Gestir í Sólvallaskóginum

Um næstíðustu helgi voru hér gestir, komu á laugardegi og fóru á sunnudegi. Það var hún Rósa dóttir mín sem kom með fjölskylduna sína, þá strákana Pétur og Hannes Guðjón. Susanne var ekki heima um þessa helgi, hún var í 25 ára afmæli sonar síns í Eskilstuna.
 
Með þeim var einnig hann Ingimar Eydal frá Akureyri. Skátamaður mikill gegnum allt lífið ásamt því að hafa verið slökkviliðsmaður, björgunarsveitarmaður, sjúkraflutningamaður við allar mögulegar aðstæður, meðal annars í Grænlandsflugi, og nú er hann skólastjóri Sjúkraflutningaskólans. Ég veit að hér er ekki allt upp talið, sumir koma meiru í verk en aðrir. Ég hef vitað af þessum manni í meira en þrjátíu ár en við höfum ekki beinlínis verið kunnugir. Það hefur hins vegar verið góð vinátta milli Rósu og Ingimars í áratugi og svo varð hann fjölskylduvinur.
 
 
 
 
Pétur, Hannes Guðjón, Rósa og Ingimar.
 
Ingimar hefur gegnum árin lesið bloggin mín og hafði áhuga fyrir að koma á Sólvelli og sjá þennan stað sem ég hef svo oft lofsungið í bloggunum mínum. Nú hefur hann dvalið í Stokkhólmi um skeið og svo rann stundin upp að hann stóð föstum fótum á landi Sólvalla.
 
Við gengum inn í skóginn sem ég kalla Sólvallaskóginn eða "minn skóg", skógur með blönduðum trjátegundum, með stórum trjám, minni trjám, litlum trjám og argrúa af plöntum. Þaðan gengum við inn í skóg nágrannans som er meira nytjaskógur og í fyrsta lagi greniskógur. Þar er ein af stærri mauraþúfum landisns, eða alla vega segja Svíar sem sjá þessa mauraþúfu að hún sé sú stærsta sem þeir hafi augum litið. Á mörkum þessara skóga stoppuðum við og hlustuðum á kyrrðina. Í þeirri kyrrð tók ég ekki einu sinni eftir sterku suðinu sem ég hef jafnan fyrir eyrum mér. Við vorum í heimi skógarins, þeim heimi sem aðeins skógurinn býr yfir. Sérstök birta, sérstök kyrrð, sérstakur botngróður og bara sérstakt eitthvað sem erfitt er að tjá sig um en það bara er.
 
 
 
 
Grenið fyrir miðri mynd er í mínum skógi. Þau eru reyndar tvö hlið við hlið en bera hvort í annað á myndinni og efitt að greina á milli. Þarna eru líklega tvö hæstu tré skógarins sem við Valdís spöruðum á sínum tíma þegar við felldum þrettán grenitré sem notuð voru í fyrstu stækkunina á Sólvallagúsinu. Glaður er ég í dag yfir að hafa sparað þau. Þegar birtu tekur að bregða verða þau að ótrúlega stórum risum.
 
Á leiðinni til baka heimsóttum við stórt tré, ösp, sem ég hafði ákveðið að fella og hafði einnig ákveðið að fella hana meðan á þessari heimsókn stóð. Og hvers vegna að fella hana? Jú, hún hafði einfaldega of marga nánustu nágranna og hún hafði gríðar miklar árásargjarnar greinar sem uxu þvert út og höfðu slegið út ársvöxt nágranna sinna árum eða jafnvel áratugum saman þegar skógurinn hafði bylgjast í vindum.
 
 
 
 
 
Þannig leit hún þegar hún var fallin og ég hafði byrjað að brytja hana í eldiviðarlengdir. 25 metra há var hún og auðvitað braut hún dálítið og bramlaði í fallinu en minna en ég hafði óttast. Helgarheimsóknin var öll viðstödd fellinguna og fyrir dóttursonurinn Hannes Guðjón virtist þetta talsverð upplifun. Svo hélt ég með gestunum út að borða hádegisverð áður en þau héldu heim á leið.
 
Einhvern veginn fór það svo að tvo næstu daga byrjaði ég ekki fyrr en rétt fyrir myrkur að flytja heim viðinn -á gömlu hjólbörunum mínum eins og venjulega. Þegar myrkt var orðið setti ég á mig ennislampann og hélt ótrauður áfram.

Að sjá landið líða hjá og hafna svo inni í skógi

Hún Susanne spurði mig hérna um daginn, bara sí svona, hvort ég velti því aldrei fyrir mér að gera eitthvað sérstakt sem mig langar að gera áður en hugsanlega eitthvað skeði sem kæmi í veg fyrir að ég gæti það.
 
Jú, svo sannarlega hef ég oft velt því fyrir mér, nákvæmlega eins og hún spurði, en það fer alltaf á sama veg, ég sýsla við eitthvað hér heima sem mér finnst að mér beri að fullgera áður en eitthvað skeður sem kemur í veg fyrir að ég geti það.
 
Þannig er nú það. Þessi spurning sat í mér og seinna þennan dag sem Susanne spurði mig gekk ég inn og skoðaði lestaráætlanir langt norður í land. Þá var Susanne löngu farin í vinnuna. Eftir dimmumót fyrir nokkrum dögum, eða um það leyti sem ég fékk spurninguna góðu, var ég á leið frá Kumla til Örebro og þar tók lest fram úr mér þar sem sporið er mjög nærri veginum. Vagnarnir voru upplýstir, lestin var hljóðlát og þetta var ein af betri lestum landsins. Þá allt í einu langaði mig í ferðalag með lest. Sitja þar með nestispakka og eitthvað að drekka og bara vera og sjá landið líða hjá. Það er nefnilega alveg frábær ferðamáti og mig hefur oft langað í lestarferð sem tekur marga klukkutíma. Og ef ég færi í lestarferð langt norður í land mundi ferðin taka tvo daga. Hvílíkur lúxus. Ég mundi taka tölvuna með og blogga ef mig langaði til, lesa, tala við Susanne, því að ég mundi gera ráð fyrir að hún væri með í ferð. Svo gæti ég líka bara horft út um gluggann og séð ókunnar slóðir líða hjá.
 
 
 
En bíddu nú við. Í dag var ég staddur út í skógi stuttu fyrir myrkur og leit niður á búninginn sem ég nota þegar ég nota keðjusögina. Hvar eru draumarnir um lestarferðina langt norður í land? Jú, sannleikurinn er sá að mér líður líka afar vel við verkin mín á Sólvöllum en lestarferð með hljóðlátri og góðri lest langt norður í land er ekki lögð á hilluna. Þrátt fyrir útlit mitt þegar ég tók myndina niður á fætur mér leið mér afar vel. Ég hafði líka lofað mér því að þegar ég hætti úti og myrkur skylli á ætlaði ég að fara í sturtu og fá mér svo kaffi og gott með því. Þetta hef ég nú gert.
 
Á árunum um 2000 eyddi ég löngum stundum við tölvuna og skoðaði sumarbústaði sem voru til sölu og hafði gert Valdísi verulega þreytta með því að taka svo langan tíma í þetta. Draumur minn var að eignast bústað undir skógarjaðri sem tilheyrði mér og alveg endilega að ég gæti sinnt þessum skógi sem mínum skógi. Og nú er ég hér og hef árum saman sinnt mínum skógi og reynt að gera hann að mínum draumaskógi. Þegar ég var út í skógi í dag, klæddur eins og ég er á myndinni, horfði ég kringum mig og velti fyrir mér hvernig mér hefði tekist til og ég var mjög ánægður. Ég reyndi að taka myndir af því en tókst ekki.
 
Fyrir nokkrum dögum fékk ég fagmann til að fella "stóru öspina", næst stærsta tréð á Sólvöllum. Hún var stærri en svo að ég léti mér detta í hug að framkvæma það sjálfur. Meira að segja hann Arnold nágranni minn sem var skógarbóndi í áratugi sagði mér að hann myndi ekki hafa gefið sig á þetta tré þó að hann hefði reynsluna.
 
Og þarna stóð ég eina fimm metra frá manninum sem framkvæmdi verkið og það var ekki til baka snúið, verkið var hafið og unnið hratt og af miklu öryggi. Christer heitir hann og býr í nágrannabyggð. Svo féll "stóra öspin" og það var eins og ég missti meðvitund í eina eða tvær sekúndur. Svo féll hún, ein þrjú tonn, með miklum dynk og tók með sér gróður sem ég vildi ekki missa. En það var ekkert val. "Stóra öspin" stóð fyrir þrifum á unggróðrinum í skóginum, tók mikla birtu, vatn og næringu, en í fyrsta lagi birtu. "Stóra öspin" er fallin og með samviskubiti syrgði ég hana mikið þann dag og á þriðja degi eftir fall hennar syrgi ég hana enn, en með dvínandi sorg.
 
Landslagið í Sólvallaskóginum er gerbreytt og í gær og í fyrradag var ég þar með ennislampa að flytja heim í viðargeymslu stórar og þungar sneiðar asparinnar. Þá viltist ég nokkrum sinnum, svo mikil var breytingin.
 
 
 
Neðsta sneiðin er þarna komin í gömlu hjólbörurnar mínar, yfir 60 sm í þvermál. Ég lyfti henni ekki, ég reyndi það og hefði líklega getað það, en þar sem ér er að verða 77 ára hef ég enga löngun til að vera Tarsan. Ég var bara svolítið hugmyndaríkur og verkið lék í höndum mér. Í gær og í dag hef ég komið 25 svona sneiðum inn í viðargeymsluna, allt í hjólbörum.
 
 
 
Símahulstrið mitt liggur þarna á grein frá "stóru öspinni" og ofan við er grein sem óx út frá þeirri grein. Þetta er aðeins um stærðina.
 
 
 
Meira um stærðina. Allar sneiðarnar sem standa upp á endan eru af þessu eina tré, einnig það sem liggur ofan á þeim. Mikið er eftir. Það sem er til vinstri eru kubbar frá öðrum trjám. Þeir eru bara dvergar.
 
Læt ég hér staðar numið með þessa Sólvallaskýrslu en vona að ég komi í verk að skrifa fleiri skýrslur nú á næstunni
 
Með skógarkveðjum frá Sólvöllum.

Aðfangadagur 2018, líkleg kaldasti dagur vetrarins

Við Susanne ókum heiman að móti Örebro klukkan tíu í morgun. Ég að leggja af stað til Stokkhólms en hún til að fara í vinnuna. Mér fannst þetta óréttlátt en hún sagðist glöð að fara í vinnuna þennan mesta hátíðadag ársins, þar mundi hún gleðja aðra. Hitamælirinn í bílnum sýndi -12 gráður.
 
Þegar hlý lestin rúllaði af stað og framhjá bílnum mínum beið hún þar til að vinka í kveðjuskini. Hlý lestin sagði ég og það minnti mig á aðra lestarferð til Stokkhólms. Það var fyrir fjórum árum og þá var líka kaldasti dagur þess vetrar, mun kaldari en dagurinn í dag. Ég skrifaði blogg um þá ferð og nú ætla ég að lesa það blogg yfir snyrta til og birta síðan.
 
 
 
Síðdegis, eða klukkan fjögur á aðfangadag 2014, tók ég lest til Stokkhólms frá Vingåker, litlum bæ stutt frá Vornesi þar sem ég hafði unnið stærstan hluta dagsins. Ég fékk far til vingåker með henni Malin í eldhúsinu  en bílinn skildi ég eftir í bílageymslu í Vornesi. Ég var mættur i Vingåker heilum klukkutíma áður en lestin kom þangað, en ég varð gera svo þar sem vinnu Malin var lokið þann daginn.
 
Vingåker er eins og ég sagði lítill bær og biðsalurinn við lestarstöðina er lítill og ómannaður og mér brá mjög þegar ég uppgötvaði að hann var læstur. Það var vetur og jafnframt mesta frost sem þessi vetur hafði boðið upp á. Heill klukkutími, hvernig mundi það ganga. Ég þekki vel til í Vingåker en þeir sem ég þekki þar er stórfjölskyldufólk sem fær marga í heimsókn á aðfangadag og að hringja og biðja um aðstoð krafðist þess að ég væri í nauðum staddur. Ég hefði að sjálfsögðu gert það en ekki fyrr en það hefði verið farið að sverfa rækilega að mér.
 
Brautarpallurinn er um 200 metra langur. Ég lagði frá mér farangurinn og hóf rösklega göngu fram og til baka, aldeilis án afláts. Einn maður kom á hjóli og heilsaði en hann tilheyrði þeim sem hefðu þurft að vera innskrifaðir í Vornesi. Þrátt fyrir rösklega gönguna og góð föt sem ég var í, fann ég hvernig frostið leitaði án miskunnar inn í brjóstholið og ég skynjaði að þetta mundi enda með ósköpum. Mér fannst ég vera bæði of gamall og lífsreyndur til að lenda í þessari hremmingu. Einhverjar mínútur varð ég reiður út í þetta bæjarfélag með læsta biðsalinn og gaf staðnum nafnið -og lesið nú með smáu letri- ég gaf Vingåker nafnið "helvítis hundhola", sagt nákvæmlega eins og ég hef skrifað það.
 
En mjög fljótt dró ég það til baka. Það voru jól og dagurinn hafði verið aldeilis frábær í vinnunni og jólahelgin hafði virkilega verið hluti af lífi mínu þennan dag.
 
Hún Árný mágkona mín í Garðabænum er kona með trygga lund. Þær voru til skamms tíma þrjár systurnar sem voru svo ríkar af þessu trygglyndi og þær tvær sem nú lifa búa yfir því áfram. Ég fæ oft að njóta þess. Kaldur á lestarstöðinni í Vingåker varð mér hugsað til systurinnar sem hefur verið kölluð heim. Nei, það sæmdi mér ekki að láta niðrandi reiði fá mig til að gefa litlu bæjarfélagi ljótt nafn, bæjarfélagi sem bara hafði reynst nér vel í nítján ár.
 
