Annar hluti um lífið og tilveruna eftir Vestmannaeyjaferð 2014

Þegar ég sá fram á það snemma morguninn eftir að Guðdís varð stúdent að bloggið mitt yrði allt of langt ákvað ég að halda áfram síðar. Samt skrifaði ég niður nokkra punkta til að hafa aðeins hugmynd um hvað mér bjó í brjósti þann daginn.
 
Ég sat upp á Eldfelli á hvítasunnudag og réði ekki við tölvuna mína. Ef ég hefði lagt meiri stund á að læra á tölvur hefði ég kannski ekki lent í vandræðum. Mér hefur nefnilega verið sagt að ef ég nota tölvuna öðru vísi en ég hef gert, þá hefði batteríið síður gefið sig. Ég hafði hins vegar ekki nógan áhuga fyrir að læra, kannski bara latur, og hef notið þess að aðrir með meiri áhuga og sjálfsbjargarviðleitni á þessu sviði hafa verið reiðubúnir að aðstoða mig. Ef ég kann ekki mitt setur það mér takmörk.
 
Um daginn heimsótti ég hana Guðrúnu Jónsdóttur frá Fagurhólsmýri. Hún hefur virkilega orðið þess varhluta að heilsan getur brugðist til beggja vona þegar minnst varir og hún á erfitt með mál. Hún býr nú á elliheimilinu Grund. Guðjón, sagði hún frænka mín, ég hélt einu sinni að þú ætlaðir að vera læknir. Ég svaraði því til að það hefði verið ætlun mín á yngri árum. Þannig var það líka. En á leiðinni brást ég köllun minni og fór í smíðar og síðar í eitt og annað áður en ég fór í það starf sem ég hef nú stundað í meira en tuttugu ár.
 
Læknisstarfið sem aldrei varð var köllun en þar sveik ég sjálfan mig. Þegar ég fór í síðasta starfið mitt var það köllun. Þá tók margt við sem ég þurfti að takast á við í sjálfum mér til að uppfylla köllun mina. Ég las margt og geri enn. Oft sótti ég í kyrrðina í Nikolaikirkjunni í Örebro og hugleiddi manninn í sjálfum mér og ég fór líka á námskeið. Ég æfði 12-spora kerfið, æfði að segja sannleikann um sjálfan mig á AA fundunum, æfði einveru og æfði að vera með fólki.
 
Vissir staðir virtust betur til þess fallnir en aðrir til að hugleiða minn innri mann. Eldfell varð einn af þessum stöðum. Ég varð þess var í fyrstu ferð minni þangað upp að það var eins og ég kæmist í tengsl við eitthvað máttugt. Sitjandi þar uppi, finnandi ylinn frá iðrum jarðar streyma upp í gegnum sitjandann og hitann sem umvafði hendina sem ég gróf í vikurinn, gufan sem þá steig upp úr hlíðunum, þetta kom mér í einhverja sálarstemmingu sem mér líkaði vel. Hugsanirnar komu og fóru og þær óþægilegu fengu að koma og vera svo lengi sem þeim þókknaðist. Ég hef líka gert þetta uppi á Eldfelli í dimmri þoku í ein tvö eða þrjú skipti og það voru kannski sterkustu stundirnar.
 
Háaldraður maður í kirkjunni sem við Valdís sóttum Örebro sagði mér frá því að hann hefði í fjölda ára haft dálæti á ákveðnun stað við sænskt stöðuvatn þangað sem hann fór oft til að veiða fisk. Á leiðinni þangað sagðist hann fara um vissan stað þar sem eitthvað þægilegt kæmi alltaf yfir hann. Þar sagðist hann því alltaf stoppa til að vera með um eitthvað gott og uppbyggilefgt í lífinu. Það var hans staður og einn af mínum betri stöðum hefur lengi verið Eldfell.
 
