Fimm ára afmæli á Kungsholmanum í Stokkhólmi

Meiningin var í morgun að ég kæmi mér tímanlega að verki við býsna áríðandi verkefni en svo skeði ekkert. Ég var alltaf alveg að fara en ég bara hékk og hélt áfram að hanga alveg fram undir hádegi. Ég var óánægður með sjálfan mig en allt kom fyrir ekki. Tveir til þrír klukkutímar bara runnu hjá og urðu að engu. Svo ákvað ég allt í einu að líta á uppköst að bloggum og búa mig þannig undir kvöldið. Svo ákvað ég hvað ég skyldi gera þetta laugardagskvöld, dreif mig svo út og svo gengu hlutirnir ótrúlega hratt fyrir sig.
 
Bloggið sem ég valdi var uppkast með myndum frá 7.september síðastliðnum, en þá átti hann nafni minn fimm ára afmæli. Núna ætl aðeg að fullklára þetta blogg og senda það svo út á alheimsvefinn.
 
Mér fannst heil mikið til um þetta afmæli þar sem það er svo langt síðan ég hef verið með í barnaafmæli. Ég held að ég fari hreinlega rétt með að ég hef ekki verið með í barnaafmæli í áratugi. Leiðrétti mig bara einhver ef ég er að skrökva. Upp í hugann kom afmæli á Bjargi í Hrísey fyrir 1970. Það var Valgerður sem þá átti afmæli, í febrúar að sjálfsögðu. Það gekk kvef í eyjunni og það var rakið vetrarveður. Prúðbúin börn komu á bjarg, pökkuð inn í mikla fatabagga og það var mikið grænt fyrir neðan nefið. Svo kysstist allur skarinn og Valgerður þakkaði fyrir gjafir með kossi. Ég veti fyrir mér hvað ég ætti að gera því að þetta leit ekki svo vel út. Svo gerði ég ekkert og ég held að það hafi ekki orðið neinn voðalegur eftirmáli af þessu kvefkossaveseni og afmælið varð alveg örugglega hið besta barnaafmæli. En nú til Stokkhólms.
 
Nánustu leikskólafélagar Hannesar mættu í afmælið, ein tíu eða ellefun börn. Það var borinn fram veislukostur, það sem vitað var að væri best þegið. Á myndinni sjáum við fyrsta borðhaldið. Rósa mamma er að þjóna hægra megin við borðið en fjölskylduvinurinn Elísabet Eir Corters, Dúdda, sem kom til að hjálpa til er vinstra megin. Hannes Guðjón situr fyrir enda borðsins vinstra megin.
 
Dúdda var nefnilega ráðin til sérstaks verkefnis. Hún stóð fyrir Ninjadagskrá. Ninjar fá Ninjabelti og Ninja ennisband. Þegar allir voru formlega komnir í Ninjahópinn með belti og ennisbsand, þá hófst löng runa af Ninjaþrautum og Ninjar sem leysa hverja Ninjaþrautina á fætur annarri verða að halda órofa einbeitingu allan tímann og gegnum allar þrautirnar. Þar verð ég nefnilega að segja að ég heillaðist alveg af því hvernig Dúddu tókst að halda einbeitingu barnanna þannig að það var ekki nema eitt og eitt andartak sem eitt og eitt barnanna datt aðeins út úr einbeitingunni. En Dúddu tókst að ná þeim inn í einbeitinguna jafnóðum og eitthvað brá útaf.
 
Ég áttaði mig fyrst almennilega ná því hvað var að ske þegar börnin fylgdu Dúddu eftir niður tvo stiga í óslitinni halarófu og þau slepptu aldrei höndum af handriðinu vinstra megin við sig vegna þess að það var hluti af Ninjaþrautunum að sleppa því ekki. Ninjar eru afar samviskusamir og fylgja leikreglunum af heiðarleika. Úti í bakgarðinum héldu svo Ninjaþrautirnar áfram hver af annarri, alveg ótrúlega lengi en án þess að sjálfsagi Ninjanna þryti. Ég var alveg heillaður af þessu, það skal ég viðurkenna. Þess vegna var ég ákveðinn í að þetta skyldi verða efni í blogg sem ég skyldi fylgja vel úr hlaði. Nú er ég að gra það tveimur mánuðum seinna.
 
Í bakgarðinum var svo borðhald númer tvö. Þarna var öllum Ninjaþrautum lokið með árangri sem ég hefði aldrei getað látið mig dreyma um. Rósa og Pétur þjóna fyrir borðum og tveir foreldrar eru þarna komnir til aðstoðar. Það er mikil röð og regla þarna vegna þess að Ninjar eru engir ólátabelgir. Ninjar eru auðvitað prúðir og öllum öðrum Ninjum til fyrirmyndar.
 
Ég vil nefna þessa þrjá sem eru þarna lengst til vinstri hinu megin við borðið. Þarna var kominn einn gestur til viðbótar sem er ekki í leikskólaliðinu hans Hannesar og er lengst til vinstri. Það er Íslendingurinn Kári, sonur hennar Helgu Sverrisdóttur sem var í mannfræðinámi með Rósu og býr í Stokkhólmi. Kári var yngstur þarna, sérstaklega fallegur og prúður eins og Ninjahópurinn allur. Næstur er svo Íslendingurinn Hannes Guðjón, afmælisbarnið sjálft. Sá þriðji er svo Oskar og það sem hann kemst næst því að vera Íslendingur er að hann hefur gist á Sólvöllum.
 
Bakgarðurinn að Celsiusgatan 3 er lokaður á alla vegu og inni í honum er hlynur. Þessi hlynur er ekki stór, heldur er hann alveg gríðarlega stór. Það má segja að greinahafið fylli garðinn sem er þó vel stór. Það er að líða að lokum veislunnar og frágangur er hafinn. Það fór heilmikið og gott orðspor um Kungsholmann eftir þessa afmælisveislu. Hún var minnisstæð og Ninjaævintýrið hafði verið alveg sérstaklega vel heppnað. Næsta leikskóladag komu margir Ninjanna með Ninjabeltið sitt og ennisband í skólann.
 
Þannig getur fimm ára afmælisveisla litið út í Stokkhólmi.
 
 
 
 
Ein mynd til viðbótar. Hannes Guðjón er búinn að fara í Íslandsferðir, hann er búinn að fara til Grænhöfðaeyja og eitthvað fleira. Á þessari mynd er hann í sjónum við eyjuna Rodos síðastliðið haust. Þegar Guðjón afi hans var tólf ára kom hann í fyrsta skipti út í Mýrdal og að Skógum. Í fyrsta skipti til Reykjavíkur þegar hann var nýorðinn fimmtán ára. Í dag er hann Sólvallakallinn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0