Á síðustu stundu áður en ég hafði farið í vinnuna fyrir þessi jól hafði ég fengið pakka frá annarri systurinni, þeirri sem býr í Garðabænum. Ég tók þann pakka strax upp og ákvað að taka innihaldið með mér í ferðalag mitt sem nú stendur yfir. Það var grá rúllukragapeysa og mjög fallega prjónaðir vetlingar. Ég tók ákvörðun. Ég gekk að farangri mínum og fór úr vetrarjakkanum, síðan úr jakkanum og síðast tók ég af mér húfuna. Þar sem ég nú stóð þarna á skyrtunni og góðum nærbol tók ég rúllukragapeysuna yfir höfuðið og síðan fljótt á með húfuna. Síðan á mig með jakka og vetrarjakka og svo að síðustu fallega prjónuðu vetlingana frá henni Árnýju mágkonu minni.
 
 
 
 Þegar ég hóf göngu mína á ný um lestarpallinn og fann ískuldann hverfa út úr brjóstholi mínu, þá ákvað ég að segja henni mágkonu minni frá þessu á viðeigandi hátt og geri það nú með þessu bloggi. Hún hefur glímt við erfið veikindi í hendi um lengri tíma og er nýkomin úr mikilli aðgerð varðandi það. Við slíkar aðstæður er fólk í mestri þörf fyrir þann kraft sem hvorki verður mældur eða veginn. Það er krafturinn sem aðeins er hægt að veita með hlýlegum orðum og með hlýjum hugsunum. Mágkona mín, þakka þér svo mikið fyrir jólapakkann sem þú sendir mér þrátt fyrir að þú gengir ekki heil til skógar.
 
Þegar hlý lestin rúllaði að lokum af stað frá Vingåker var ég í góðu jólaskapi. Vingåker var fyrir mér góður og fallegur bær og aldraða, ókunnuga konan sem settist á móti mér á næstu lestarstöð borðaði með mér konfekt sem jólasveinninn í Vornesi gaf mér fyrr um daginn. Áður en við Malin lögðum af stað frá Vornesi spurði ég þessa tuttugu og tveggja ára gömlu ráðskonu í eldhúsinu hvernihg það hefði verið að vinna við það að gefa rúmlega þrjátíu alkohólistum og fíkniefnaneytendum jólamat að borða. Hún sagði að þetta væri í annað skiptið sem hún fengi að gera það og hún sagði einnig: "Ég verð svo hrærð." Ég sá vel að hún varð hrærð við að segja þetta og svo urðum við bæði hrærð og ekki í fyrsta skipti þennan dag. Það voru nú einu sinni jól.
 
Öllum sem lessa þetta óska ég innilega gleðilegra jóla.
 
Að lokum; jólasveinninn í Vornesi sem gaf mér konfektpakkann var leikinn af mér sjálfum.

Sunnudagurinn 21. september

Það er kannski best að stiga fram og segja eitthvað. Ég hef verið fáorður lengi miðað við það þegar ég bloggaði næstum daglega. Hvað veldur veit ég ekki, það bara er svona. En ég veit hins vegar að ég er jafnlifandi núna og ég var áður en mitt bloggandi byrjaði að dragast saman.
 
Upp úr klukkan átta þennan sunnudagsmorgun fór ég út í bílskúrinn til að mála nokkur penslilför. Það var ekki bílskúrinn sem ég var að mála heldur notaði ég hann sem verkstæði til að mála allt aðra hluti. Ég nýt þess að mála þegar ég þarf ekki að vera með sparslfötuna og sandpappír á lofti og sparslrykið smígur um allt, inn í hvert horn og undir fötin alveg inn að skinni. Að klæða viðinn í svo fínt tau og vita að vel málaður kemur til með að verja sig fyrir vatni og vindum, að hafa hljótt í kringum mig og geta látið hugann reika -jú, það er bara svo undur notalegt.
 
 
 
Og hálftíma síðar gekk ég út, tók mér hrífu í hönd hóf að raka saman laufi. Það er ekki fyrsta daginn á þessu hausti sem ég geri það, en þetta var fyrsti dagurinn á þessu hausti sem ég fann virkilega að það var haust. Loftir var rennandi blautt þó að það rigndi ekki, það var lágskýjað og það blés hægum haustvindi og það var nákvæmlega þetta haustveður sem vekur trega hjá mér, vitandi það líka að bráðum falla síðustu gulnuðu laufin til jarðar.
 
 
 
Eftir nokkur hrífudrög leitt ég á trén og skóginn og sá að aðeins einstaka lauf fannst á flestum trjánna, á öðrum trjám litfagurt haustlauf og á einstaka trjám og runnum var iðjagrænt lauf eins og á beykinu á myndinni.
 
Ég reiknaði út að það væri fimm og hálfur mánuður þangað til ég fer að ganga að vissum trjám, taka í grein og grein til að skoða brumin. Er eitthvað farið að ske? Já vissulega. Ef allt verður eins og í meðal ári veit ég að þá verða mörg brum farin að verða þrýstin, jafnvel að fá á sig grænan lit sem greina má undir yfirborðinu. Það er komið fram í apríl. Eftir það ske hlutirnir hratt og á eins og einum mánuði verður það mesta iðjagrænt. En viti menn! mánuðinn þar á eftir verður allt mikið, mikið grænna. Svo er lífið sem paradís á jörð, jafnvel þó að það geti orðið allt of heitt og þurrt.
 
 
 
Svo hélt ég áfram að raka laufi. Ég er búinn að fara margar ferðir með lauf út í skóg. Fyrst fylli ég hjólbörurnar og svo fylli ég bala sem ég set ofan á hauginn í hjólbörunum. Eftir það vel ég eitthvað tré í skóginum sem ég vil vel og þek jarðveginn kringum það með laufinu. Ég kannski veit ekki hvort ég er að gera vel með þessu en í mínum huga er ég að gera það. Þessi laufflutningur er ekki mjög nútímalegur en hér á Sólvöllum er aðferðin viðurkennd.
 
 
 
Hengibjarkirnar tvær sem ég pantaði snemma í vor komu í ágúst. Ég var búinn að gleyma því að ég hafði pantað þær. En hvað um það, ég tók við þeim og gróðursetti þær, að vísu ekki á sama stað og ég hafði ætlað mér. Þar voru þá komin önnur tré. Hengibjarkirnar voru sem sagt gróðursettar seint og nú hef ég varið rætur þeirra fyrir frosti með allt að hálfs meters þykku lagi af laufi. Ég vona að það hjálpi. Svo geri ég ráð fyrir að þetta lauf verði þeim til hjálpar næstu árin á eftir, sem næring og til að varðveita raka. Hengibjörkin á myndinni fyrir ofan sést varla þar sem hun er budninn upp við bambusstöng, þó er hún tveir og hálfur meter á hæð. Svo veikburða getur lífið verið í bernsku. En ef vel tekst til verður hun orðin nokkrir metrar eftir fimm ár. Það langar mig að geta séð þó að ég verði þá kominn yfir áttrætt. Til hægri við björkina og bambusstöngina er fuglakirsuber. Það skal hverfa í vetur og fær sem sagt ekki að vera með um vorkomuna oftar.
 
 
 
Ég hef líka sett lauf í kringum hluta af beykitrjánum sem ég flutti hingað fyrir ellefu árum og talaði um næstum daglega næstu árin á eftir. Þessi beykitré voru tuttugu en eru nú nítján. Að verja þau með laufi yfir veturinn og gefa þeim hænsnaskít snemma á vorin, var það rétt eða ekki rétt? Það var ekkert vísindalegt að baki þeim gerðum mínum en eitt er víst; þau stærstu eru orðin yfir sjö metra há.
 
Ég vissi þegar ég gróðursetti þau hér að Sólvellir eru á nokkuð norðlægri breiddargráðu fyrir beykitré. En ég var ákveðinn í að þau skyldu lifa og ég hef annast þau með hjartanu. Það virðist hafa verið þeim góð umönnun.
 
En heyrðu mig. Dagurinn hefur liðið afburða fljótt. Það hafa verið lauf og tré, málning í morgun og sjónvarpsmessa fyrir hádegi. Ég hef líka smíðað svolítið, horft á það sem ég hef gert og verið ánægður. Susanne fór í vinnu upp úr hádegi á förstudag og fer nú að koma heim og verður þá búin að skila 36 tóma vinnu um helgina. Nú á ég aðeins eitt eftir; að laga svolítið til í kringum mig -og dagurinn er þegar að kveldi kominn.
 
 
 
 
 

En ny bost<

 

Ferðaskýrsla frá Norrland

Ég hef við þann vanda að glíma að halda að það sem skeður í lífi mínu sé svo merkilegt að ég verði að skrifa um það. Líka það að halda að ferðalög okkar Susanne séu svo rosalega merkileg að allir vilji vita hvar við höfum verið og hvað gert. En það er best að hlíða kallinu. Ég er einn heima, sólin skín inn um austurgluggann, hafþyrniberin og eplin bíða eftir að ég klári að tína þau og almennt vil ég fara út, vappa um í rólegheitum, skoða og velta fyrir mér. En nú byrja ég hér.
 
 
 
 
Ég hef áður nefnt Höglekardalinn og að við höfum verið þar. Vikudvölin þar var afmælisgjöf til Susanne þannig að við bara komum þar og vorum á þessum friðsæla stað í 600 m hæð yfir haf, umvafin gróðri með útsýni til nakinna fjallatoppa í allt að 1200 m hæð. Nokkuð dreifð húsin í Höglekardalnum eru að því ég best veit fyrst og fremst í einkaeign þar sem fólk kemur til að dvelja í kyrrð. Í austurhlíðunum eru skíðamannvirki og bústaðir þar að lútandi eru neðst í fjallarótum og all hátt upp í hlíðarnar. Þeir bílar sem fóru um fóru hægt og þeir merktust varla. Eitt hús var verið að byggja all nærri húsinu þar sem við vorum en frá þeim heyrðist aldrei neitt. Ég veit ekki almennilega hvernig þeir fóru að eða hvort það var úthugsað af þeirra hálfu. Kannski skeður það ósjálfrátt á svona stað að fara ekki fram með dúndri og braki.
 
 
 
Frá Höglekardalnum fóru við til Anny og Lennarts, nágranna okkar hér í Krekklingesókn, en þau eiga sumarbústað skammt þar norðan við. Við vorum þar eina nótt og nutum af góðum aðbúnaði og vináttu þeirra hjóna. Sjálf búa þau í húsinu til hægri á myndinni en húsið til vinstri er fyrir gest og gangandi. Þar sváfum við Susanne. Eftir dvölina hjá þeim héldum við langt norður á bóginn og eftirleiðis vorum við tvö á ferðalagi okkar.
 
Hótelið í Saxnesi við vatnið Kulten í 542 m hæð yfir haf hef ég nefnt og þaðan héldum við vestur og suður á bóginn aftur eftir þriggja daga dvöl.
 
 
 
Þetta hús er í hálendinu nálægt norsku landamærunum. Það stendur í allnokkurri brekku og ef tekin væru burtu fáein tré neðar í brekkunni væri alveg frábært útsýni frá húsinu. Fáfarinn vegur liggur eina 40 m neðan við húsið og ekkert annað hús er sýnilegt frá þessu húsi. Lykillinn stóð ekki í skránni eins og ég sagði einhvern tíma, hann hékk við hliðina á dyrunum.
 
 
 
Það var hátt til lofts þarna og eiginlega vítt til veggja líka. Átta rúm eru í þessu húsi. Við Susanne vildum vita af svona húsi og hvernig það væri og við áttum kost á að vera þar eina nótt. Við gerðum það til að kynnast húsinu og fá tengsl við eigandann, Rickard. Þetta hús kostaði 12 000 kr íslenskar sólarhringurinn og það styggði okkur ekki mikið. Ég bendi svo á að það eru sérstakar tröppur í þessu húsi. Alla vega þið með smiðsaugu komið að sjá nokkuð sem er öðru vísi.
 
 
 
Frá húsinu hans Rickards fluttum við okkur nokkrum kílómetrum norðar og þar bjuggum við í húsi hjá honum Jimmy, húsinu sem er í miðjunni. Rödingen, eða Bleikjan heitir það. Það hefur ekki sama tígulleika og húsið hans Rickards en það dugði okkur mjög vel og hafði allt sem við þurftum. Okkur leið vel þá þrjá daga sem við dvöldum þar. Þar sem ég stóð þegar ég tók myndina er húsbíla og húsvagnastæði. Maðurinn sem rekur þetta, Jimmy, er líka bóndi, elur upp nautgripi, en það voru engin dráttarvélalæti eða fyrirgangur af neinu tagi. Það heyrðist í bjöllum sem einhverjir nautgripanna báru og svo komu og fóru bílar af og á stæðið og svo var það ekki meira. Sólarhringurinn hjá Jimmy kostar 8 400 ísl. kr.
 
 
 
 
Nú, lykillinn stendur í hurðinnni, sagði Jimmý þegar ég pantaði húsið. Og svo var það, lykillinn stóð í hurðinni. Þessi tvö síðustu hús eru í nálægð við vatn sem heitir Stora-Blåsjön. Þar er margt forvitnilegt og sumt kostar þó nokkuð langar gönguferðir ef maður vill upplifa það og þá þarf að dvelja þar meira en þessa daga sem við vorum þar. Þaðan héldum við all langt suður á bóginn, til Kolåsen.
 
 
 
Við fjallahótelið Kolåsen er fjöldi lítilla húsa til útleigu. Mörg þeirra standa í brattri brekku ofan við hótelið. Þar á meðal þetta hús, hús nr 428 sem stendur í allt að 500 m yfir haf. Þaðan er hægt að fara í gönguferðir bæði niður á láglendi og til fjalla. Það er hægt að heimsækja Lappakapelluna, hugleiðslubekkinn, það er hægt að láta eftir sér að borða eða fá kaffi og köku á hótelinu hjá Önnu og Mikka og það er hægt að bara vera. Við veltum ekki fyrir okkur hvað við ætlum að gera, við ætlum bara til Kolåsen til að vera þar.
 
 
 
Húsin eru gömul en mörg þeirra uppgerð eins og þetta hús, nr. 428. Gólfið hallar ögn til vinstri þegar komið er inn, einn listi er breiðari að ofan en að neðan og það getur blásið inn með opnunarfagi.. En við veltum þessu ekki fyrir okkur. Húsið er tandur hreint og notalegt. Framan við húsið er stór verönd og frá henni er makalaus fjallasýn, útsýni yfir stöðuvötn og mikinn gróður. Vikan í þessu húsi kostar 53 400 íslenskar krónur, 7 630 sólarhringurinn.
 
