Nú er glatt í hverjum hól

Ég segist alltaf vera að gera eitthvað hér á Sólvöllum og ég er ekki hissa þó að fólk spyrji stundum hvað ég sé að gera. Eigi maður heima í sveit eins og ég geri og svo að ég tali nú ekki um ef maður er einn, þá er auðvelt að láta hlutina fara að grotna í kringum sig og grotna svo með þeim. Það væru mér þungbær örlög að fara þannig.
 
En lítum við til Sólvalla frá lóð nágrannans sunnan við, þá lítur staðurinn alveg þokkalega út.
 
Ef svo er farið aðeins lengra niður í saumarna, þá er hægt að finna eitthvað sem betur mætti fara. Þarna eru þrjú viðarskýli sem eru að verða úr lagi gengin og svo er stór galli við þau. Þegar ég sæki við eða er að stafla viði inn í þau, þá rek ég höfuðið afar oft upp í þakið. Þau halda heldur ekki viðnum nægjanlega þurrum. Þau voru alltaf til bráðabyrgða.
 
Það var einhvern tíma að við Páll bróðir og hún Guðrún mágkona mín töluðum saman á skype. Einmitt þá spurðu þau hvað ég hefði verið að bardúsa þann daginn og einmitt þann daginn hafði ég verið að koma röð og reglu á bakvið Bjarg. Það er svo sem ekkert slæmt um þetta að segja. Þarna er raðað upp viði sem meira að segja er málaður, aflangar blikkplötur skýla viðnum fyrir regni og svæðið lítur bara vel út.
 
 
 
 
 
 
 
Þegar ég fór út í morgun fór ég á sama stað til að taka mynd, en viti menn; detta nú af mér allar dauðar lýs. Hvað hafði skeð þarna bakvið Bjarg. Myndin fyrir ofan var tekinn á nákvæmlegsa sama stsað. Sjúkk!!! Merkir einhver breytingu þar?!
 
Hér fyrir neðan er smá myndasaga.
 
Ég hafði sagt að það væri fullbyggt á Sólvöllum en það var í byrjun september sem ég tók nýja ákvörðun; að byggja eitt hús enn. Ég setti allt í gang, teiknaði og sendi til byggingsarfulltrúa og fór til hans sögunarMats. Ég sagði í bloggum í ein tvö skipti að ég hefði farið til hans til að kaupa spýtu. Sannleikurinn var sá að ég keypti svo margar spýtur að ég var með ólölegt hlass þegar ég ók heim. Síðan keypti ég málningu í Fjugesta og byrjaði að mála. Svo málaði ég og málaði og málaði aftur, keypti annað kerruhlass og hélt áfram að mála. Ég málaði svo mikið að ég var farinn að undrast stórlega allt það magn af málningu sem ég keypti, hverja tíu lítra fötuna á fætur annarri.
 
Bílskúrinn var of lítill fyrir svo mikla málningarvinnu og þess vegna breiddi ég viðinn móti haustsólinni og bar hann svo inn að kvöldi.
 
Undir þakskegginu austan á geymdi ég fullmálaðan við svo að ég gæti málað meira inni í bílskúrnum.
 
Það var 30. september sem þeir mættu hér klukkan hálf sjö að morgni, þeir Martin gröfumaður og Anders smiður. Þá varð minnst sagt ótútlegt um að litast austan við Bjarg um tíma, ótútlegt og ótrúlegt fyrir ellilífeyrisþegann.
 
Um tíuleytið að morgni leit það svona út. Tvö stór bílhlöss af möl jöfnuð undir gólf og papparörin fyrir stöpla komin á sinn stað. Svo kvaddi Martin og við Anders steyptum í rörin og allt þetta var tilbúið um hádegi. Nú var ég feginn. Nú mátti rigna bara alveg eins og hver vildi. Anders fór til sinnar vinnu á öðrum vígstöðvum og ég hélt áfram að mála.
 
