Minningar á allraheilagramessu

Það hefur verið talað um það í dag, á allraheilagramessu, að annar hver Svíi kveiki á kerti til að minnast þeirra sem eru farnir á undan okkur til nýju heimkynnana. Fyrstu árin okkar Valdísar í Örebro fórum við í minnislund í Almbykirkjugarði og kveiktum á kertum þar. Síðan fann Valdís út að það væri mikið einfaldara að gera þetta hér á Sólvöllum. Í einhver ár kveiktum við á kertum úti í skógi, settum sand undir og lögðum greinar kringum kertin. Síðan færði Valdís þennan einkaminnislund okkar heim á lóð að rósunum sem hún hafði valið stað þar sem hún sá þær frá glugganum sem hún sat svo oft innan við. Líklega náði hún ekki að kveikja á minniskertum þar nema einu sinni.
 
Þegar í gær tók ég gömlu luktina, þvoði hana og pússaði, og kveikti svo á kerti og stillti út, einmitt undir rósunum. Ef þetta er gert virkilega í minningu um einhvern eða einhverja, þá hlýtur það að kalla fram minningar. Svo var það með mig. Það byrjaði í gær og hélt svo áfram í morgun og alla vega vel frameftir degi í dag. Síðan á ný þegar ljósið fór að lýsa í myrkrinu. Það hefur ríkt alvara á Sólvöllum í heilan sólarhring.
 
Ég sá fyrir mér nokkuð sem hefur gert mig undarandi í öll ár hér í Svíþjóð. Það var þegar ég sat septemberdag árið 1993 við símann í Sólvallagötunni í Hrísey og talaði við Ingólf Margeirsson. Hvað segirðu um að flytja til Svíþjóðar og fara að vinna þar spurði Ingólfur. Rétt í því kom Valdís innan ganginn þarna heima og þegar hún var að verða komin þangað sem ég sat sagði ég henni hvað Ingólfur hefði sagt. Ég var þá ekki farin að svara spurningunni. Valdís var svo sallaróleg í fasi, horfði á mig sem ekkert væri og svaraði: Já, því ekki það. Þá svaraði ég Ingólfi og sagði að við mundum líta á þetta. Viðbrögð hennar gerðu mig undrandi.
 
Svo var það annað sem gerði mig undrandi og það var þegar ég hafði platað Valdísi út að keyra einn októberdag árið 2002 og ég fór í fyrsta skipti í átt til Sólvalla, leið sem við höfðum farið tvisvar áður, en þá á fallegum sumardögum. Þegar ég var kominn á malarveginn, síðasta spölinn að Sólvöllum, spurði Valdís með þreytulegri röddu hvort það væri sumarbústaður til sölu hér. Hún var orðin leið á öllum mínum endalausu sumarbústaðahugleiðingum.
 
Svo stoppuðum við á veginum framan við húsið, fórum hljóð út úr bílnum og horfðum heim að húsinu. Svo horfðum við í vestur móti Kilsbergen og svo til skiptis á húsið og til Kilsbergen. Eftir að mér finnst langa þögn sagði Valdís: "Hér get ég hugsað mér að vera." Það fyrsta sem mér datt þá í hug var hvaða vandræði ég hefði komið mér í núna. Síðar kom í ljós að það voru engin vandræði.
 
Ég minntist atviks árið 1995 þegar ég skrapp með Valdísi í fullorðinsfræðsluna í Falun. Ég minnist þess líka að Gísli Stefánsson vinnufélagi minn var með í bílnum. Valdís gekk heim að skólanum og mætti konu frá Srilanka og manni frá Filippseyjum. Þarna stoppaði hún og þau hófu líflegar samræður, þau hlógu og höfðu gaman. Að horfa á þetta var mér stór upplifun og Gísli sagði að þessu fólki virtist líða afar vel. Það leit svo sannarlega út fyrir það. Valdís var farin að bjarga sér á erlendri grund.
 
Ég minnist hennar á allraheilagramessu sem og aðra daga.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0