Daginn eftir Rusakula, Nora, Uskavi

Við Susanne vorum á ferðinni í gær og mér getur tekist að segja langa sögu af því. Það var dúna logn, glampandi sól og mælirinn í bílnum sýndi 26 gráður. Sem sagt einn af þessum sænsku sumardögum sem ekki geta verið betri.
 
Þessa ferð ákváðum við fyrir nokkrum dögum. Súsanne hefur lítið farið hér í kringum Sólvelli, Fjugesta og Örebro. Það var kominn tími til að sýna henni eitthvað. Ég ákvað að sýna henni Rusakula, Nora og Vötnin þrjú sem eru á Norasvæðinu. Við ákváðum líka að hafa með morgunverð, vel smurt brauð og kakó á hitabrúsa. Svo stakk ég í laumi niður postulínsdiskum og hnífapörum til að þurfa ekki að éta úr hnefa upp á þessum besta útsýnisstað sem Rusakula er í Örebroléni. Svo varð morgunverðurinn að hádegisverði líka.
 
Þessi mynd er mjög léleg en það var líka erfitt að taka mynd beint á móti sól þarna uppi í gær. Rusakula er ekki nema 265 metra yfir hafi en samt er mikið útsýni þar, útsýni yfir stóran hluta af Örebroléni. Hægt er að sjá þaðan í kíki ákveðinn kirkjuturn sem er í 75 km fjarlægð. Það þætti ekki svo mikið upp í Jämtland en það er samt dágóður spölur. Ljósu svæðin á myndinni eru akurlönd og svo eru stöðuvötn inn á milli.
 
Það er eins og annars staðar í Svíþjóð að kringum Rusakula eru víðáttumiklir skógar sem teygja sig yfir holt, hæðir og hnjúka og klæða landið í feld sem gefur góð lífsskilyrði. Að sjá ekkert fyrir skógi segja sumir en ég sé alla vega skóginn og fyrir mér er það lífsgæði.
 
Á auðum svæðum er mikið af beitilyngi sem gefur lit og í gær glitraði það í sólskininu. Þetta beitilyng vex kringum klapparhornið sem Rusakula er.
 
Við vorum hissa á því að flest fólk kom sem snöggvast þarna og fór snöggt til baka. En svo birtist bíll sem kom nær en aðrir bílar. Honum var lagt í rólegheitum og út steig kunnuglegt fólk. Þar voru komin Robban og Gihta. Gihta er ein af konunum fjórum sem borðaði með Valdísi einu sinni í mánuði í fjölda ára. Gihta er finnsk og er eitt af þeim tugþúsunda barna sem voru flutt til Svíþjóðar á stríðsárunum og mörg áttu aldrei afturkvæmt. Þau komu með nesti, borðuðu það og héldu svo aftur heim á leið. Tvær konur komu svo með nestistösku með sér og biðu rólegar eftir að komast á bekkinn og tóku hann yfir þegar við Susanne fórum.
 
Við komum til Nora. Þar var ótrúlegur aragrúi af fólki hreint um allt. Í Nora er seldur ís sem er sagður besti ís í landinu og það var greinilega seldur mikill ís á þessum fallega sumardegi. Við fengum okkur auðvitað ís sem var eiginlega eftirrétturinn eftir máltíðina á Rusakula, en myndin sem við héldum að við hefðum tekið af vel útilátnum ískrúsunum okkar finnum við ekki.
 
Ég legg alltaf leið mína í kirkjuna í Nora þegar ég kem þangað og svo gerðum við nú. Ég hef tekið mynd af altarinu þar en núna tók ég mynd af því sem við sáum á leiðinni út. Það er svalt og gott í kirkjum á heitum sólskinsdögum þar sem útveggirnir eru ótrúlega þykkir. Þessi kirkja er byggð á árunum 1878 til 1880. Það hafa verið snögg handtök á þeim árum.
 
Frá Nora ókum við norður til vatnsins Usken og komum við í Uskavi að áliðnum degi til að fá okkur fyrsta kaffi dagsins. Þar var líka erfitt að taka mynd á móti sól eins og á Rusakula en ég læt þessa mynd fara samt. Það er ótrúleg náttúrufegurð við Vötnin þrjú.
 
Þessi mynd er í aðra átt af sama stað, undan sól. Mikið væri gaman að geta tekið myndir af náttúrunni akkúrat eins og hún er en mér er það ekki fært.
 
Í húsinu þarna uppi fengum við gott kaffi og kærkomið. Við vorum farin að tala um að við yrðum að fá okkur kaffi áður en við kæmumst i vont skap og okkur tókst það. Með kaffinu fengum við stóra köku sem var bragðbætt ríkulega með hindberjum og bláberjum og svo fengum við ískúlu á kökuna. Þegar við komum til Uskavi áttaði Susanne sig á því að hún hafði verið þar fyrir sjö árum með syni sínum sem þá var í sumarbúðum fyrir unglinga.
 
Svo bað ég Susanne að taka af mér nærmynd undir gríðar stórri krónu blóðbeykitrés. Það var undir þessari krónu sem við drukkum kaffið og borðuðum stóru kökurnar. Við vorum þarna á stað sem tekur 70 mínútur að aka til frá Sólvöllum ef farið er beint og meðan við drukkum kaffið sagði ég við Susanne að mér þætti sem ég væri kominn til útlanda. Náttúran hér í landi er afar breytileg.
 
