Eldiviðardagur

Ég get sennilega ekki talist hefðbundinn Svíi þar sem ég er núna daginn fyrir hvítasunnu að kljúfa við. Slíkt á að vera búið að ég tel. Hins vegar sagði fyrrverandi vinnufélagi minn við mig fyrir einum ellefu árum síðan að það væri svo sem allt í lagi að fella tré hvenær sem væri bara ef maður sagaði viðinn í lengdir strax. Ég hef síðan farið eftir þessu, ég hef fellt tré á hvaða árstíma sem er ef því er að skipta en ég hef líka reynt að brytja í eldiviðarlengdir strax. Svo eru kubbar sem ég er að kljúfa núna búnir að vera undir þaki í eldiviðargeymslunni í misjafnlega langan tíma. Eldiviðargeymslan er eitt nauðsynlegasta hús sem ég hef byggt á Sólvöllum og hún er trúlega besta eldiviðargeymsla hér í næsta nágrenni.
 
Þessi geymsla er á öfugum stað sagði maður sem kom með Anders smið til að klæða þakið dag einn fyrir tæplega einu og hálfu ári. Hvers vegna segirðu það? spurði ég. Hún ætti að vera heima hjá mér sagði hann. Þennan dag klæddu þeir þakið með venjulegri þakklæðningu eins og um íbúðarhús væri að ræða og svo settu þeir pappann á. Síðan hefur enginn smiður komið á Sólvelli. Þakhellurnar sem vógu 1350 kíló setti ég svo upp á dagparti. Þann dag eins og svo marga aðra daga var ég mjög ánægður með þá heilsu sem skaparinn hefur gefið mér. Ég treysti mér ekki til að reisa veggina einn eða að fara einn í þakið, ég fékk yngri menn til að gera það.
 
Loksins í dag komst ég af stað með að kljúfa við sem var búinn að bíða þar eftir mér. Ég byrjaði á því í dag vegna þess að í morgun var rigning og það var spáð rigningu allan daginn. Það var líka gott að ég komst af stað. Það var eiginlega byrjunin á því að gera það síðasta af Sólvöllum snyrtilegt og fínt. Ég þurfti að byrja á því að taka til áður en ég byrjaði í morgun og þá fann ég að ég var á þessum tímapunkti.
 
Ég man vel hvernig það var hér árið 2007 og 2008, jafnvel lengur. Þá var óhirðan alveg vestur að lóðamörkunum sem eru minna en tíu metra frá húsinu, þeim meginn sem vegurinn er. Eins og þetta er í dag er ég frekar ánægður með það en þegar ég verð líka búinn að gera snyrtilegt þarna að húsabaki, þá verð ég mjög ánægður. Ég hef haft það að markmiði all lengi að þegar ég verð 75 ára, sem verður ju næsta vor, að þá verði allt tilbúið og svo á ég að geta haft opið hús í tilefni að sjötíu og fimm ára afmælinu mínu allt sumarið.
 
Svona er það nú á Sólvöllum daginn fyrir hvítasunnu. Susanne er upp í dölum hjá syni sínum og fjölskyldu hans. Þar er líka sex ára sonarsonur hennar sem var líklega helsti hvatinn að því að hún fór þangað núna. Í dag hafa þau öll verið á "kúslepp". Kúslepp er þegar bændur sleppa kúnum sínum út í fyrsta skipti á vorin. Þá er áhugasömum gjarnan boðið að koma en ég var fjarri góðu gamni.
 
Hérna um daginn var ég að slá lóðina í fyrsta skipti í ár, þá full seint af því að hún var svo mikið sprottin. Þá bara steinhætti sláttuvélin mín allt í einu að ganga og neitaði að fara í gang aftur. Ég lagði hana inn hjá sláttuvélalækninum og þar átti hún að vera í viku. Því bauð vinnufélagi minn mér að lána mér sína sláttuvél. Svo sló ég helminginn af lóðinni og lagði svo sláttuvélinni undir húsvegg. Daginn eftir, í gær, neitaði hún að fara í gang. Ég verð sennilega að fara með sláttuvél vinnufélagans til sláttuvélalæknisins líka þegar ég tek mína.
 
Þar með ætlaði ég að gera aðra hluti og setti kerruna aftan í bílinnn. Þá vildu stefnuljósin ekki virka en samt fór ég af stað til Fjugesta til að kaupa 170 mm frárennslisrör. Það reyndist ekki vera til í Fjugesta. Þá fór ég með ólöglega kerruna inn í Marieberg til að kaupa rörið. Þá var það ekki til þar heldur. Þá bað ég æðruleysisbænina nokkrum sinnum og var tími til kominn eftir óhöpp dagsins og ólöglega kerruna. Þar með var komið kvöld og eftir að hafa gefið Brodda matinn sinn í nýja Broddahúsinu og borða sjálfur, þá gerði ég vinnulista fyrir daginn í dag. Á listanum var að taka nokkurn tíma í að kljúfa við. En mér finnst gaman að kljúfa við og það er gott að hugleiða við það að kljúfa og svo gerði ég í dag, allan daginn. Það var margt á móti mér í gær en í dag hefur hugurinn verið ljúfur yfir vel lyktandi eldivið.
 
Allt er gott sem endar vel.
 
 
Það er þurrt og gott í eldiviðargeymslunni minni. Veggirnir eru með tvöföldum gisnum panel, hlífa við úrkomu en trekkja vel. Það skemmtilegasta við að kljúfa við er að raða honum upp. Sumar eitt var hér fólk sem hjálpaði við kljúfa en ég átti erfitt með að láta þau raða viðnum. Ég varð næstum afbrýðissamur en varð samt að gefa mig.
 
 
 
Annar endinn á viðargeymslunni er fyrir við, hinum endanum er mögulega ætlað annað hlutverk. Glugginn sem á að vera á þessum vegg er búinn að vera til í geymslunni í meira en ár. Að ég valdi að taka mynd af þessari hlið er vegna þess að það er snyrtilegra þarna meginn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0