Sólarsellumaðurinn hefur verið hér

Já, sólarsellumaðurinn var hér í morgun. Þegar við höfðum drukkið kaffi, borðað með því sykurlaust kex með mygluosti og spekúlerað, hann hafði tekið myndir og gert bráðabyrgðaútreikninga með hjálp af flóknum tölvulíkönum sem ég skildi ekkert í, þá var kominn tími fyrir hann að fara til baka á vinnustað sinn. Þar sem hann var á rafknúnum bíl sagðist ég ætla að vera viðstaddur og hlusta þegar hann færi af stað. Þú ert svo velkominn sagði hann en þú kemur ekki til með að heyra mikið.
 
Svo settist hann inn í bílinn og setti á sig öryggisbeltið, renndi niður rúðu og sagði; nú hef ég startað mótornum. Ekkert heyrðist, ekki nokkur skapaður hlutur. Svo bakkaði hann og það var sama, það heyrðist ekki nokkur skapaður hlutur. Svo vinkaði hann og ók út á veginn. Ég hef nokkrum sinnum brófkeyrt rafmagnsbil þannig að þetta var ekkert nýtt fyrir mig en svolítið gaman samt.
 
Ég gekk inn, dálítið ringlaður eftir allar upplýsingar, en fannst allt þetta býsna spennandi. Það er gaman að vera 77 ára og geta þótt hlutirnir spennandi. Svo settist ég við matarborðið og fékk mér meira kaffi. Ég hafði útsýni móti vestri og til höfuðstöðva fuglanna sem ég þarf að drífa mig í að taka niður. Svo hugsaði ég út í peninga og hversu lengi sólarsellurnar frá þessum manni væru að borga sig. Ójá, 20 ár kannski. Úfff! Og kostnaðarútlátin! Hrikalegir peningar þetta. Nei, ég verð nú að hugsa mig tvisvar um. Þetta kemur varla til greina. Ég verð dauður áður en sólarsellurnar á þakinu mundu hafa borgað sig. Þar að auki þarf ég að fórna fyrir þetta þremur stórum birkitrjám sem hafa verið næstum heilan mannsaldur að ná stærð sinni.
 
Hægra meginn við gluggan sem ég horfði út um er almanak og í gær fletti ég frá apríl til maímánaðar. Ég stóð upp og gekk að almanakinu og virti myndirnar á því fyrir mér. Á almanakinu eru þrjár myndir af barnabarninu í Stokkhólmi að leika sér. Hannes verður tíu ára í haust. Hann fæddist inn í þennan heim eins og við höfum gert hann fyrir hann. Ég hugsaði líka til barnabarnabarnanna á Íslandi og í Noregi og sá heimur sem þær dömur fæddust inn í er nákvæmlega eins. Hann er eins og við höfum gert hann fyrir þær. Sama er að segja um einn miljarð barna um allan heim
 
Svo settist ég og hugsaði; hvað er ég að hugsa um krónur og fjárhagslegan ávinning? Hvað er ég að hugsa um þrjú birkitré? Þykir mér vænna um þau og krónurnar mínar en barna- og barnabarnabörnin mín.
 
Guðjón, það er tími til kominn fyrir þig að stíga eitt skref enn í átt að fullorðinsárunum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0