Þegar við komum norðan úr landi til Kolåsen vorum við svolítið að koma heim. Þegar við fórum svo frá Kolåsen gistum við eina nótt í bænum Sveg í Härjedalen. Þaðan fórum við svo endanlega heim. Það var gott að koma heim og við vorum ánægð með ferð okkar og vitum svo vel að við eigum svo margt ógert í þessu landi. Við erum þakklát öllu því vingjarnlega og hjálpsama fólki sem við hittum og áttum samskipti við. Það er stór kapítuli út af fyrir sig. Svo var kyrrðin alls staðar þar sem við vorum bara eitthvað alveg dásamlegt.
 
Að lokum. Viðargeymslan mín er með tveimur dyraopum en það eru engar hurðir. Þar lá keðjusögin á viðarstafla, bensín í tveimur brúsum, stór tjakkur, stingsög og borvél ásamt fleiri verkværum í ólæstum skáp. Þar er líka hellingur af þurrum og góðum eldiviði. Under þaki sem er við gaflinn móti skóginum var garðsláttuvél sem ég keypti í fyrra. Allt var þetta heima þegar við komum til baka.
 
En við söknum Broddanna okkar.
 

Að kynnast ókunnum manni

Það er föstudagur og við sitjum í dagstofu á fjallahótelinu Kolåsen og erum svo sem ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Og þó. Ég sit með tölvuna mina og skrifa niður það sem mér dettur í hug og Susanne situr líka með sína tölvu og fer í gegnum tölvupóst og skilaboð af ýmsu tagi sem henni ber að fara í gegnum. En það eru engar tímasetningar og það er ekkert ógert sem óróar okkur og við erum sátt við að vera að gera ekki neitt. Vikan okkar hér er brátt á enda, þetta er næst síðasti dagurinn.
 
Við höfðum stórar væntingar til þessarar ferðar okkar og rétt áðan vorum við sammála um að væntingarnar hefðu gengið eftir. Það hefur margt einfalt rekið á fjörur okkar og það er það sem við erum ánægð með.
 
 
 
Við vorum stödd í Saxnesi í syðra Lapplandi fyrir nokkrum dögum og það var tími til kominn að heimsækja Marsliden, sögulegt svæði þar í nágrenninu, hinu megin við vatnið Kulten. Við komum þar að húsi sem virtist vera einhver blanda af kaffihúsi og pinulítilli verslun. Við ókum inn á lítið bílastæði og horfðum upp til þessa húss sem stóð í talsverðum halla. Við dyrnar var verönd eða pallur með nokkrum borðum og þar sátu menn og spjölluðu saman. Mér datt í hug Jóa Árna tröppurnar í Hrísey þar sem menn, stundum margir, hittust gjarnan, sátu í tröpunum og ræddu gang mála. Rétt þegar við höfðum lagt bílnum kom maður á reiðhjóli sem hann stillti upp við grindverk.
 
Þessi maður hafði höfuðfat sem við vorum ekki vön við og gerði okkur svolítið undrandi. Ég skal viðurkenna að mér fannst sem ekki gætu orðið mikil samskipti milli mín og hans. Hann virtist bara af svo allt öðru sauðahúsi. Hann var á undan okkur upp að húsinu og inn á veröndina þar sem mennirnir sátu. Þá varð augljóst að hann var þeim ekki ókunnur og að hann var samþykktur af þeim, hann varð samstundis einn úr hópnum.
 
Við komum upp á pallinn, gengum inn og svipuðumst um. Það var ekki um mikið annað að velja þar en kaffi og ís enda ekki neitt af verra taginu. Við settumst með veitingarnar við borð á öðrum og lægri palli þar sem miðaldra maður sat og af einhverri ástæðu fannst mér sem hann væri Ástrali. Ögn seinna kom kona sem virtist tilheyra honum. Við sleiktum ísinn og spjölluðum saman okkar megin við borðið en þau töluðu saman hinu megin. Nú kom maðurinn með einkennilega höfuðfatið og mér var spurn hvað væri eiginlega inni í því.
 
Þeir virtust málkunnugir Ástralinn og maðurinn með höfuðfatið. Hvað þeim fór á milli hvorki heyrði ég eða skildi eða reyndi að heyra. Svo virtist mál fyrir Ástralann og konuna að stefna eitthvað annað og þau kvöddu og hurfu af vetvangi. Stuttu síðar sneri maðurinn með höfyuðfatið sér að okkur og ávarpaði okkur á sænsku. Úr því varð heil mikið samtal.
 
Ég gekk smám saman hreint til verks og spurði hann frá hvaða heimshorni hann kæmi. Hann sagðist koma frá lítilli eyju á Karabiska hafinu. Pabbinn hefði stugnið af þegar hann hafði gert mömmu mannins ólétta og meðan hann ennþá var barn hefði mamma hans dáið. Þrettán ára hafði hann verið orðinn þreyttur sem götubarn og ásamt öðrum jafnaldra sínum tóku þeir sig um borð í stórt flutningaskip og földu sig í einhverri kaðalhrúgu. Þar kúrðu þeir þar til skipið var komið svo langt á haf út að þeir vissu að það yrði ekkert gert meira í málinu fyrr en þeir kæmu aftur í land. Þeir höfnuðu í Englandi og hann síðar í Svíþjóð.
 
Hvernig allt gekk fyrir sig var ekki tími til að tala um en hann byrjaði í grunnskóla og gekk svo í gegnum menntaskólann. Þar á eftir skrifaðist hann inn í háskóla og vann nú sem tónlistarkennari og kennari í myndlistum. Þarna nálægt í Marsliden átti hann sumarbústað og var á sumrin leiðsögumaður fyrir ferðafólk sem kom til að skoða landið og til að veiða fisk. Hann var greinilega landfræðilega vel að sér. Við þekktum nógu vel til til að skilja það.
 
Ég spurði hann hvernig það eiginlega væri fyrir þrettán ára strák að koma inn í ókunnugt land þar sem maður kynni ekki málið og þekkti alls engan, bara hreinlega hvernig maður gengi fyrstu skrefin. Ég get ekki haft neitt eftir honum um það en að lokum sagði hann nokkuð sem ég man vel.
 
Hann sagði að það snerist um að vilja vera ábyrgur, að taka ábyrgð á eigin lífi og sem meðlimur í samfélaginu.
 
Við fengum góða tilfinningu fyrir honum og þegar við sáum að kallarnir á efri pallinum sáu hann sem góðkunningja sinn, þá varð hann góðkunningi okkar líka. Hann kenndi mér lexíu með sinni þægilegu framkomu og með því sem hann hafði að segja.
 
Við Susanne getum engan vegin munað nafnið á eyjunni sem hann kom frá og alls ekki hans nafn heldur, þó að hann reyndar stafaði það fyrir okkur. Ef það er sett "h" inn í þitt nafn sagði hann við mig, þá eru nöfnin á okkur ekki svo ólík. Hann gaf góðfúslega leyfi til að taka myndina. Hvað var svo í höfuðfatinu? Jú, það var alveg óhemja af hári.
 
Þetta skrifaði ég á dagstofu fjallahótelsins Kolåsen.
 
 
Séð frá Marsliden suður yfir vatnið Kulten

 
 

Í norðvestra Jämtland

 
 
Við erum í húsi við vatn sem heitir Ankarvattnið og er aldeilis norðvestast í fjöllunum í Jämtland. Húsið nefnist Rödingen, Bleikjan. Vatnið hefur skógi vaxna umgjörð aldeilis allan hringinn og það er í 448 metra hæð yfir sjó. Því miður náði ég engri góðri mynd af því húsi.
 
 
 
Á leiðinni hingað vorum við á ferðinni um mikil vatnasvæði sem eru álíka norðarlega og miðhálendi Íslands og vöttnin þar eru í þetta 530 til allt að 550 metra hæð yfir sjó. Hér er ég að tala um fleiri tugi kílómetra þar sem vatn er alltaf á aðra hvora hönd við veginn, allt frá bænum Vilhelmina og langt norðvestur á bóginn.

Þessi vötn eru líka umvafin skógi vöxnum fjöllum, víða með litlu undirlendi. Lægri fjöllin skógi vaxin yfir fjallatoppana og þau hærri skógi vaxin langt upp eftir hlíðunum. Svona landssvæði heilla mig gerssamlega. Víðfeðmu akurlöndin kringum Sólvelli, umgirt víðáttumiklum skógum, eða skógareyjum, jafnvel með stóru eikartré mitt út í akri, heilla mig einnig, en hið stórfenglega landslag hér upp í norðrinu sem er vaxið svo miklum skógi og gróðri almennt er andstaða heimasvæðisins og tilbreytingin heillar.
 
 
 
En ferðin frá Vilhelmina og norðvestur á bóginn endaði svo á hásléttunni Stekenjokk þar sem vegurinn byrjar að liggja suður á bóginn. Á Stekenjokk liggur vegurinn upp í 876 metra hæð eða svipað Sprengisandi sýnist mér og álíka norðarlega. Allt er þetta malbikaðir vegir.

Fyrir tveimur árum kom ég í fyrsta skipti á Stekenjokk og þá var rigningarhraglandi, aðeins örfárra stiga hiti og vindur. Síðar bloggaði ég um heimsóknina á Stekenjokk og lýsti svæðinu sem ógrónu, grýttu og kuldalegu.
 
Núna kom ég þangað eftir ærlegt þrumuveður og skýfall niður í byggð en fékk að upplifa þar uppi fallegan sumardag með yfir tuttugu stiga hita. Þá komst ég að því að þessi háslétta er alls ekki svört auðn. Þar er mikill gróður, svo sem fjallablóm, mikið af víði og krækiberjalyngi og grasflákar inn á milli.

Þar var mikið af fólki sem var hljóðlátt og við vorum hljóðlát. Við hölluðum okkur góðum stundum upp að bílnum og töluðum bæði lítið og lágt. Við gengum um, stóðum aftur kyrr og héldum áfram að tala bæði lítið og lágt. Þegar við vorum þar fyrir tveimur árum vorum við þar ein í kalsaveðrinu sem ég hef þegar lýst. Samt höfðum við góðar minningar frá þeirri heimsókn okkar til Stekenjökk utan bara að mér fannst sem staðurinn væri nánast eyðimörk.
 
 
 
Eftir dágóða stund á Stekenjokk héldum við svo suður á bóginn að húsinu við  Ankarvattnið. Kjarrið varð smám saman hærra og hærra og síðan tóku við lágvaxin og kræklótt birkitré. Svo tóku við barrskógar blandaðir lauftrjám. Þéttvaxnir skógar sem eru ómissandi til að halda vorri jörð byggilegri.

Efter að hafa sofið eina nótt við Ankarvattnið sunnan hásléttunnar unnum við það til að aka um 30 km norður á bóginn aftur til að upplifa á ný nánast heilaga kyrrðina þar uppi. Þá var þar aftur mikið af fólki, jafn hljóðlátu og daginn áður og staðurinn var ennþá heillandi. Nú hefur Stekenjokk hásléttan mótað sig inn í huga okkar  með kyrrð sinni og heillandi landslagi, með einföldum fjallagróðri sínum og útsýninu til grannlandsins Noregs
 
Það eru víðáttumiklar andstæður milli hásléttunnar annars vegar og skógarins og vattnanna báðu megin við hins vegar, en hvort tveggja heillar mig og ég verð nánast ölvaður av að sitja hér á bekk utan við húsið við Ankarvattnið og skrifa um þetta.
 
 
 
Ég hreinlega elska þessa skóga, seiðmagn þeirra er svo áþreifanlegt, og ég er þeim þakklátur fyrir það sem þeir gera fyrir mig. Eftir bestu getu taka þeir til sín úrganginn sem ég anda frá mér ásamt svo mörgum öðrum úrgangi sem ég skil eftir mig með lifnaðarháttum mínum en þeir hafa bara ekki undan. Án þeirra væru lífsmöguleeikar mínir litlir. Ég elska þá.

Stundum finnst mér sem ég skilji hvers vegna það er gróðurlaust á stöðum á Íslandi sem liggja á sömu breiddargráðu og í sömu hæð og skógrnir hér í Svíþjóð en ef ég ætti að útskýra það fyrir einhverjum núna þegar ég er að skrifa þetta norður undir Lapplandi, þá mundi ég ekki geta gert það.
 
 
 
Við Susanne erum á vel heppnuðu ferðalagi um ókunnar slóðir.

Kæra Norrland

Í gær vorum við Susanne á leið til Saxnes i syðra Lapplandi þar sem við nú erum stödd. Við stöldruðum við í Strömsund sem er hér all nokkru sunnar og fengum okkur hamborgara. Ég beið framan við snyrtinguna eftir að komast að. Eftir nokkra stund opnuðust dyrnar og út kom drengur á að giska tíu ára. Hann leit á mig, opnaði dyrnar upp á gátt og beið þess að ég gengi inn. Svo sleppti hann hurðinni þegar hann sá að ég var tilbúinn að taka við henni þar sem hún lokaðist sjálfkrafa. Bæði hringurinn og lokið voru niðri á klósettinu. Hann hafði prúðmannlegt yfirbragð þessi drengur, hann var ungur herramaður og þannig sá ég hann fyrir mér, líka eftir að hurðin hafði byrgt sýn okkar á milli.
 
Þegar við Susanne vorum á leiðinni út þaðan mættum við ungu pari í dyrunum og svo tvístigum við öll meðan við áttuðum okkur á hvernig við skyldum mætast. Svo heilsuðumst við og hlógum, þau héldu hurðinni opinni fyrir okkur og svo sögðum við öll bless.
 
Þrjú síðustu bloggin mín fjölluðu um upplifanir í Norrland fyrir tveimur árum og á leiðinni að bílnum þarna í Strömsund hugsaði ég út í það að ég hafði ætlað að skrifa svolítinn eftirmála eftir þessi þrjú blogg. Ég nefnilega upplifi marga hluti öðru vísi hér uppi en ég geri sunnar. Sumir hafa ódrepandi áhuga fyrir fótbolta og geta rætt um fótbolta mörgum stundum. Sumir hafa þennan sterka áhuga á bílum, sumir á gömlum bílum, sumir á stangveiði og svo má lengi telja. Ég hef líka mínar dellur og ein þeirra er Norrland. Norrlandsdellan hefur afar sterk tök á mér og ef einhver segir að það sé þess vegna sem ég sé hlutina í öðru ljósi hér uppi þá myndi ég ekki þverneita því.
 
