Súkkulaðið skal bjarga því

Sumt hefur gengið á afturlöppunum hjá mér í dag. Ég hef mælt vitlaust og reiknað vitlaust og gert vitleysur út frá því. En það var ekkert óafturkræft og skilur engin merki eftir sig. Síðast þegar ég bloggaði reyndi ég að lýsa atvikum hér heima sem tengdust breytingu á klukkunni. Svo las ég það yfir daginn eftir og sá að mér hafði alls ekki tekist að koma því spaugilega á framfæri. Hefði góður grínisti séð til mín og séð líka inn í huga minn, þá hefði hann getað gert mjög spaugilegan grínþátt útfrá því.
 
Ég ætlaði að fara að borða kvöldmat um daginn en fannst hálf kalt þannig að ég fór frá matnum til að sækja við. Ég setti á mig ennislampa og fór út með viðarkörfuna og fyllti hana. Eins og venjulega rak ég hausinn upp í lágt þakið á viðarskýlinu og hugsaði rétt einu sinni enn að ég þyrfti að eignast almennilegt skýli yfir viðinn minn. Með það fór ég inn og kveikti upp.
 
Hlustandi á snarkið frá viðnum sem var að byrja að loga settist ég ánægður við matarborðið og byrjaði nú að borða. Eftir einhverja mínútu tók ég eftir því að ég lýsti með ennislampanum á diskinn sem ég var að borða af. Það var ekki dregið fyrir gluggann þannig að hver sem var gat hafa horft á þetta. Ég kippti mér ekki upp við það en tók þó af mér lampann og slökkti á honum. Mér fannst þetta óttalega broslegt og mikil lifandis ósköp hefði Valdís hlegið ef hún hefði setið á móti mér við marartborðið í þetta skipti.
 
Fyrir fáeinum dögum las ég um það bæði á íslensku og sænsku að súkkulaði væri sannanlega mjög gott til að viðhalda minni og meira að segja gæti súkkulaðiát bætt tapað minni. Að vísu var í öðru hverju orði talað um kakó í þessu sambandi. Ég þaut til Fjugesta með kerru til að kaupa súkkulaði. Svo keypti ég væna súkkulaðiblokk, stakk henni í jakkavasann innan á og fór svo á annan stað til að kaupa efni sem ég setti á kerruna. Þegar ég kom heim var súkkulaðið orðið mjúkt eins og pönnukaka í vasanum og mátulegt til að borða með skeið.
 
Ég er búinn að fá mér súkkulaði núna í kvöld. Börn ganga gjarnan milli húsa um þessa helgi, máluð ævintýralega og í skrautlegum búningum. Svo syngja þau og vonast til að fá sælgæti að launum. Börnin í næsta húsi eru ekki heima í dag þannig að það komu engin börn og sælgætið er allt í poka frammi í eldhúsi. Það sama var uppi á tengingnum í fyrra og sælgætið sem ég keypti þá var í skáp frammi í forstofu í eina níu mánuði þangað til að það gekk út á einhvern hátt. Alla vega er það horfið og það fór ekki ofan í mig.
 
Það sem ég hef skrifað um mig núna er ekki beinlínis nein afrekaskrá. Ég gæti hins vegar vel gert það og kem til með að gera það fljótlega. En ég hef gaman af því að gera hóflegt grín að sjálfum mér og ef einhver skyldi geta hlegið að því, þá er það velkomið. Sæi ég einhvern annan borða við matarborðið heima hjá sér með lýsandi lampa á enninu, þá mundi mér þykja það hlægilegt.
 
Gott ef ég er ekki farinn að hlakka til næsta sumars, að vera ellilífeyrisþegi og fara á fallega staði til að borða hádegisverði á blíðviðrisdögum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0