Það nálgaðist kvöld og við héldum heim á leið eftir ótrúlega góðan dag. Það var mikið að segja eftir þennan dag, við þurftum ekki meira en svo til að breyta til. Þegar við lögðum okkur í gærkvöldi ætlaði Susanne að lesa nokkrar síður og ég ætlaði að segja eitthvað þegar hún hætti að lesa en mér fókst það ekki. Ég sofnaði svo fljótt að ég man varla eftir að hafa lagst á koddann. Ég var ekki meiri selskapur en svo það kvöldið.
 
 
 
Nú sit ég við tölvuna snemma að morgni en Susanne sefur hljóðlátum svefni. Á morgun, mánudag, á hún að vinna fram á seint kvöld og byrja eldsnemma daginn eftir. Hún ætlar því að sofa á vinnustaðnum þar sem nóg er af lausum herbergjum. Hún ætlar að sofa á efstu hæðinni þar sem enginn býr núna. Þar bjó áður bílstjórinn sem var kominn á tíræðisaldur. Hann sótti við út í víðáttumikla skógana meðan hann var fullfær til vinnu og þá voru ekki nýmóðins kranar á vörubílunum eins og í dag. Þá máttu menn gjöra svo vel að koma viðnum á bílana með handafli og sjálfsagt eihverri frumstæðari tækni líka. Hann var rammur að afli höfðu börnin hans sagt. Nú var hann maður kominn að síðustu dögum lífs síns og hann vissi það. Hann hafði ekki lengur lyst á mat.
 
Susanne spurði hann hvaða matur honum hefði þótt bestur gegnum lífið. Hann sagði henni það og það var matur þar sem uppistaðan líktist kannski íslenska blóðmörnum. Súsanne fór sérstaklega út í búð og keypti í þennan mat sem hún matreiddi svo handa honum. Svo mataði hún hann. Svo illa var nú komið fyrir þrælsterka vörubílstjóranum. Hann mumlaði ens og barn þegar hann borðaði eftirlætismatinn sinn. Svo borðaði hann aldrei meir.
 
Það er nú best að vera vel úthvíldur í vinnunni sinni.
 
Þegar við vorum á leið til Rusakula var hringt frá Vornesi. Geturðu unnið á mánudag og þriðjudag var ég spurður og sem skýringu fékk ég að fólk væri veikt. Ég kem til með að vinna og ég ætla að gera eins og Susanne og sofa á vinnustaðnum. Hvers vegna skyldi ég aka 150 kílómetra til að sofa eina nótt. Ég hef sjaldan gert þetta þegar ég hef unnið dagvinnu í Vornesi en hef gert það nokkrar nætur upp á síðkastið. Ég veit að þessi mikli akstur er ekki alveg hættulaus og hann er meira þreytandi fyrir mig en vinnan.
 
Ég vann langa helgi í Vornesi um síðust helgi og hafði upplýsingafund með fólki sem kom á sunnudeginum til að heimsækja ættingja sína og fjölskyldumeðlimi. Það er mikil alvara ríkjandi hjá þessu fólki og það verður hreint ekki sagt að það geri að gamni sínu á þessum upplýsingafundum. Það er við svona tækifæri sem mér þykir vinnan mín gríðarlega mikilvæg og að ég verði að vera mikið samviskusamur starfsmaður.
 
Ég veit ekki hvers vegna yngra fólkið sem getur átt mig að föður er svo mikið veikara en ég, en kannski þyrfti það að borða meiri blóðmör og sofa meira á nóttunni. Ég legg mikla áherslu á bæði matinn minn og nætursvefninn og ég reyni að rækta sem best samvisku mína á AA fundunum í Fjugesta. Ég á erfitt með að neita þessari vinnu þó að ég mundi svo gjarnan vilja hafa meiri tíma til að snurfusa kringum mig heima, hreinsa illgresi og grisja skóg. En ég trúi líka að blanda af þessu öllu saman sé best. Svo getum við Susanne farið með nestistöskuna okkar á fallega staði meðan sumarið endist til að krydda lífið. Það þarf kraft og samviskusemi til að mata þá deyjandi og til að rétta þeim hendina sem vilja draga sig upp úr alkohólismans miklu eymd.
 
Mikið getur ein dagsferð orðið að löngu máli.


Kommentarer
Anonym

Sæll Gudjon og takk fyrir frásögnina frá Rusakula og Nora. Þú segir vel frá og ert glöggur á það sem fyrir augu ber. Við erum heima þessa daga en í síðustu viku skruppum við í þrjá daga til Ludvika og Fagersta og spiluðum golf á góðum golfvöllum í fallegu umhverfi. Það er bæði skemmtilegt og heilsusamt.

Bestu kveðjur til Susanne.
Tryggvi

Svar: Sæll Tryggvi. Ég fylgdist með ykkur á Feisbókinni og hafð gaman af. Ég er í vinnu núna og á morgun, annars langar mig að við getum hittst fljótlega. Það getur samt ekki orðið fyrr en eftir viku. Við heyrumst. Með betu kveðju til ykkar beggja frá Guðjóni og Susanne.
Gudjon

2015-08-24 @ 19:25:30


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0