Susanne skipulagði Norrlandsferðina okkar fyrir tveimur árum. Við þurftum að taka bílaleigubíla á tveimur stöðum og eitt sinn sagði Susanne við mig að hún skildi ekki hvernig ætti að panta bíl á netinu. Og þegar ég leit á þetta skildi ég það ekki heldur. Susanne hringdi svo til Hertz í Arvidsjaur og þar var henni bent á að tala við Kurt. Kurt sagðist ekki heldur skilja þetta prógramm þar sem hægt er að panta bílaleigubíla á netinu. Pantaðu bara hjá mér gegnum síma hafði hann sagt og í lok samtalsins hafði hann sagt; "og slepptu svo öllum áhyggjum af þessu elsku stelpan mín".
 
Kurt kom með bílinn að hóteli í Arvidsjaur og kom inn í móttökuna til að ganga frá pappírum. Hann var myndarlegur kall, vel máli farinn, bráð skemmtilegur og glaðvær, nýlega kominn á eftirlaunaaldur og kynnti sig sem fyrrverandi lögreglumann. Þegar við ætluðum að skila bílnum tveimur dögum seinna komum við of seint. Kurt fór bara heim aftur og sagði okkur í síma að hann einfaldlega kæmi aftur, hann hefði bara gaman af að hitta fólk.
 
Ég sá um bílaleigubíl í Vilhelmína það árið. Þar talaði ég við Bengt hjá "Bil og frítíð" og sagðist hann ekki heldur kunna á tölvuprógrammið. Hann var talsvert önnur manntegund en Kurt. Hann var alvarlegur og hafði ekki of mörg orð um hlutina. En þeir áttu það sameiginlegt að það sem þeir lofuðu án undirskrifta, það skyldi standa. "Ég hafði ekki bíl í sama verðflokki og þið báðuð um", sagði hann þegar við komum þangað að taka bílinn, "en þið fáið Volvóinn þarna úti á sama verði". Þegar við komum til baka spurði hann hvort við hefðum fyllt bílinn af bensíni. Æ nei svaraði ég, ég skal fara og gera það. "Þú þarft þess ekki, við bara gerum það og það kostar ekkert aukalega." Þannig var Bengt.
 
 
 
 
Ég sit á hóteli hér í Saxnes og hef mikla fjallaútsýn þar sem skógarnir vaxa upp í miðjar hlíðar og meira. Hið neðra eru vötn með skógi vöxnum eyjum. Í morgun borðuðum við Susanne mikinn og góðan morgunverð. Nú er hún í æfingasal og styrkir kroppinn en ég skrifa.
 
Ég skipulagði ferðina í ár. Snemma í vor talaði ég við Ríkarð sem á hús í fjalllendinu nærri Noregi. Þar var bara um að ræða loforð og af reynslunni treysti ég því. Húsið er með heilum átta rúmum en af ákveðinni ástæðu viljum við vera þar eina nótt. Þegar ég spurði Ríkarð hvar ég ætti að taka lykilinn svaraði hann; "nú, hann stendur í skránni".
 
Skammt þar frá á Jimmý hús sem við leigjum í þrjá sólarhringa og þar gildir einnig loforð. Og þegar ég spurði Jimmý hvar lykilinn væri að finna svaraði hann alveg á sama hátt og Ríkarður; "nú, hann stendur í skránni".
 
Eftir það förum við til Kolåsen sem er í fjalllendinu í suður Norrland, með öðrum orðum í vestra Jämtland. Þar verðum við í sjö sólarhringa. Þar erum við heimavön og Anna, eins og hún heitir, veit hvaða hús við óskum okkur helst af öllu og þar verðum við.
 
Eftir það er svolítið óráðið hvað við gerum og kannski förum við heim frá Kolåsen.
 
Snemma í vor þegar ég var að ganga frá þessari ferð okkar var að venju mikið um slæmar fréttir. Þjóðir rifta rótgrónu samstarfi og starta köldu stríði, menn skjóta ótt og títt hvern annan í sunnanverðu landinu Svíþjóð sem og svo víða annars staðar og sjúkleg græðgi tröllríður stórum hluta mannkyns, bara svo að dæmi séu nefnd. Því var ég löngu ákveðinn í að skrifa þetta.
 
Svo hugsa ég til Kurts og Bengts sem leigja út bíla, til Ríkarðs og Jimmys sem geyma lykilinn í skránni, til Önnu í Kolåsen og ég gæti nefnt svo mikið annað. Ég vil heldur ekki gleyma konunni sem tók svo vinalega á móti okkur hér á hótelinu í gær eða stúlkunni sem seldi okkur kaffi í Vilhelmína. Ég er þakklátur fyrir að það finnast ennþá griðlönd hér á jörð.
 
Nú förum við Súsanne út til að kynnast lífinu í fjalllendinu.

Og að lokum til námunnar í Kristineberg

Hér kemur þriðja bloggið mitt um ferð sem við Susanne fórum upp í Lappland árið 2016, ferð sem ég endurpplifði á svo skemmtilegan hátt liggjndi á grúfu í rúminu mínu morgun einn í vetur, og mér fannst upplifunin svo góð að ég skrifaði hana niður þá þegar.
 
Þarna um morguninn þegar ég hafði hugsað mig í gegnum þetta allt sem ég hef skrifað um í síðustu tveimur bloggum kom að lokum upp í huga mér ferð okkar til Kristineberget. Þangað fórum við frá bæ sem heitir Arvidsjaur og er ennþá norðar en Fatmomakke, Saxnes og Vilhelmina. Þegar við komum til Kristineberget stigum við inn í litla rútu sem síðan ók upp í lágt fjall og þaðan niður í námu. Þar niðri settumst við á bekki í lítilli kapellu sem er á 90 metra dýpi og ung kona sagði sögu frá því þegar starfsmaður á gröfu kom niður í námuna snemma að morgni. Eftir að allt ryk hafði fallið niður eftir síðustu sprengingu skyldi hann nú vinna við það sem sprengt hafði verið kvöldið áður.
 
 
Þegar ennislampi hans lýsti upp í hvelfinguna fyrir framan og ofan hann sá hann mynd þar uppi á bergveggnum, mynd af Jesú. Hvað eftir annað lýsti ennislampinn upp í hvelfinguna og fyrir honum var það bara þannig; það var mynd af Jesú upp í hvelfingunni. Fleiri komu þarna niður sem ennþá höfðu ekki heyrt um myndina en sáu hana samt. Ljósmyndarar tóku sig til og tóku mynd af þessu fyrirbæri og fréttin barst út, út til annarra landa og blöð sýndu mynd af Jesúmyndinni í Kristinebergs námunni og fólk streymdi þangaðí pílagrímsferðir. Þetta var árið 1946 og alheimur enn í hræðilegum sárum og miklum þjáningum eftir aðra heimsstyrjöldina. Fréttin barst út um hinn hrjáða heim og mannkynið eygði ljós í myrkrinu; mynd af Jesú hafði fundist á námuvegg upp í Skandinavíu.
 
 
 
 
Samkvæmt lýsingu konunnar sem sagði okkur frá á þessi atburður að hafa linnað þjáningar margra í heiminum eftir atburði styrjaldarinnar og gefið von um nýja og betri tíma. Það er margt hægt að lesa um Jésúmyndina í Kristineberg (Kristusbilden) og frásagnir eru ólíkar og sumir draga dár að en aðrir eru gætnari. Ég hef hér að leiðarljósi frásögn konunnar sem fylgdi okkur niður í námuna. Hafi þetta gefið mannkyni von eftir skelfilega atburði fyrir meira en 70 árum sé ég það bara af góðu. Ég yfirgaf námuna ekki alveg ósnortinn get ég lofað og það lokkaði fram margar hugsanir. Í dag er hæpið að nokkur finnist á lífi sem eiginlega man eftir þessu en það finnst mikið skráð um það.
 
 
Þegar hér var komið sögu í svefnherberginu á Sólvöllum var klukkan yfir dyrunum að verða tuttugu mínútur yfir átta og ég ennþá liggjandi á grúfu. Við hlið mér var andardráttur að breytast og síðan byrjuðu hreyfingar sem bentu til að nú væri farið að morgna. Morgunferðalaginu mínu upp í Norrland var lokið. Þessi upplifun í mars mánuði í ár af eins og hálfs árs gamalli minningu var svo ótrúlega skýr og ég taldi það ekki hafa verið draum. Ég gekk að tölvunni svo fljótt sem ég gat og skrifaði þetta niður. Síðan eru nú fleiri mánuðir. Við ætlum til Saxnes, Fatmomakke, Stekenjokk, Stora Blåsjön og margra annarra staða í sumar, þarna mitt í hljóðlátu skógi vöxnu víðfeðminu og vera þar saman undir blárri himinhvelfingunni hvort sem skýin verða þar á milli eða ekki. Aldrei er Susanne betri félagi og vinur en þegar við erum saman þarna uppi.
 
 
        Þessa mynd tók ég ófrjálsri hendi á netinu og veit ekki hver ljósmyndarnn er en ég vona að hann fyrirgefi
        mér stuldinn. Efri myndina tók Susanne og þó að sú mynd sé óskýrari en þessi sést myndin á
        kvettavegnum betur þar. Á þessari mynd sést kapellan hins vegar betur. Kapellan er á 90 m dýpi en
        atburðurinn átti sér stað á 107 m dýpi. Jesúmyndin er máluð á vegginn eftir ljósmyndum.
 
Ég á eftir að birta eitt blogg enn sem framhald á þessum þremur bloggum um Lapplandsferðina. Það blogg verður svilítið um mannlífið þar uppi og á vorri jörð.

Fatmomakke, Stekenjokk, Stalon

Við vorum að yfirgefa Fatmomakke.
 
Eigum við að fara til Stekenjokk spurði Susanne. Já, það var nú best að hafa það þannig svaraði ég. Ég var orðinn förvitinn í alvöru um þetta hálendissvæði. Stuttu áður hafði ég talið að Stekenjokk væri smá byggðakjarni uppi á hálendi. Susanne settist undir stýri og vissi upp á hár hvert skyldi stefna. Hún hélt í stórum dráttum til norðvesturs, tók einn krók inn í stuttan, þröngan dal sem lá þarna inn í gríðarlegan fjallaklasa. Að lokum, eftir að hafa nokkurn veginn fylgt ánni Saxá, komum við að brekkurótum og litlu síðar vorum við komin upp úr skógarmörkum. Að lokum einnig upp úr eiginlegum gróðrarmörkum. Þar fyrir ofan var bara mosi á stöku stað og einstaka strá og fjallablóm á stangli. Malbikaði vegurinn lá áfram upp á hálendið og upp í óbyggðirnar og byrjaði að liggja suður á bóginn. Við skiltið 876 metar yfir haf stoppuðum við og stigum út.
 
 
 
 
Þarna uppi var landslagið gróðurlitlar ávalar bungur, vegurinn vel malbikaður en við vorum samt alein. Einhvers staðar þarna var málmnáma þar til nýlega, en þess sáust engin merki lengur þaðan sem við vorum. Allt virtist vera afburða vel frágengið. Nokkra kílómetra til vesturs voru norsku landamærin handan við sléttlendi sem lá ögn lægra í landslaginu. Það var suddarigning, það var hrátt í lofti, svolítil gola og frekar kalt, en það var samt eitthvað gott við að koma þarna. Milli okkar og norsku landamæranna voru stórar vinnuvélar og vörubílar sem við heyrðum ekkert til. Þar voru menn að byggja sterkan garð sem átti að halda inni vatni og leir sem fylgir námugrefti, leir sem er mengaður af þungmálmum ef ég þekki rétt, sem ekki má sleppa frítt út í umhverfið.
 
Á leiðinni til baka niður af Stekenjokk hugsaði ég til þess sem ég hafði upplifað þar uppi og þrátt fyrir allt langaði mig þegar að koma þangað aftur. Og ennþá þennan morgun þegar ég lá á grúfu í rúminu mínu langaði mig að gera það. Ég hef aldei farið Kjalveg en samkvæmt myndum sem ég hef séð þaðan virðist mér eitthvað vera sameiginlegt með Kili og Stekenjokk.
 
Á leiðinni til baka fylgdum við aftur ánni Saxá og þá uppgötvuðum við aldeilis ótrúlega fallegt landslag og útsýni. Allt sást í nýju ljósi þegar vegurinn lá niður í móti. Ég var sem upphafinn af öllu saman. Við vorum það bæði. Við komum að vegskilti; Stalon, og við vissum að vegurinn lægi upp á fremur lágt fjall. Þar sem sá vegur byrjaði var annað skilti sem á stóð: þennan veg ferð þú á eigin ábyrgð. Vegurinn er í eigu fyrirtækis og er svo mjór að þar er ómögulegt að mætast. En upp fórum við og mættum engum. Þar uppi sat ung kona með lítinn fallegan hund. Þegar hún var ekki lengur ein stóð hún upp, mætti okkur kurteislega og hélt gangandi af stað áleiðis niður.
 
 
 
 
Þarna uppi stoppuðum við lengi og höfðum fyrir okkur eitthvað fallegasta útsýni sem ég hef nokkru sinni augum litið, nokkuð sem ég ætla ekki að reyna að lýsa. Svo kom upp bíll með húsvagn. Hann stoppaði við hliðina á okkar bíl og bílstjórinn hljóp einn út úr bílnum, gekk hratt að handriði sem við stóðum við, leit hratt niður á dýrðina, gekk hratt inn í bílinn aftur og hvarf á braut. Svo vorum við ein þarna uppi góða stund, röltum um og skoðuðum útsýnið til allra átta.
 
Að lokum héldum við áleiðis í náttstð.
 
 
 
 
 
 Mér fannst ég bra verða að staðfesta að ég hefði verið þarna.

Frá Fjaðrá til Fatmomakke

Klukkan var hálf sjö þegar ég vaknaði morgun einn í vor. Eftir ferð fram eins og við segjum hér á bæ lagði ég mig aftur. Lagði mig á magann eins og mér var kennt af velviljuðu fólki áður en ég fékk nýja mjaðmarliðinn.
 