Ég hef alltaf verið ákveðinn í að gera þetta löngu áður en ég hef lagt af stað frá Svíþjóð í Íslandsferðir mínar. Svo var það einhvern tíma þegar Guðdís og Erla voru kannski einhvers staðar á aldrinum sjö til ellefu ára að ég kom til Eyja. Þá fannst mér sem ég hefði alveg sérstaklega þörf fyrir að láta þetta takast vel og hafði undirbúið mig hugarfarslega. Svo rann upp dagurinn sem ég ætlaði að ganga á Eldfell og hugleiða. Þá talaði Valgerður um það hvort ég gæti ekki tekið þær systur með. Ég verð bara að viðurkenna að þá var það af og frá í huga mér að gera svo, ég vildi þá frekar fara aftur og taka þær með.
 
Ég gekk einn á Eldfel þann dag eins og í öll hin skiptin og sú ferð tókst ekki eins vel og áður. Líklega nagaði það mig í sálina að hafa ekki tekið þær systur með og ekki varð af fleiri ferðum upp þangað í þeirri heimsókn. Ég hef aldrei farið með Guðdísi og Erlu á Eldfell.
 
Þetta allt hugleiddi ég í heimsókn minni til Vestmannaeyja í vor og kannski mest vegna skólaslitanna sem ég sat þegar Guðdís varð stúdent.
 
Fyrir all mörgum árum var maður í meðferð í Vornesi, maður sem gat ekki séð að hann hefði nokkur minnstu vandræði með drykkju. Svoleiðis menn er ekki hægt að vera með í meðferð þar sem þeir eyðileggja fyrir hinum og heildin verður að ganga fyrir einstaklingnum. Ég skrifaði hann út og hann fór leiður heim. Þann sama dag hringdi yfirmaður þessa manns til mín. Þessi yfirmaður var kona og hún sagði mér þær fréttir að maðurinn sem ég skrifaði út fyrr um daginn væri þegar búinn að koma til hennar og segja sínar farir ekki sléttar.
 
Hann hafði sagt henni að hann hefði hitt í Vornesi mann sem hann hefði verið alveg ákveðinn í að taka sér til fyrirmyndar því að þessum manni vildi hann líkjast. Svo sagði hann yfirmanni sínum að þessi fyrirmynd hans hefði einfaldlega skrifað hann út úr meðferðinni. Ekki get ég sagt að það hafi verið alveg án tilfinninga að hlusta á þetta en ég var samt ekki í neinum vafa um að ég hafði gert rétt.
 
Ég varð aldrei stúdent og ég varð aldrei læknir. Ég renni huganum yfir þetta í hvert skipti þegar ég sé nýstúdenta og ég gerði það alveg sérstaklega 17. júní þegar nýstúdentarnir frá MR flyktust glaðir um miðbæ Reykjavíkur -vorið sem ég "hefði" orðið student. Þá var ég með lélega samvisku. Í gegnum síðustu áratugina hef ég reynt að vinna mig upp úr því að hafa ekki á sínum tíma ræktað garðinn minn eins og til stóð, að hafa ekki ávaxtað pundið sem skyldi. Þegar ég hafði skrifað út mannin sem vildi taka mig til fyrirmyndar man ég að ég hugsaði að ég hefði væntanlega komist eitthvað áleiðis. Þegar ég horfði á hana Guðdísi dótturdóttur mína setja upp stúdentshúfuna sína hugsaði ég það sama en að ég hefði átt möguleika á að komast lengra.
 
Guðdís mín; þú verður góð ljósmóðir og býður mörg börn velkomin í þennan heim ef þú ávaxtar pund þitt vel og og ræktar garðinn þinn. Ég er líka sannfærður um að þú munt gera það. Gangi þér allt í haginn á þeirri leið.
 
Á Smáragötu 13 í Vestmannaeyjum eftir stúdentaútskrift þann 23. maí 2015.
Jónatan, Guðdís, Valgerður


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0