Ekki gat ég keypt allt hjá honum sögunarMats. Þann 23. október kom annar Mats, en hann kom frá byggingarvöruversluninni þar sem ég hef keypt svo mikið í Sólvallahúsin. Í þetta skipti kom hann með útveggjapanel, þakpanel, þakpappa, þakrennur, niðurfallsör, nauðsynlega lista á þakið, þakpönnur og efni í vindskeiðar. Og ég inn í bílskúrinn með útveggjapanelinn og vindskeiðaefnið og hélt áfram að mála og kaupa málningu í Fjugesta.
 
Þegar Anders smiður kom svo 28. október var ég búinn að mála allt sem þurfti og meira til og saga í ákveðnar lengdir þannig að við byrjuðum bara að negla saman og þá rauk undan skósólunum. Það er of langt mál að útskýra hvers vegna meira að segja þessar undirstöður eru líka málaðar, en það var nauðsynlegt að gera svo.
 
Upp úr miðjum degi leit það svona út og um kvöldið vorum við ennþá lengra komnir.
 
Að kvöldi annars dags vorum við komnir svona langt og vorum mjög ánægðir. Ég tók fánann hans Hannesar og flaggaði á vesturstafninum. Nágrannar voru farnir að koma og engu af uppátækjum mínum á Sólvöllum hefur verið tekið með meiri áhuga en þessu -og af meiri jákvæðni. Það kom í ljós að margur vildi hafa þessa byggingu heima hjá sér.
 
Að morgni þriðja dags kom maður að nafni Lars með Anders og nú hélt áfram að rjúka undan skósólunum. Á þessum þriðja degi kom klæðningin á þakið báðu megin, vindskeiðar sem þá voru hvítmálaðar og snyrtilegar og ákveðnir listar upp og niður þakið sem halda í raun pappanum niðri. Þennan dag, fimmtudag, var ég handlangari og kokkur. Ég var búinn að lofa góðum mat þennan dag og ég eldaði gula baunasúpu með smábrytjuðu svínakjöti í, bakaði pönnukökur og þeytti rjóma. Við vorum allir ánægðir, smiðirnir og ég, og gerðum matnum góð skil. Þennan dag kláraðist sultan mín.
 
Eftir þetta hélt ég einn áfram, setti upp þakrennur, þverlistana sem sjá má á þakinu, bar upp 1350 kg af þakpönnum og raðaði síðan á. Það rauk ekki beinlínis úr skósólunum eftir að ég varð einn en marga daga hefur gengið vel. Sumir dagar hafa verið 12 tíma vinnudagar og öll framvinda hefur verið stórskemmtileg.
 
Þakið er þarna tilbúið með öllu tilheyrandi og þá bar ég inn allan við sem ekki var undir þaki, setti inn ýmis áhöld og öll garðhúsgögn. Síðan hélt ég áfram ýmissi vinnu við veggi.
 
Hér er svo norðurhliðin á þessu húsi. Það er ekki komin röð og regla á þarna inni en allt er í skjóli. Þegar ég skrifa þetta þriðjudaginn 25. nóvember er ekkert sem liggur frekar á að gera. Það má koma vetur og ég get dundað þarna einn tíma einhvern daginn, fjóra tíma einhvern annan dag og gert ekkert þar einhverja daga líka. Það eru komnir góðir tímar á Sólvöllum.
 
En! Í dag setti ég vetrarhjólin undir bílinn en það bærðist undarleg tilfinning innra með mér og sama tilfinning var þar í gær. Þetta er tilfinning sem potar í mig hingað og þangað, fær mig til að halda að ég eigi að gera eitthvað annað en ég geri og lengst inni er órói. Ég á nefnilega erfitt með að skilja að nú má ég hafa það notalegt, að ég þurfi ekki lengur að hamast og keppa við árstíðina. Það er margt eftir í þessu nýja húsi innanverðu og það er margt eftir að gera hingað og þangað á Sólvöllum. En það liggur ekki lífið á! Ég hef ekki lagt jafn hart að mér við neitt annað verkefni sem ég hef unnið að hér á Sólvöllum og það hefur einhvern veginn sest að í mér.
 