Þegar ég hafði dregið ullarfeldinn upp að hnakka og ég fann ylinn umvefja mig var ég allt í einu staddur við Fjaðrá vestan við Kirkjubæjarklaustur og árið var 1956. Þar var ég í hópi brúarvinnumanna að byggja fyrstu brúna yfir Fjaðrá stuttu neðan við hin þekktu Fjaðrárgljúfur. Fjórtán ára gamall var ég. Það var sunnudagur og yngri menn í brúarvinnuhópnum höfðu ákveðið kvöldið áður að ganga austur að Kirkjubæjarklaustri. En ég sem var lang yngstur valdi að fara ekki með. Þeir gengu austur á bóginn og upp með Hunkubökkum þar sem Ragnheiður og Hörður bjuggu upp í brekkunum með börnum sínum. Síðan héldu þeir austur á bóginn eftir fjallabrúnunum.
 
Sjálfur gekk ég upp með Fjaðrá. Ég gekk upp eina brekkuna af annarri þar til ég sá í Heiðarsel. Ég hafði aldrei komið þangað en vissi að það væri að finna á þessum slóðum. Þegar ég sá í Heiðarsel í nokkurri fjrlægð varð ég gersamlega hugfanginn af öllum þeim gróðri sem við mér blasti. Það var eins og endalaust grasi gróið land væri til norðurs, til austurs og vesturs og dágóðan spöl til baka. Aldrei hafði ég séð neitt því um líkt, ég sem var vanur við mjóar grasræmurnar meðfram fjallsrótunum í Fljótshverfinu. Síðan settist ég í grasið og var einn með kyrrðinni. Eflaust hefur einn og annar spói látið til sín heyra og eflaust hafa einhverjir fuglar verið á sveimi. Ég held að það hljóti að hafa verið kindur svolítið hingað og þangað til að njóta af gjöfulum gróðrinum. Svo sneri ég til baka og var í tjaldbúðunum löngu áður en Klausturverjar komu úr sinni ferð.
 
Síðan ég upplifði þetta eru liðin rúmlega sextíu ár. Það væri gaman að endurtaka þessa gönguferð svo löngu seinna og sjá hversu vel minningin hefur varðveitt upplifunina. Kannski er raunveruleikinn allt öðru vísi, kannski stenst þetta nokkuð eða alveg. En svo sterk var þessi upplifuni frá því að ég var 14 ára að ég minnist gönguferðarinnar oft enn í dag eins og til dæmis þennan vormorgun.
 
Það var sem sagt fyrir klukkan sjö þennan morgun sem dagurinn byrjaði með þessu ferðalagi sem var fyrir mér svo ótrúlega ljóslifandi. Síðan velti ég fyrir mér að það byrjaði snemma áráttan hjá mér að njóta þess að vera einn í félagsskap tilverunnar. Ég þekkti þetta líka svo vel úr Kálfafellsheiðinni, heiðinni heima. Í þessum hugsunum minum var ég allt í einu kominn til Fatmomakke upp í sænska Norrland, um það bil 650 km í beinni línu til norðurs frá Sólvöllum. Fatmomakke var kirkjustaður Sama frá því upp úr 1700 eða svo og langt fram á síðustu öld. Kirkjustaður og ráðstefnustaður væri sagt í dag. Fólk kom þangað vor og haust til að gifta sig, skíra, jarða og ráða ráðum sínum. Við Susanne gengum inn á svæðið eftir snyrtilegum malarstíg í dásamlegu sænsku sumarveðri. Við höfðum hljótt um okkur eins og nánast allir sem við urðum vör við þarna. Við héldumst hönd í hönd og töluðum saman í hálfum hljóðum. Susannes hönd fór vel í minni og það virtist vera gagnkvæmt.
 
 
 
Við komum að húsi sem ég get ímyndað mér að hefði kallast þinghús á Íslandi hér á árum áður. Rúðuglerið hleypti inn birtu en allt útsýni varð dálítið snúið og úr lagi fært gegnum þetta gamla gler. Á veggjum voru rammar með textum sem voru um sögu hússins og staðarins. Ég man mjög lítið af því sem þar stendur en á þeirri stundu sem við vorum þarna inni vorum við samofin Fatmomakke. Það var upplifun.
 
 
 
 
Við héldum síðan áfram eftir bugðóttum stígnum sem nú lá upp dálítinn halla og umhverfis var mikill fjöldi af Lappatjöldum, það var heilt þorp.
 
 
 
 
Við komum í kirkjuna og stoppuðum þar all lengi. Það var stillt og hljótt þar inni og einhvers konar virðing meðal allra sem stigu inn yfir þröskuldinn. Einn maður kom þó á töluverðri ferð og opnaði dyrnar til hálfs, kom inn með efri hluta líkamans, signdi sig og hvarf álíka hratt og hann kom. Annars var kyrrð og friður. Við héldum áfram stíginn þar til hann mætti sjálfum sér. Við höfðum gengið í all stóran hring og héldum þar með til baka út af svæðinu. Við vorum sammála um að koma hér aftur að ári eða árum. Við vorum undir sterkum áhrifum af hljóðlátum niði sögunnar.
 
 
                                                                                                          Framhald kemur síðar
 
Hún er einföld og stílhrein kirkjan í Fatmomakke.
 
 
Einn af textunum í þinghúsinu í Fatmómakke.
 
 

Snemmsumardagur á Sólvöllum.

Þessi dagur hefur bara verið góður þó að ég hafi verið með bílinn í þjónustu stóran hluta úr deginum og orðið af með helling af peningum. En þeir sögðu líka á verkstæðinu að bíllinn væri hér með fær í allan sjó í heilt ár ef ekki meira. Það gladdi mig og svo hélt ég heim á leið síðdegis. Eftir heimkomuna byrjaði ég á því að taka svolítið til úti við og síðan fór ég í gönguferð fram og til baka um Sólvallalandið. Fari ég um það í krókum og fram og til baka virðist það bara nokkuð stórt. Samt er það ekki einu sinni hektari.
 
 
 
Hlynurinn er það fyrsta sem grænkar svo um munar og hlynir setja mikinn svip heima við þegar setið er á veröndinni austan við húsið. Þeir eru sterkir og vindþolnir og vaxa hratt og beint ef ekkert er í vegi þeirra. Og svo eru þeir fallegir.
 
 
Beykitrén sem ég flutti frá Vingåker í Suðurmannalandi, í nágrenni við Vornes, árin 2006 til 2008 eru orðin að trjám. Ég veit ekki hver eru flutt hvaða ár þannig að nú segi ég að þau hafi öll verið flutt árið 2007. Ég hef haft mikla ánægju af þessum trjám og þótt fróðlegt að sjá hversu vel þau dafna. Eitt tré af 20 er dautt. Það er vel sloppið þar sem ýmsir töldu að þau mundu ekki lifa hér. Þetta tré er að nálgast tíu metrana.
 
 
Nærmynd af hengibjörkinni sem er búin að vaxa mjög hratt á einum tólf árum. Tvær til eru í pöntun og hlakka ég mjög til að þær komi og ég mun vanda þeim vel móttökurnar. Ég er löngu búinn að grafa fyrir þeim og setja góða mold í nýju heimkynnin þeirra.
 
 
Til vinstri heggur en það ber lítið á blómunum í kvöldsólinni. Til hægri er eik sem var nánast spíra, snúin og illa löguð, þegar við komum hingað. Þó að hún standi heim við húsið vissum við ekki af henni til að byrja með þar sem hún var umvafin reyniviði og greni sem voru að gera útaf við hana. Trén launa ríkilega allan velgjörning og þessi eik er orðin stórt og myndarlegt tré á ótrúlega stuttum tíma. Eikur eru að verða í algjörum meiri hluta trjáa á Sólvöllum. Það vantar mikið á að eikarblöðin séu búin að ná fullri stærð ennþá en samt eru þau orðin mjög falleg.
 
 
Það verða blóm á alparósinni í ár líka þó að hún hafi farið hálf illa út úr þurrkunum að áliðnu sumri í fyrra. Það verður að vanda gott að fá sér kaffibolla og kannski góða köku hjá henni þegar blómin verða sem fallegust.
 
 
Sannleikurinn er bara sá að bílar eiga ekki að vera í sjónmáli á svona stað. Til hægri eru hlynir sem ég hef gróðursett við vesturmörk lóðarinna til að skýla fyrir vestanátt, allt að skökku björkinni fyrir miðri mynd en hún er á lóð nágrannans. Allir hlynirnir eru sóttir út í skóginn utan sá sem næstur er. Hann er hins vegar ekkert betri þó að hann sé aðkeyptur. Moldarhaugurinn sem er nær í mynd er sameign mín og nágrannans sunnan við. Moldarhaugur sem er aðeins lengra frá er haugur sem er til kominn vegna vinnu sama nágranna við bílastæði fyrir fjölskylduna.
 
 
Hafið þið nokkurn tíma heyrt að húsi sé stillt upp þannig að það passi við tvö stór birkitré. Ef ekki þá hafði þið heyrt það núna. Ég veit að fólk sér að það er óslegið á Sólvöllum en það er að yfirlögðu ráði vegna mosa á lóðinni, bara svo að þið vitið.
 
 
Eplatré í blóma. Blómgunin eyðilagðist í fyrra eins og ég hef svo oft sagt þar sem um þetta leyti gerði hörkufrost á nóttunni. Núna er mikill hiti bæði daga og nætur og góður raki í jörðu. Því vænti ég mikillar berjauppskeru síðsumars og kannski verða nokkur góð epli í boði líka.
 
 
Hlynur aftur. Blöðin eru á að giska lófastór þessa dagana en eiga eftir að verða á stærð við undirskálar. Þá verður komið alvöru sumar. Það er virkilega gott að vera ellilífeyrisþegi á Sólvöllum og umsýslan við að halda þessu í horfinu og reyndar að fá á það betri mynd frá ári til árs heldur mér í formi. Samkvæmt farsímanum mínum geng ég fimm til tíu km á dag þegar ég er í þessu og mér líkar það betur en tækjasalurinn.
 
Ég tók þessar myndir núna undir kvöldið og samkvæmt þeim er mikill vöxtur á öllu. En á myndinni fyrir neðan má sjá að það er ekki allt í vexti á Sólvöllum. Það fór svolítið öðru vísi en ég ætlaðist til á rakarastofunni í dag en nú er ég alveg stór sáttur við útlitið.
 
 
 
 
 
 

Gestatíð

Það er orðið áliðið dags á föstudaginn langa og sólin lækkar á vesturhimni en þó eiginlega ótrúlega hátt á himni ef miðað við að það eru ískaldar næturnar hver af annarri. Það er eins og að vera nálægt miðjum vetri. Ungur veðurfræðingur spáði því nokkru fyrir jól að þessi vetur yrði frekar kaldur. Um tíma var eins og það mundi alls ekki ganga eftir en allt í einu og seint á vetrinum kom fram að hann hafði rétt fyrir sér. Nú hefur sami veðurfræðingur komið með aðra spá; þess efnis að það verði kalt þar til um miðjan apríl.
 
Þau virðast bara hafa það alveg ágætt þarna í leður tekkstólunum. Við höfum haft heimsókn frá Íslandi síðan á pálmasunnudag. Valgerður dóttir mín og Jónatan tengdasonur komu þá og þau fóru í dag. Þegar ég er að byrja að skrifa þetta eru þau líklega komin langleiðina til Vestamannaeyja. Það var engin sólarlandaferð fyrir þau að koma hingað þó að það væri bara býsna mikil sól, en það var sem sagt kalt. Og hvað er þá hægt að gera.
 
Á myndinni af þeim hér fyrir ofan erum við stödd í húsgagnaverslun sem er um 40 km sunnan við Örebro. Þessi verslun selur mest tekkhúsgögn sem voru framleidd kringum 1960. Svo er selt smálítið fleira þar frá sama tíma og árunum þar á eftir. Þau hafa komið í þessa verslun áður og keypt lítilsháttar. Síðast þegar við komum þar fann Jónatan skál sem hann vann við að forma og lita þegar hann var framleiðslustjóri hjá fyrirtækinu Glit í Reykjavík. Ég held að honum hafi hlýnað um hjartaræturnar við að finna þessa skál í útlöndum og hann keypti hana að sjálfsögðu. Í ferðinni þangað núna fann aðra skál framleidda í Glit þó að hann hefði ekki verið jafn mikið tengdur henni og þeirri fyrri. Sú skál er líka komin til Íslands aftur.
 
 
Þessi verslun er eins og ég sagði með mikið af tekkhúsgögnum frá því á sjöunda áratugnum. Svona húsgögn var verið að framleiða í TM-húsgögnum í Reykjavík þegar ég vann þar árin 1959 til 1963. Það er svo vel frá öllu gengið þarna, allt er vel viðgert sem þarfnast viðgerðar og þau hafa mjög góðan smekk fyrir uppstillingu. Ég skal viðurkenna að ég verð næstum ljóðrænn við að ganga um gólf í þessari verslun og móttökur fólksins þar eru með endemum góðar. Ég held að Valgerður og Jónatan hafi fundið fyrir þessu öllu líka.
 
 
Ég verð næstum ljóðrænn sagði ég og að halda utan um peningaveskið er alls ekki einfalt. Þessir sex stólar þarna höfðuðu mikið til mín. Þeir eru alls ekki ódýrir en svo ótrúlega fallegir og þægilegir. Það er aldrei að vita hvert leiðin liggur í næstu viku og spurning um að telja niður í veskið áður en lagt verður af stað. Það er Valgerður sem stendur þarna til hægri og er bara pínulítið inn í myndinni.
 
 
En við vorum ekki bara í verslunarferðum. Á þessari mynd eru sex íslendingar og tveir Svíar. Við söfnumst stundum saman sem búum hér á Örebrosvæðinu og nú slógust Valgerður og Jónatan með í hópinn. Til vinstri og næst okkur er íslenskan Ingibjörg Pétursdóttir og svo maðurinn hennar hann Leif Siik. Leif hafði verið með íslenskum manni til sjós. Eftir það fór hann til Íslands til að heimsækja þennan félaga sinn. Hann ílentist um skeið á Íslandi og þar kynntist hann Ingibjörgu. Hvorugt þeirra hefur sleppt hinu síðan. Þau giftu sig og þá varð Ingibjörg líka Siik. Leif talar góða íslensku og hann veit margt um Ísland sem ég veit ekki. Hann er Íslandsfróður maður.
 
Nær glugganum eru svo Jónatan og Valgerður. Á móti þeim sitja Svanhvít Gróa Ingólfsdóttir og Tryggvi Þór Aðalsteinsson. Þau eru búin að búa nokkru lengur í Svíþjóð en ég. Svanhvít hefur unnið við umönnun aldraðra og Tryggvi hefur lengi verið í forystu fyrir endurmenntun aldraðra á Örebrosvæðinu og víðar. Og að lokum erum við þarna ég og Susanne.
 
