. Það var þegar hann sagði án þess að reyna að vera gamansamur: Hvernig heldurðu að ég líti út þegar búið verður að taka af mér nefið og ég verð bara með tvær holur í andlitinu? Hann gekk hægt upp tröppurnar heima hjá sér og mig langaði bara að vera góður við þennan mann. Mér fannst hann hafa grennst.
 
Fyrirlesarinn sem tók alla athygli mína í gærmorgun sagði við tryggingarstofnunarfólkið að það gæti haft afgerandi áhrif á líf manneskju með hvaða tóntegund það svaraði í símann. Glaðleg rödd sem byði upp á hjálp gæti breytt framtíðarheill einnar manneskju og alla vega gert ólánsdag að góðum degi. Hins vegar gæti þreytuleg rödd starfsmanns tryggingarstofnunar, eða rödd vinnuleiða, veikt baráttuþrek manneskju sem hringir vegna þess að hún berst í bökkum og er viðkvæm. Ég kem nú til með að spyrja Ívar einhvern næstu daga hvort við eigum ekki að skreppa á Brändåsen til að borða saman. Við höfum gert það einu sinni og ég fann að það var honum mikill félagsskapur. Þannig var það fyrir mig líka.
 
Það er skrýtið að það skuli þurfa að ýta á starthnappin öðru hvoru til að halda góðu gildunum lifandi. Á allra fyrstu árum mínum í Vornesi skáldaði ég upp sögu um það hvernig það er hægt að hafa áhrif á sinn eigin dag. Ég vandaði til þessarar sögu því að hún átti að vera sönn í sér og ég notaði hana í ákveðinn fyrirlestur. Eitt sinn þegar ég hafði sagt söguna sagði einn sjúklinganna að það væri ekki hægt að segja svona frá nema að baki byggi eigin lífsreynsla. Svo veit ég ekki hvenær það skeði að ég hætti að nota söguna sem alltaf virkaði svo vel, en mörgum árum seinna áttaði ég mig á að ég var löngu, löngu hættur að gera það.
 
Fyrir stuttu síðan var mér sagt í grúppu sem ég leiddi í Vornesi að kona sem vinnur þar hefði sagt þeim svo góða sögu. Þau vildu að ég fengi að vita hvað þessi saga hefði fjallað um og þegar ég heyrði það þekkti ég gömlu söguna mína. Hún hafði heyrt hana hjá mér þegar hún var sjálf í meðferð á fyrstu árum mínum í Vornesi. Skrýtið! Af hverju hafði ég hætt að nota það sem virkaði svo vel? Jú, ég hef svo sem fyrir löngu áttað mig á því. Það er þegar hlutirnir fara að vera hversdagslegir sem það þarf að ýta aftur á starthnappinn.
 
Fyrirlesarinn sem ég hlustaði á í gærmorgun ýtti á marga starthnappa hjá mér og vakti margar sofnaðar hugsanir. Svo mun hann líka sjá til þess að einhverjir aðrir ýti á starthnappana hjá honum sjálfum til þess að viðhalda hans góðu eiginleikum við að endurvekja það besta í öðru fólki.
 
Á náttborðinu mínu liggja nokkrar bækur í haug. Ein þeirra heitir "Það skeður þegar þú hvílist". Hún er eftir prest sem heitir Tomas Sjödin. Hann talar um það í þessari bók að hlutir sem við getum ekki leyst í skarkala og stressi umheimsins, þau leysist best og sjálfkrafa þegar við hvílumst í kyrrðinni heima hjá okkur. Ég hlustaði áðan á hluta af þættinum með Skavlan. Síðan slökkti ég á sjónvarpinu áður en þættinum var lokið til að fá næði við að skrifa síðari hlutann af þessu bloggi. Ég vildi á þann hátt klára að vinna úr þeim sterku áhrifum sem ég varð fyrir í gær af ólíkum hlutum.
 
Nú síðdegis heimsótti ég þessi ágætis hjón í Örebro, Svanhvíti og Tryggva Þór. Þá var ég líka búinn að vera hjá rakaranum mínum. Þegar ég heyrði sjálfur hvernig óð á mér þarna heima hjá þeim, þá datt mér í hug að það væri of langt síðan ég hefði skroppið af bæ. Víst eru þau sæt á þessari mynd.
 
Ég vinn dagvinnu á þriðjudag og miðvikudag í næstu. Þá ætla ég að láta koma fram í verkum mínum þá
daga það sem ég hef lært, hugleitt og unnið úr í þessari viku. Ég ætla mér sem sagt að vera fullorðnari og nýtari maður en ég var síðast þegar ég var þar í vinnu fyrir þremur vikum síðan.


Kommentarer
Kristín Aðalsteindóttir

Þú ert svo dásamlegur penni, Guðjón. Þú hugsar svo fallega og uppbyggjandi. Svo var yndislegt að sjá hann góða bróður minn og góðu konuna hans. Besta kveðja, Kristín

2014-11-08 @ 00:21:05
Auja

Alltaf jafn fræðandi skrifin þín kæri vinur. Var einmitt að spá í að þú kemur mjog sjaldan í bæinn! Ertu upptekinn á sunnudaginn? Þá er ég að hugsa um dagsferð með einhverjum þar sem minn maður er á vakt!!

2014-11-08 @ 00:23:22
Steinar

Já þessi skrif voru til "ettertanke" og þannig skrif eru góð. Nú eru nöfn eins og Kilsbergene og Rusakula og sagverkið hans Mats ekki framandiheldur gamlir kunningjar þó eg hafi ekki hitt Mats sjálfan. Eg sagði það ekki við þig þarna á dögunum að sú hugsun kom að mér að hér væri gott að vera eitthvað lengur og hver veit verður. Hefur þú spáð eitthvað mat og blóðflokka?

2014-11-08 @ 01:22:45
Svanhvit

Já Guðjón ,víst erum við sæt svona saman eða hvað.

Svar: Nefnilega alveg nákvæmlega þannig.
Gudjon

2014-11-08 @ 18:07:59


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0