Kannski ég þurfi bara að fara í afvötnun í Vornesi til að ná mér niður. Nei, ég ræð við þetta og núna er ég að fara í mat á Brändåsen svona til tilbreytingar. Á morgun þarf ég að ná í föt í hreinsun og ég ætla líka að kaupa mér stóra tertusneið, en áður en ég legg af stað ætla ég að skoða nýja húsið mitt. Svo þegar ég kem heim ætla ég að skoða nýja húsið mitt aftur, fara síðan inn og skoða í bankann minn til að sjá hvað ég fæ útborgað. Svo ætla ég að hita mér kakó og borða tertusneiðina.
 
Nú er ég búinn að nota mikið af hvítri lygi síðustu vikurnar með því að segja aldrei hvað ég var að gera. Nú er líka komin skýring á því hvers vegna ég hef verið mjög ósýnilegur í fleiri vikur. Hefði ég sagt frá þessu meðan á verkinu stóð hefði fólk bara haft áhyggjur af mér eða þannig leit ég á það. Það voru bara Rósa og Valgerður með fjölskyldum sem vissu um þetta og einir tveir eða þrír aðrir.
 
 


Kommentarer
Steinar

Til hamingju með nýja húsið, nú væri gaman að fá loftmynd.

Svar: Já Steinar, nú væri gaman að fá loftmynd og mig grunar að ég mundi tapa illilega fjármálaskininu ef það stæði allt í einu sölukona með þá mynd í hendinni eins og þegar við fengum núverandi loftmynd. Þá bara á einni sekúndu tapaði ég tilfinningunnni fyrir muninum á tíu krónum og þúsund krónum.
Gudjon

2014-11-25 @ 19:20:47
Þórlaug

Til hamingju með nýja húsið. Þú slærð ekki af, meiri dugnaðurinn í þér!!!
Verði þér tertusneiðin á morgun að góðu, þú átt hana sannarlega skilið :-)
Kærar kveðjur,
Þórlaug

Svar: Takk Þórlaug. Nú fer ég að slá af en það kostar eitt blogg að útskýra það. Mér er gefin góð heilsa og þá er margt hægt.Kveðja til ykkar frá Guðjóni Sólvallakalli.
Gudjon

2014-11-25 @ 23:52:44
Björkin

Sæll Sólvallakarl.Ég held að þú þurfir bara heila tertu eftir þessa smíðatörn.Ég held að hvönninn gefi þér ofurkraft.Þetta er flott og gott að hafa viðinn allan á sama stað.Gangi þér vel mágur minn og farðu vel með þig.Kveðja úr Latabæ.

Svar: Gangi ykkur vel líka og fáið líka kraft úr hvönninni. Með bestu kveðju.
Gudjon

2014-11-26 @ 13:06:49
Dísa gamli granni

Ja, Guðjón. 'EG er svo aldeilis hissa en þér er ekki fisjað saman en til hamingju með allt saman. Það væri ekki amalegt að fá þig í smákökurnar mínar. Kærar kveðjur til þ´n og fjölskyldunnar.

Svar: Ég er orðinn dálítið nákvæmur á hvað ég borða en einstaka kökuveisla skaðar ekki og svoleiðis eykur líka á þann selskap sem fólk fær út úr því að hittast. Ég mundi svo gjarnan vilja komast í kökurnar þínar og kannski byrja á því að fá mér mjólurglas með þeim fyrstu sem ég mundi smakka á. Þakka þér fyrir góðar óskir og mínar innilegustu kveðjur til ykkar.
Gudjon

2014-11-30 @ 00:23:11


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0