Þetta er góður hópur og við erum þarna á góðum stað, í Naturens Hus í Örebro. Naturens Hus er jú bara hús náttúrunnar. Því fylgir heil mikil saga sem ég fer ekki í gegnum hér en eitt er víst; Naturens Hus er virkilega fínni veitingastaður.
 
 
 
Valgerður og Jónatan hjálpuðu mér við að fella fimm tré. Í fyrsta lagi er ég aldrei einn þegar ég felli tré og í öðru lagi þurfti ég hjálp við að fella flest þeirra. Ég var búinn að spara að fella þau þangað til hjálp mundi berast. Tréð sem liggur þarna er birki sem var tæpir 24 metrar á hæð. Í fyrsta lagi skemmdi þetta birkitré háa furu sem stóð mjög nærri og háa furu vill maður ekki svo gjarnan skemma. Svo var birkitréð all bogið og ekkert skrauttré, en þó voldugt tré. Furur vaxa ekki hratt og það er borin stór virðing fyrir stórum furum. Það er bara ein stór fura í Sólvallaskóginum og hér eftir er þarna fura sem á tiltölulega stuttum tíma á möguleika á að verða sterkleg fura. Ég hef frelsað fleiri furur í skóginum. Þetta birkitré var jú hátt, 24 metrar eins og ég sagði og stofninn rúmlega 40 sm í þvermál. Ætli það hafi þá ekki verið upp undir eitt og hálft tonn sem skall til jarðar. Það fer ekkert alveg hljóðlega fram og það er heldur ekki alveg án tilfinninga fyrir eigandann að halda á mótorsöginni.
 
 
Hvorki ég eða Susanne höfum gert pizzu og ég hef ekki heldur verið svo mikill pizzumaður gegnum lífið. En Valgerður og Jónatan eru duglegt pizzugerðarfólk og þeirra pizzur hefur mér "reyndar" þótt góðar. Í gær vorum við Susanne sett við eldhúsbekkinn og gert að læra að gera pizzu. Í dag höfum við borðað pizzu sem við "sjálf" gerðum í gær undir vökulum augum reynds pizzugerðarfólks. Takk fyrir það Valgerður og Jónatan.
 
 
Susanne raðaði upp í dag ýmsu efnislegu sem tilheyrir páskum og tók mynd. Þannig lítur litla sófaborðið út núna, annað sófaborðið af tveimur sem við eignuðumst í Sólvallagötunni á að giska á árinu 1975.
 
 
Núna er kvöld á föstudaginn langa. Á að giska um hálf átta leytið í kvöld leit vesturhinininn svona út þegar sólin var að ganga til viðar bakvið Kilsbergen. Það verður farið snemma að sofa á Sólvöllum í kvöld, allt í fari okkar Susanne bendir til þess. Annars höfum við farið snemma að sofa núna í mörg kvöld. Gestirnir okkar gerðu það líka og það fer vel á því.
 
Góða nótt.
 
 

Lífð í sveitinni

Fyrir nokkrum dögum sáum við kvikmynd um siglingu breskra hjóna þvert yfir suður Svíþjóð, það er að segja frá Gautaborg til austurstrandarinnar og út á Eystrasaltið. Þau sigldu Gauta skipaskurðinn sem er afburða falleg leið og góð upplifun. Þetta minnti okkur á siglingu á Gautaskurði í fyrrasumar í sól og blíðu og mikilli náttúrufegurð og tilhugsunin um að fara aftur í svona siglingu kittlaði.
 
 
Susanne stendur þarna við lunninguna og aftur í skut er þreyttur maður, líklega of þreyttur til að sjá það sem fyrir augun ber. En þessa dagana er meinlaus vetur á okkar slóðum en vetur samt. Þá er meiri einfaldleiki yfir lífinu og gaman þegar svona perlur eins og siglingin á Gautaskurði birtist á skjánum.
 
 
Það lítur svona út á Sólvöllum þessa dagana en það er alls ekki kalt. Það er nógur viður til að brenna og við höfum nóg til að bíta og brenna. Matarbúr fuglanna er hlaðið góðgæti. Það eru aðstæður til að hafa það gott. Svo baukum við við okkar daglegu sýslur.
 
 
Hún Kristín Guðmundsdóttir skólasystir mín í Skógum kom í heimsókn til okkar í fyrrasumar. Eitt af því fyrsta sem hún talaði um eftir að hún steig út úr bílnum hér fyrir utan húsið var hvort við lifðum ekki sjálfbæru lífi hér á Sólvöllum. Nei, ég sagði að það væri reyndar langt frá því, því miður.
 
Lífið gæti verið mikið meira sjálfbært hér á Sólvöllum. Það er bara að vinna að því og sem ellilífeyrisþegi á ég að hafa tíma til þess. Vil ég eða vil ég eða ekki, nenni ég eða nenni ég ekki. Í pottunum á myndinni fyrir ofan er það sem ég kalla graskerssúpu. Ég útbý þessa súpu nokkrum sinnum á ári, svona um það bil tuttugu máltíðir hverju sinni. Síðan frysti ég súpuna og það er hægt að grípa til hennar hvenær sem er án nokkurrar fyrirhafnar. Ég kalla þessa súpu graskerssúpu þó að það sé orðið meira af öðru í súpunni en bara grasker. Fyrsta skiptið sem ég gerði þessa súpu var Pétur tengdasonur með og svo skrifaði hann uppskrift að henni. Þessi uppskrift er alltaf þungamiðjan í súpugerðinni þó að seinna hafi farið að kenna margra grasa í henni.
 
 
Það mesta þarna á borðinu hef ég einhvern tíma ræktað sjálfur, en brokkólíið hefur mér ekki tekist að rækta. Kálmaðkurinn étur blöðin og þegar þau eru uppétin verður ekkert brokkólí. Ég vil ekki eitra og þar með er ég dæmdur til að kaupa brokkólíið. Í skálinni næst lengst til vinstri er hvítkál en það hef ég ekki reynt að rækta. Ég reikna með að kaupa hvítkálsplöntur að vori og prufa. Ég veit ekki hvort kálmaðkurinn er hrifinn af hvítkáli. Það á eftir að sýna sig. Annað sem er þarna á eldhúsbekknum hef ég einhvern tíma ræktað sjálfur þó að sumt sé keypt í þessu tilfelli. Lengst til hægri er svo graskerið og það er heimaræktað. Það er skemmtilegt að gera mat frá miðju sumri og fram á haust því að þá eru margar ferðirnar farnar út í grænmetisholuna til að sækja krydd og eitt og annað grænt. Hluti af sjálfbærni ekki satt.
 
Svuntuna sem ég er í við súpugerðina fékk ég frá Vestmannaeyjafjölskyldunni í jólagjöf. Hún er í stíl við þjóðbúninginn.
 
 
Á þessari mynd eru tvær vinnukonur sem vinna gott verk fyrir mig. Þetta eru moltukerin. Í fötunum er moldin sem ég notaði ekki í grænmetisræktunina í fyrra. Tunnan sem er opin á hliðinni, sú til vinstri, er tunna sem ég var að tæma í föturnar. Síðan setti ég hliðina í aftur, setti lag af eikarlaufi í botninn, og tók síðan burtu eina hlið í tunnunni til hægri. Þegar ég hafði tekið efsta lagið úr henni og lagt til hliðar í hjólbörur, það er að segja lagið sem minnst var byrjað að molda sig, þá losaði ég innihaldið í tómu tunnuna og þar er nú í gangi seinni hluti moltuvinnslunnar. Ég gerði þetta eftir áramót en ef ég hefði gert þetta fyrr hefði ég líklega getað notað þá mold að vori. Hún verður tilbúin þegar líður á sumarið. Ég nota þessa heimagerðu mold sem jarðvegsbætandi og ennþá tölum við um sjálfbærni.
 
 
Fyrir eins og einu ári spurði mig ungur maður hvað það væru margar byggingar á Sólvöllum. Ég svarað því að vísu aldrei. En hér er skýli, einmitt hjá moltutunnum. Þar eru nú föturnar með moldinni frá í fyrra ásamt hænsnaskít, kalki, yfirbreiðslu, laufi, hefilspónum og fleiru sem tilheyrir moltuframleiðslunni. Það er sem sagt sjálfbær starfsemi þarna í Sólvallaskóginum. Tunnurnar þurfa á hvor annarri að halda og þær þurfa líka á skýlinu að halda svo að allt sé til staðar. Fyrsta árið var framleiðslan fáeinar fötur, næsta árið fáeinar hjólbörur og á þessu ári verður framleiðsla af tilbúinni moltu nokkrar hjólbörur. Tunnan til vinstri er nefnilega full og þær eru mun stærri en sýnist.
 
Vitiði eitt?! Það er gaman að þessu. Ég stunda meira sjálfbært en þetta og stefni á að gera lífið hér ennþá meira sjálfbært. Ég lít á þetta sem mitt verk enda er ég ellilífeyrisþeginn og kall þar að auki. Hins vegar var ég mjög þakklátur í fyrrasumar þegar ég sá að Susanne var komin út að grænmetinu og þar baukaði hún við að hreinsa burtu allt illgresi. Svo gerði hún tvisvar sinnum og eins og ég segi; þá var ég henni þakklátur.
 
Það er misjafn áhuginn. Stundum er ég að tala um skóginn við Susanne og svo átta ég mig á því að hún hlustar á mig kannski bara af því að hún vill mér vel. Ungur nágranni minn stóð við grjótgarðinn sem er milli lóðanna bæði hjá mér og honum. Við tókum tal saman og það var svolítill spölur á milli okkar. Við hlið hans var sjálfsáin skógarplanta, kannski einn og hálfur metri á hæð. Hvaða planta er þetta? spurði ég hann. Hann horfði nokkur andartök á plöntuna og sagði svo rólega: "Þetta er tré". Svo gekk ég alla leið og komst að því að þetta var silfurreynir. Í haust fékk ég lánaðan hjá honum langan stiga og hann vildi koma með mér og halda á stiganum með mér. Þú verður nú hissa þegar þú sérð hvað ég ætla að gera, sagði ég. Nei, svaraði hann, ég er löngu hættur að vera hissa á uppátækjunum þínum. En aðalatriðið er að Lars er afar góður strákur.
 
 
Aftur út á Gautaskurð.
 
En lífið er meira en bara það sem skeður á Sólvöllum og hér erum við aftur kominn í siglinguna á Gautaskurðinum. Hann er 390 km langur og þar af eru 87 km grafið, sprengt í klöpp eða hreimlega hlaðið. Annað eru ár og vötn sem skurðurinn tengir saman. Ef að er gáð má vel greina að landið hægra megin við skurðinn er mun lægra en vatnið í skurðinum. Fróður maður sagði mér að einu verkfærin sem hver maður hafði við gröftinn hefðu verið haki, skófla og hjólbörur. Og að hugsa sér; hann er hátt í 200 ára.
 
 
Það er auðugur og fallegur gróður meðfram Gautaskurði. Tréð næst lengst til vinstri er ekta hengibjörk. Tvær slíkar eiga að bætast við í Sólvallaskóginn í vor. Ég má ekki gleyma að panta þær í mars og þær eiga að vera heldur hærri en ég þegar ég kaupi þær. Þess vegna verð ég að panta þær.
 
Nóg að sinni en ég stefni á að skrifa meira um sjálfbærni

Samtíningur úr sveitinni

Þær eru sveiflukendar árstsíðirnar nú orðið. Það er eins og sumir einstaklingar átti sig ekki þá því lengur hvenær er vetur gengur í garð og hvenær er mál að leggja sig.
 

Þessi lind sem er rétt sunnan við Sólvallahúsið var að þrotum komin af þurrki seinni hluta síðastliðins sumars, laufin voru að mestu fallin og mér sýndist sem lindin yrði ekki eldri. Svo komu haustrigningarnar, óvenju drjúgar, og hún fékk nóg að drekka og viti menn; hún laufgaðist á ný og ég sá ekki betur en að hún hefði líka farið að vaxa. Nú skrifaði ég ekki niður hvenær hún að lokum felldi laufin og gekk inn í vetrarsvefninn en það hlýtur að hafa verið eins og um miðjan nóvember, ef ekki seinna. Það verður gaman að sjá að vori hvernig lindin kemur undan vetri eftir ýmis frávik í veðráttu síðasta árs.
 
 
Ég talaði um vetrarsvefn lindarinnar og ég meinti það eins og ég skrifaði það. Ég fékk bók í jólagjöf frá Rósu dóttur minni um jólin 2016, bók sem ég get ímyndað mér að mundi heita "Leyndardómar skógarins" á íslensku. Það eru afar merkileg áhrif sem ég hef upplifað við lestur þessarar bókar og ég get tekið undir orð manns sem skrifaði umsögn um hana, en hann sagði "að hann gengi öðru vísi hugsandi um skóginn eftir lesturinn". Ég geri það líka. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það annað en að segja að lesturinn hefur haft mjög góð áhrif á mig.
 
 
Það var alls ekki löngu eftir að lindin felldi laufin sín að ég gekk með myndavélina bakvið húsið og undir útiljós sem er á þvottahúsgaflinum móti skóginum. Ljósið kviknaði sjálfvirkt og þá blasti meðal annars við mér þessi eik. Með snjó á greinum og í sterku ljósinu líktust greinarnar einna helst miklum fjölda hreindýrahorna fannst mér.
 
Það eru tveir fuglahólkar á eikinni. Sá neðri á víst að vera fyrir músarindil eða einhvern álíka fugl. Ég setti upp þrjá slíka hólka í skóginum í fyrra en fékk enga ábúendur í þá. Efri hólkurinn getur verið fyrir fugla af ýmsu tagi. Sá fékk ábúendur á fyrsta degi ef ég man rétt eins og flestir þeirra tólf annarra hólka sem ég setti upp í fyrravor. Það er sjálfsagt hluti þessara fugla sem eru nú eru daglegir gestir í matarbúri smáfuglanna sem stendur á staur skammt vestan við íbúðarhúsið.
 
 
Þetta beykitré er eins og önnur ung beykitré og fellir ekki laufið þó að vetrarsvefninn standi yfir. Lauf þessara trjáa eru vissulega búin að fá haustlitina en þau hafa ekki fallið ennþá. Það mun ekki ske fyrr en ný lauf fara að vaxa að vori. Sama er að segja um sumar kvæmi af eik. Þetta er fallegt frávik hjá skógarflórunni.
 
 
Það er svo sem ekki hægt að segja annað en að veturinn er snyrtilegur en þó ekki nema að það snjói. Þessa mynd tók ég fyrir nokkru dögum um hábjartan daginn en eiginlega er eins og það sé ekki alveg bjart. Það hefur verið þannig margan daginn upp á síðkastið, það hefur verið lágskýjað og ekki alveg bjart. Svo er bláberjabekkurinn lengst til vinstri á myndinni. Hann var orðinn dálítið mosagróinn þannig að ég þvoði hann með háþrýstidælunni  í fyrrasumar. Þá varð hann svo fínn að síðan er hægt að setjast í hann og hugleiða mál sem þarfnast úrlausnar eða bara til að láta hugann reika.
 
 
Þegar spætan kemur í matarbúr fuglanna flýja þeir sem eru ögn hógværari. Spætan er ekki í vafa um það hvað hún vill og hún tekur það ef það bara er mögulegt. Önnur spæta er í aðflugi þannig að það er einfaldast fyrir hina hógværu að láta sig hverfa.
 
 
Síðasta blogg fjallaði um verkin í sveitinni og þá var það mikið um eldivið. Ég á eftir einn dag við viðarkljúfinn og þá er þeim áfanga lokið. Svo þarf ég að fella fleiri tré og byrja upp á nýtt við kljúfinn. Þegar ég stend þar úti er ég dúðaður í mikið af fötum og þá lít ég alls ekki svo snyrtilega út og er þar að auki einkennilegur í laginu. Ég tók á mig svolítið betri fatnað þegar við fórum í rútuferð vestur í Vermland í haust, til Karlsstað. Það mesta af fötunum keypti ég í Vestmannaeyjum í haust utan jakkan sem ég fékk hjá Jónatan tengdasysi, en hann passaði ekki í þennan jakka. Heppinn var ég þar.
 
Í Karlstað komum á vatnslitamyndasýningu og ég stoppaði við myndina sem er til hægri og velti fyrir mér hvort hun væri ekki frá Íslandi. Svo fékk ég að heyra að listamaðurinn, Lars Lerin, hefði verið mikið í norður Noregi og í Síberíu. Þar með afskrifaði ég að fyrirmyndin væri íslensk, enda var byggingarstíllinn ekki alveg íslenskur en náttúran gat svo vel verið íslensk.
 
Það var umræða um Feisbók og Instagram í sjónvarpi í kvöld og alla þá hamingju sem reynt væri að sýna þar á myndum. Sérfræðingur var kallaður til til að ræða þetta og hún sagði að hamingjan væri reyndar ekki svo mikil sem reynt væri að sýna á myndunum. Mér þótti vænt um að heyra það því að stundum fer ég í fýlu, stundum er ég leiður og ég á það til að bölva hátt ef ég rek hausinn í hvasst horn. En oftast er ég ánægður og það er það sem ég segi mest frá. Núna er ég ekkert af þessu því að það er orðið mjög áliðið og ég er þreyttur. Ég er svo þreyttur að fyrir nokkrum mínútum sofnaði ég og olnboginn rann út af borðinu. Mér brá hressilega og það fyrsta sem ég hugsaði var hvar í ósköpunum ég væri staddur. En ég var bara hér, heima hjá mér, og tíndi saman nokkur atriði til að láta vita um mig.

Um verkin í sveitinni

Hér er tilraun til að blanda samann jarðneskum veruleika og svolitlum andlegum spekúleringum.
 
 
Ég talaði við Ísland aldeilis nýlega og þá var mér sagt að ég ætti að skrifa meira svo að fólk gæti séð hvað ég hefði fyrir stafni. Í næst síðasta bloggi talaði ég um að gera áætlun fyrir nýja árið og svo talaði ég um eldivið, en ég er einmitt þar núna. Ég er að kljúfa við til upphitunar. Ég talaði líka um það í næst síðasta bloggi að þegar ég er að kljúfa við geti ég látið hugan svífa yfir lönd og höf og langt út í himingeiminn. En það sem ég talaði ekki um í því bloggi var að ég þarf ekki endilega að láta hugan leita út á við, það er ekki verra að láta hann leita inn á við. Ég er nokkuð vel sáttur við mínar innri lendur og er ekki smeykur við að dvelja þar.
 
 
Þetta sem við sjáum á myndinni hef ég fyrir framan mig þegar ég er að kljúfa eldivið. Ég læt hugann gjarnan leita inn á við þegar ég er í ró og næði við þessa vinnu mína. Viðarkljúfurinn er afar hljóður og hann truflar ekki. Áður en ég byrjaði að skrifa þetta nú á mánudagskvöldi hlustaði ég á messu í sjónvarpinu, messu frá því um síðustu helgi fyrir jól. Ég sá svolítið af þessari messu þá og heyrði en var upptekinn við annað, eins og til dæmis að setja upp jólaljós og því vildi ég sjá hana aftur. Hún var hógvær þessi messa og látlaus og enginn stal senunni frá neinum öðrum. Allt var gert í svo mikilli einlægni að ég varð snortinn. Prestur talaði um daglega framkomu okkar og hvernig við til dæmis mættum nágrannanum í hversdagslífinu. Ég skildi að ég gæti vandað mig betur í öllu sem ég hugsa, segi og aðhefst. Biskup nokkur talaði um kyrrðina, kærleikann, óttann -og að þrá. Hann gekk meira inn á við. Þetta hefur áhrif á bloggið sem ég er að skrifa akkúrat núna og það var meiningin.
 
Nú skrifa ég þetta undir mynd af viðarstafla. Mynd og texti passar kannski ekki alveg saman eða hvað? En vinnan við viðarstaflan er hljóðlát. Fyrir einum tveimur árum sagði nágranni minn við mig að ég skyldi lána viðarkljúfinn hans því að þá gæti ég lokið þessu á nokkrum klukkutímum. Ég lánaði hann aldrei því að þá hefði ég líka þurft að lána traktorinn hans og  þá hefði þetta bara orðið ógnar hraði og hávaði. Ég hefði orðið stressaður og ringlaður í kollinum og ekki notið verksins.
 
 
Þegar ég stend við viðarkljúfinn hef ég þetta hins vegar fyrir aftan mig. Ég hef nú þegar klofið um það bil helminginn af þessu. Það er gott að hafa góða viðargeymslu. Viður sem rignir úti og sólbrennur þess á milli verður ekki góður viður. Ekki heldur viður sem liggur á jörðinni undir segli eða ábreiðu. En viður í vel loftræstu húsi verður góður viður. Hún Fanney Antonsdóttir frá Hrísey gaf mér fyrir nokkrum árum bók um eldivið, alveg frábæra bók. Ég gerði samt ekki eins og bókin segir því að samkvæmt henni á ég á ekki að geyma óklofinn við lengi. Það er samt betra en að láta veður og vinda skemma hann. Nú hef ég lofað sjálfum mér að gera svona aldrei aftur. Áætlunin mín segir að ég gangi frá þessum viði og lagi vel til í geymslunni fyrir lok mánaðarins. Síðan þarf ég að fella ein tíu til tólf stór tré, hreinlega til að grisja. Ég þarf ekki á öllum þeim viði að halda og ég vil ekki taka svo langan tíma í þessa vinnu þannig að ég ætla að gefa tveimur nágrönnum mínum hluta af þessum trjám. Í fyrra felldi ég 36 tré, þau sem ég er að kljúfa núna, en þau voru mikið minni en þau sem ég ætla að taka í vetur.
 
Fyrir miðri þessari mynd lengst frá er svartur ferkantaður reitur. Þar á að koma gluggi. Spæturnar hafa svo gert götin á veggpappann. Kannski eru þær að minna mig á að það sé kominn tími til að setja gluggann í vegginn í stað þess að láta hann standa upp við vegg í geymslunni eins og hann gerir núna ásamt öðrum glugga sem líka á að vera á þessu húsi.
 
 
Það hefur verið ógnar mikill reyniviður í Sólvallaskóginum en nú er ég að veraða búinn að losa mig við hann. Fyrir mér er reyniviður sem illgresi. Hann veður yfir og skemmir annan trjávöxt af mikilli hörku. Samt er reyniviður mjög fínn þar sem hann passar og þar sem slegið er umhverfis hann. Mest af þeim trjám sem ég felldi í fyrra var reyniviður og svo þegar engin reyniviðartré verða eftir í skóginum til að framleiða ber, verður leikurinn léttari. Ég hreinsaði líka burtu eitthvað töluvert á annað þúsund reyniviðarplöntur í fyrra. Slagnum við reyniviðinn er ekki lokið en ég skal ekki gefa mig ef skaparinn gefur mér tíma og heilsu. Ég lofa.
 
Kuppurinn hér fyrir ofan er nefnilega reyniviðarkuppur sem ég var að kljúfa í gær. Mikið af reyniviði er erfitt að kljúfa og þessi kuppur segir allt sem segja þarf um það.
 
 
Það endar með því að exin verður að vera með til að ná kubbunum í sundur. Allur annar viður sem ég fæ úr skóginum er þjáll að eiga við.
 
 
Viðarkljúfur að verki. Þetta þyrfti að vera hreyfimynd en ég ræð ekki við það einsamall þar sem báðar hendur verða að vera á tækinu þegar það er í hreyfingu. Það er mikið öryggisatriði.
 
 
Þannig er nú það. Ég er einn heima þar sem Susanne er í tuttugu og fjögurra ára afmæli sonar síns í Eskilstuna. Ég valdi að vera heima og halda áfram með mitt. Þegar ég er kominn í vinnugalla sem dugir til að halda á mér hita og er kominn í vinnuvetlingana og með húfuna á höfuðið segi ég oft að ég sé eins og heysekkur. Susanne þverneitar því hins vegar að ég sé eins og heysekkur. Ef ég væri kominn í fína veislu í Róm, París eða New York myndi ég trúlega ekki vita hvaða hnífapör ég ætti að byrja á að nota eða eða hvernig ég ætti að leggja þau á diskinn þegar ég væri búinn að borða af honum. Spurning hvort ég vissi almennilega hvernig ég ætti að nota servíettuna. Kannski mundi ég ekki heldur vita hvað ég ætti að segja. En mér þykir vænt um allt hér og mér líður vel með það sem ég hef. Þannig er nú það.

Minn gamli nágranni Ottó Þorgilsson

Þegar við Valdís fluttum til Hríseyjar var ég rúmlega tvítugur maður. Þá var mikið af minni mótorbátum í eynni og margar trillur. Ég fór mér mjög varlega í byrjun innan um þetta fólk sem hafði lifað lífi sem var mér mjög framandi og í mínum augum voru sjómennirnir hreinar hetjur. Níunda apríl veðrið 1963 var þá nýlega afstaðið og var heldur betur í fersku minni fyrir marga á Eyjafjarðarsvæðinu sem þá þreyttu mikla raun við að bjarga sér í land og margir komust heldur ekki í land. Ottó Þorgilsson var einn þeirra sem barðist við þetta veður og náði landi. Það eru ár og dagar síðan og Ottó fór í sína hinstu heimferð að kvöldi jóladags síðastliðinn.
 
Síðdegis daginn eftir settist ég við tölvuna og rúllaði niður skjáinn og um leið og ég sá ljóst hár Ottós birtast á skjánum vissi ég það, ég hefði ekki einu sinni þurft að lesa skilaboðin hennar Dísu, Ottó var dáinn. Það var ekkert sem kom mér á óvart þar sem ég vissi að þessi stund nálgaðist, en þar sem ég sat við tölvuna og horfði á andlit hans fann ég fyrir djúpri sorg. Það eru svo ótvíræð vegamót þegar menn deyja. Þeir sem eftir lifa halda áfram eftir veginum en hinir fara aðra leið og við hin sjáum þá aldrei meir.
 
Það var í byrjun sjöunda áratugarins sem við Valdís bjuggum með Valgerði litla í Kelahúsinu við Austurveginn í Hrísey. Í næsta húsi sunnan við bjó sjómaðurinn Simmi með henni Gunnhildi sinni en í þar næsta húsi bjuggu Ottó og Dísa. Ég þekkti þessa menn alls ekki neitt. Ég hafði bara séð þá ganga framhjá og jafnvel aldrei talað við þá. Þeir voru sjómenn á minni mótorbátunum í eynni. Það var mikill snjór og allar götur í Hrísey voru ófærar og það stóð ekki til að ryðja þær að sinni. Alveg óvænt varð olíutankurinn við Kelahúsið tómur og hann reyndist lekur. Kuldi byrjaði að sverfa að. Í örvæntingu minni spurði ég sjálfan mig hvað ég gæti gert. Axel, sem annaðist olíusöluna í eynni, hafði sett olíu á tunnu fyrir mig og stóran sleða hafði ég fengið lánaðan en mér var engan veginn fært að draga tunnuna heim einsamall.
 
Ég bankaði að lokum upp á hjá Simma og Ottó og bað um hjálp. Það var svo sannarlega sjálfsagt og við drógum heim tunnuna og stilltum henni upp við tankinn. Þegar þeir síðan gengu heim á leið sneri Ottó sér við og sagði; ef það er eitthvað, bankaðu þá bara upp á góurinn. Þessi orð hans man ég svo vel enn í dag og ég man álíka vel hvað ég var þakklátur fyrir þessi orð. Það var eins og ég yrði meiri Hríseyngur eftir að hann sagði þetta.
 
Mörgum árum seinna bankaði Ottó upp á, þá við Sólvallagötuna í Hrísey, og spurði hvort ég vildi koma með honum yfir að Skarfabríkinni vestan megin við sundið. Svo fórum við þangað á litla bátnum hans með utanborðsmótornum. Þá var hann hættur á sjó sem atvinnumaður. Svo fórum við upp að skarfabríkinni á litlu trillunni hans, Dísu, og ætluðum að bíða þar þar til skarfarnir myndu koma og setja sig á bríkina.
 
Allt í einu og alveg óvænt rauk hann upp með hvassan suðvestan vind, svo harðan að það hvítnaði samstundis í báru. Við verðum að fara strax heim sagði Ottó án alls asa og við lögðum þar með af stað. Ég sat fram í og horfði á Ottó stýra bátnum. Allt í einu sá ég hvar hann tók viðbragð, hægði á og stýrði bátnum snarlega móti bárunni, og svo fengum við hvítfryssandi sjó yfir okkur og urðum gegnvotir. Þarna sá ég góðan sjómann bregðast leiftursnggt og rétt við. Þegar heim var komið sagði hann mér að þarna hefði verið nauðsynlegt að bregðast rétt við, annars hefði getað farið illa.
 
Oft fór ég með Ottó umhverfis eyna á litlu trillunni hans, henni Dísu. Líklega var það í fyrstu ferðinni sem hann fór nokkurn spöl norður fyrir eyjarendann og stoppaði þar. Sjór var spegilsléttur en örhæg undiralda. Það var sem hann biði einhvers. Allt í einu kom viðbjóðslegur dökkur kollur upp úr sjónum nokkra faðma frá og mér fannst blóðið kólna í æðum mér. Þetta er Brúnka sagði Ottó stillilega. Svo færðist Brúnka í kaf aftur og þegar hún var að hverfa undir yfirborðið risu þarastrengirnir upp og kollurinn líktist einhverjum ógurlegum risa með loðið höfuð sem hefði stungið kollinum upp úr sjónum í nokkur augnablik. Hann var ekki að reyna að hrekkja mig, hann var bara að sýna mér Brúnku. Hann þekkti svæðið umhverfis Hrísey og Hríseyjarfjörurnar eins og fingur sína og vissi nákvæmlega hversu nærri hann mátti koma á hverju stað. Þetta var sjómaðurinn Ottó og það eru margar sögur sem koma upp í huga mér þegar ég skrifa þetta. Ég gæti skrifað mikið, mikið meira um þennan sjómann sem síðar varð verslunarmaður í fjölda ára en sjómaðurinn lifði alltaf í honum. Hann sagði ekki frá svo miklu en ég veit að þegar sem mjög ungur sjómaður lenti hann í atburðum á sjó sem hljóta að hafa mótað persónuleika hans mikið.
 
Ottó fór aldrei fram með offorsi. Hann fór ákveðið en stillilega fram, virtist alltaf vita hvað hann var að gera og stundum öfundaði ég hann af þessum eiginleika. Ég get rétt ímyndað mér hversu tryggur fjölskyldufaðir hann var og hann var einstaklega tryggur vinur. Við vorum vinir og mér hefur alltaf þótt vænt um hann síðan hann hjálpaði mér við að koma olíunni heim og han sagði; ef það er eitthvað, bankaðu þá bara upp á góurinn. Ég sakna þín Ottó, það er svo óumdeilanlegt að vegir okkar hafa gengið til ólíkra átta nú um sinn. Þakka þér fyrir svo margt sem við baukuðum saman og fyrir mörgu sjóferðirnar sem þú bauðst mér að taka þátt í. Og að lokum; þú áttir nokkurn þátt í að móta minn persónuleika því að ég fann góða fyrirmynd í þér. Ottó verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag, fimmtudag, kl. 13,30. Farðu í friði vinur.
 
 
Sumarið 2012 komu Ottó og Dísa í heimsókn til okkar á Sólvelli. Hér eru þau að spássera í Sólvallaskógi.
 
 
Ottó kom ekki í heimsókn til Svíþjóðar bara til að dingla sér eins og hann sagði oft. Hann hjálpaði mér úti við með eldivið og fleira og hér er matarhlé.
 
 
Og hér erum við á ferðalagi á ferðalagi skammt norðan við Örebro. Bærinn Nora og Noravatnið í baksýn.
 
 
Við sund milli lands og eyjar í Vatninu Hjälmaren.
 
 
 
 

Skrýtnari maður en þetta er kannski vandfundinn

Hér í sveitinni runnu saman morgunverður og hádegisverður í dag, svo rólegt var það og ég hef ekki orðið var við einn einasta bíl fara framhjá þegar ég byrja að skrifa þetta klukkan fimm síðdegis. Eftir morgun/hádegisverð fórum við í gönguferð það sem við köllum að fara hringinn. Það er tæplega þriggja kílómetra langur hringur hér innan byggðarinnar. Undir lok þessarar gönguferðar hugsaði ég um áætlun sem ég ætla mér að gera áður en nýtt ár gengur í garð. Það er áætlun um það sem ég vil hafa fyrir stafni undir mánuðunum fram á vorið. Svona áætlun geri ég oft en þó fyrir styttri tíma en þetta. Það forðar stressi og eykur það sem ég kemst yfir án þess þó að leggja of mikið á mig.
 
Þegar heim var komið  ákvað ég að fara í rólega yfirlitsferð hér úti til að safna að mér punktum í áætlunina. Svo þegar ég var búinn að ganga kringum húsin brá ég mér út í skóg og gekk þar einn og hálfan hring. Það er langt síðan nú að ég hef farið í svona yfirlitsferð í skóginum. Birtu var farið að bregða en ekki um of sem gerði það að verkum að það var ofur góð og róandi stund sem ég var þarna í skóginum.
 
Ég fann að þessi yfirlitsferð var mikið notalegri en ég átti von á og mikið notalegri en á sama tíma í fyrra. Ég hugsaði hvers vegna en var fljótur að koma fram til að það var vegna þess að í fyrrasumar gerði ég stór átak í skóginum þegar ég grisjaði mjög mikið. Það tók fleiri vikur. Það var á röngum árstíma en það var jafn áríðandi samt sem áður. Ég hafði ekki gert þetta í ein tvö til þrjú ár og það var hreina myrkviðið að byrja. Svo þegar ég var byrjaður gat ég varla hætt. Nú naut ég þess að hafa gert svo. Ég þarf að vinna í skóginum í vetur en það verða bara þægilegir smámunir miðað við árið sem er að líða. Þegar ég kom heim úr skóginum var eftirmiðdagskaffi sem Susanne hafði borið fram.
 
Ég er alltaf öðru hvoru spurður hvað ég geri með dagana hér á Sólvöllum. Áður lét ég þetta fara svolítið í taugarnar á mér en nú orðið er mér alveg nákvæmlega sama. Þegar nágrannaparið neðst í brekkunni fer á þjóðdansaæfingu, en þau eru líka ellilífeyrisþegar, er ég kannski að koma inn frá því að kljúfa við. Mér líður vel þegar ég er að kljúfa við. Þar get ég látið hugan svífa yfir lönd og höf og langt út í himingeiminn og svo hef ég gaman af að stafla viðnum þannig að framhliðin sé alveg slétt. Svo get ég skroppið inn í kaffi og fengið mér hrökkbrauð með osti. Það er gott.
 
Þegar annað fólk fer á golfvöllinn fer ég kannski út í skóg og hlúi að einhverju eða grisja á einhverjum ákveðnum stað. Svo lít ég yfir verkið og er ánægður. Þegar enn annað fólk fer í veiðitúr fer ég kannski út og hreinsa illgresi. Það er alveg ótrúlega leiðinlegt að byrja en þegar ég er kominn af stað verð ég óstöðvandi. Þannig get ég haldið áfram að telja upp. Ég er einfari en Susanne kvartar ekki undan einfaranum í mér. Þetta býr í henni líka. Valdís kvartaði ekki heldur undan einfaranum í mér en eftir á að hyggja hef ég oft velt því fyrir mér hvort ég hafi misboðið henni með þessu.
 
Þegar ég nú lít yfir árið höfum við líka gert alveg helling af skemmtilegum hlutum. Við höfum farið í heimsóknir og við höfum farið á tónleika og revíu. Við höfum farið með fólki út að borða eða á kaffihús. Svo höfum við líka farið ein út að borða og ein á kaffihús og svo hef ég farið í þriggja vikna Íslandsferð. Einfararnir á Sólvöllum eru því ekki alveg mosagrónir.
 
Þannig er nú það. Þegar ég gekk út eftir okkar sameiginlegu gönguferð og leit yfir svæðið hrönnuðust upp verkefnin á verkáætluninni minni. Svo ætla ég að taka þau nauðsynlegustu á verkefnalistann og önnur fá að bíða fram á næsta sumar eða til næsta árs. Það skal verða hóf á hlutunum. Þegar ég kom út í skóginn rak ég fyrst af öllu augun í tvo laufhauga með svo sem tíu metra millibili.
 
Mitt í þessum laufhaugum eru tvær gryfjur sem eru svo sem einn meter að þvermáli og yfir hálfur metri á dýpt. Þær eru fylltar með góðri mold og svo er á að giska átta fermetra svæði kringum þær þakið með fet þykku lagi af laufi. Í vor ætla ég að setja eina hengibjörk í hvora holu þar sem þær eiga að hafa það gott í góðum jarðvegi. Lauflagið í kring á að vera til jarðvegsmyndunar lengra fram og til að halda raka í jarðveginum hjá þessum nýju íbúum skógarins. Næsta ár ætla ég að bæta á lauflagið. Nokkra metra frá hvorri holu er haugur af grjóti, grjóti sem ég velti burtu þegar ég gróf holurnar. Það var sem og margt annað sem ég hef gert hér að ég hálf kveið fyrir greftinum en þegar ég var byrjaður var hann skemmtilegur. Skrýtnari maður en þetta er kannski vandfundinn.
 
Nú hlakka ég til að fara í verslunina Skrúðgarðagróður í Örebro í mars og panta hengibjarkirnar og svo vona ég að þær verði komnar í byrjun apríl og þá verður gróðursetningarhátíð. Það er gaman að þessu bara svo að þið vitið. Þetta er aðeins ágrip af því sem ég nýt af að taka mér fyrir hendur.
 
Nú verð ég að gjöra svo vel að lesa þetta yfir og ákveða hvort ég birti það. Það sem ég hef skrifað nú er langt frá því að vera það sem ég hélt í byrjun.
 
Eigið margar góðar stundir á ókomnum tímum.

Að endingu frá Kálfafellsdvöl í september 2017

Þegar sem unglingur áttaði ég mig á því að Stefán bróðir hafði eiginleika sem vantaði alveg í mig. Hann þekkti fé á löngu færi, gat sagt hvar hann hefði séð sama fé árið áður eða eitthvað á þá leið og hann sá hvernig því leið.
 
 
Eins og þessi mynd ber með sér, mynd sem ég tók í september síðastliðnum, þá er hann árvökull og tekur vel eftir. Í bílferð í heiðinni sagði hann allt í einu að hann hefði séð fimm kindur sem ekki væru ennþá komnar í girðinguna með öðru fé. Það átti nefnilega að fara að rétta. Ég er átta árum yngri og hafði ekki séð neina. Svo verður að segja eins og er að Stefán er fjármaður, hann er góður við fé. Hann er kominn á eftirlaun en hann er samt á fullu við að aðstoða við fjárbúskap.
 
Svo var réttardagur á Kálfafelli og það var í fyrsta skipti sem ég sá réttað í húsi. Fallegt var féð og hvaða bóndi sem var mátti vera stoltur af svona fríðum hópi.
 
Móðurfólkið mitt kemur frá Seljalandi, nokkra kílómetra frá Kálfafelli. Þau voru 16 systkinin og þau eru öll farin heim og við sjáum þau aldrei meira. Að koma í heimsókn á Seljaland var ekki að koma á hvaða bæ sem var, en hluti systkinanna bjó þar alla sína ævi. En Seljaland fór ekki úr ættinni því að nú býr Snorri bróðir þar með henni Ragnheiði sinni. Snorri og Stefán eiga það sameiginlegt að hætta ekki að annast fallegt fé þó að þeir séu komnir á aldur og Snorri er með eigin fjárbúskap. Trúlega líður þeim best þannig.
 
 
Að horfa út um suðurgluggann frá matarborðinu, þar sér maður yfir stórt landssvæði sem varð til svo nýlega að ég reikna með að afar og ömmur langafa og langamma minna hafi upplifað það tímabil. Hér er ég að tala um eystri hluta Skaftáreldahrauns.
 
 
Austur með hlíðunum austan við Seljaland rennur Hlíðarvatnið. Stundum sást silungur í vatninu og þó að það væri ekki meira en að sjá gára fyrir silungi á hreyfingu í þessu kyrrláta vatnsrennsli -það var ævintýri.
 
Ragnheiður og Snorri, takk fyrir stóru tertuna sem ég fékk að borða svo mikið af þegar ég kom til ykkar í haust. Og útsýnið frá matarborðinu þar sem við borðuðum af tertunni, það er ekki alveg hversdagslegt. Seljaland er alveg einstakur staður skulið þið vita ábúendur.
 
Og Hafdís í austurbænum á Kálfafelli, þakka þér fyrir að gefa þér tíma og rölta um með mér og sýna mér nýja húsið sem þið Rúnar Þór eruð að byggja. Þegar þú af innlifun sagðir mér frá fyrirætlunum ykkar var virkilega skemmtilegt að hlusta á þig.
 
Heiða í vesturbænum, þakka þér líka fyrir að ganga um með mér og sýna mér hvað þið Björn Helgi hafið fyrir stafni og að sýna mér nýju gistihúsin ykkar tvö, þau sem þegar eru tilbúin. Og gaman er að sjá á netinu einkunnirnar sem þið fáið frá viðskiptavinum ykkar.
 
Lárus í efri bænum, þakka þér líka fyrir að koma til mín í heimsókn í sumarhúsið hennar Fríðu þar sem ég dvaldi í nokkra daga meðan meðan á Kálfafellsdvöl minni stóð, dvöl sem ég notaði til að viðhalda góðum minningum og tilfinningum mínum fyrir bernskuslóðum mínum. Þú ert fróður maður og viðræðugóður Lárus og drengur góður.
 
Hér með lýkur skrifum mínum um Kálfafell 2017 utan eina mynd sem ég læt fljóta með í lokin.
 
 
Ætli ég hafi ekki verið svo sem tólf ára þegar ég gekk við annan mann á svipuðum aldri eftir rákinni sem liggur þarna svolítið skáhallt eftir klettinum. Við fengum ekki lof fyrir tiltækið get ég fullyrt og þegar ég horfði á þetta í haust var ég mjög ákveðinn í að gera enga nýja tilraun. Mér hraus hugur við.
 
Þegar ég ók vestur á bóginn og þessari nokkurra daga heimsókn minni til bernskuslóðanna var lokið, fann eg fyrir sama trega og ég hef alltaf fundið fyrir þegar ég yfirgef Fljótshverfið.
RSS 2.0